„Ég vil fara í paradís“
Þegar ég bað til Guðs og spurði um þessa nýju leið fannst mér ég sannfærðari um sannleikann sem ég hafði fundið.
Ég hafði verið staðfastur meðlimur í annarri kirkju, en tók síðan að læra kenningar hennar um hreinsunareldinn. Þessi hugmynd kennir að sálin fari á álíka stað og fangelsi eftir líkamsdauðann, þar sem hún verður hreinsuð áður en hún fer í paradís.
Þegar ég hugsaði um þjáningar sálna í hreinsunareldinum, velti ég fyrir mér andlegri framtíð minni og sambandi mínu við Jesú Krist. Ég tók að biðja: „Hvað þarf ég að gera til að sleppa við hreinsunareldinn? Ég vil fara í paradís.“
Það fyrsta sem mér datt í hug var að lifa eftir boðorðunum tíu. Mér fannst að ef ég gerði það, myndi náð Drottins gera mér kleift að forðast hreinsunareldinn. Ég einsetti mér að halda boðorðin og hóf strangt föstutímabil, bæn, nám í ritningunum og hugleiðslu.
Á þessum tíma fannst mér ég þurfa að spyrja lækni á heilsugæslustöðinni, þar sem ég starfaði sem aðalbókari, óvenjulegrar spurningar.
„Thibaut læknir,“ sagði ég, „er Drottinn Jesús Kristur í kirkjunni þinni?“
Hann sagðist vera í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Frá þeim tímapunkti var andinn okkur til leiðsagnar. Ég spurði hann hvernig hans kirkja væri öðruvís en mín. Hann sagði mér frá Mormónsbók. Þegar við héldum áfram samtali okkar fyllti gleði hjarta mitt. Mér fannst ég fá svör við bænum mínum.
Tveimur dögum síðar gáfu trúboðarnir mér Mormónsbók sem ég las og lærði með þeim. Mér fannst yndislegt að læra nýja hluti í ritningunum. Ég tók að hlýða Vísdómsorðinu.
Þegar mér varð ljóst að ég hafði misst áhuga á kirkjunni minni, þar sem ég hafði látið svo mikið að mér kveða, velti ég fyrir mér hvað væri að gerast. Ég baðst fyrir og spurði Guð um þennan nýja veg. Þegar ég gerði það varð ég sannfærðari um sannleikann sem ég hafði fundið. Ég ákvað að ganga í kirkjuna, jafnvel þótt ég vissi að ég yrði fyrir ofsóknum.
Ofsóknir komu en Drottinn styrkti mig. Ég veit að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu var svarið við einlægri bæn minni: „Ég vil fara í paradís.“ Ég veit að ég get farið þangað eftir að ég dey, ef ég er trúr boðorðum Guðs.