2021
Upplifa prestdæmiskraft
Mars 2021


Upplifa prestdæmiskraft

Konur sem taka þátt í að leiða kirkjuna voru spurðar um það hvernig kraftur prestdæmisins hafi áhrif á líf þeirra. Hér eru nokkrar hugleiðingar þeirra.

Ljósmynd
cut-paper illustration of various flowers

Myndskreyting eftir Matisse Hales

„Karlar og konur hafa mismunandi en jafn mikilvægar skyldur á heimilinu og í kirkjunni. Prestdæmiskraftur getur hjálpað sérhverjum að framfylgja þeim skyldum öllum til farsældar.

Þar sem prestdæmiskraftur Guðs er á jörðinni á okkar tíma, eru miklar blessanir í boði fyrir alla verðuga kirkjumeðlimi, hvort sem þeir eru aldnir eða ungir, karlar eða konur, einhleypir eða giftir.“

– Joy D. Jones, aðalforseti Barnafélagsins

„Þjónusta útvíkkar sál okkar, breikkar sjóndeildarhring okkar og gerir okkur mögulegt að nota kraft Guðs í ríkari mæli. Drottinn veit þetta en það gerir Satan líka. Í stöðugum tilraunum sínum til að fjarlægja okkur krafti Guðs, reynir andstæðingurinn að yfirbuga okkur eða láta okkur finnast að það sem við höfum fram að færa sé ófullnægjandi. …

… Efist aldrei um góðverk.

Með því að gera þjónustu við aðra að hluta af lífi okkar, munum við uppgötva leyndardóma Guðs. Við munum uppgötva frið, finna styrk og fá aukinn kraft þegar við þjónum frelsara okkar, Jesú Kristi.“

– Bonnie H. Cordon, aðalforseti Stúlknafélagsins

„Of oft bera konur sig saman við aðra. Engin okkar fer vel út úr þeim samanburði. Hver kona býr yfir sérstakri blöndu eiginleika og hæfileika og allt eru það gjafir frá Guði. Þótt þið og ég séum ekki eins – eða einhverjar aðrar konur – þá er engin okkar minni eða meiri en hver önnur. Við þurfum að finna gjafir okkar og þroska þær, minnast þess hver gaf okkur þær og nota þær síðan í tilgangi hans. Þegar við miðlum gjöfum okkar til að blessa aðra, erum við að upplifa prestdæmiskraftinn í lífi okkar.“

– Jean B. Bingham, aðalforseti Líknarfélagsins

„Leitið oft að tækifærum til að auka skilning ykkar á ‚kenningu prestdæmisins.‘ Hvert okkar mun þurfa að leita þessa skilnings fyrir sig sjálft.

Að læra ritningarnar og orð nútíma spámanna, er sterk undirstaða til þekkingar og vaxtar. Það sama á við um hlýðni við boðorð Guðs og að vera trúföst sáttmálunum sem við höfum gert með helgiathöfnum prestdæmisins. Þekking veitist okkur ‚orð á orð ofan og setning á setning ofan‘ [2. Nefí 28:30]. Hún veitist með persónulegri opinberun og mun ‚falla‘ á sál okkar ‚sem dögg af himni‘ [Kenning og sáttmálar 121:45].“

– Systir Lisa L. Harkness, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Barnafélagsins

„Hvert okkar er á ferð. … Við förum í gegnum sambandsáskoranir, fjárhagslegar áskoranir og andlegar og líkamlegar áskoranir. Við tökumst á við yfirþyrmandi verkefni og fjölmörg dagsverk sem gera þarf. Sum okkar kunna að vera að fara í gegnum sorgarferli eða jafnvel einmanaleika eða leiðindi. Áskoranir okkar eru mismunandi en við höfum öll einhverjar.

Að halda sáttmála okkar þýðir ekki að slíkar áskoranir verði fjarlægðar, heldur lofar Drottinn að vera með okkur.“

– Systir Michelle D. Craig, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins

„Ég sé fyrir mér prestdæmiskraftinn sem einn, fínan, sléttan hvítan þráð sem kemur frá Guði og hlykkjast inn og út, upp og í kring og virðist hafa sína eigin stefnu í lífi okkar. Með tímanum kemur þó flókið mynstur í ljós. Sá vefnaður nær yfir altari Guðs, helgasta staðinn þar sem við bindum á jörðu og bindum á himni. …

Alltaf þegar ég sé altarisdúk í hinu helga musteri, finnst mér það vera eitt öflugasta tákn musterisins fyrir það hvernig Drottinn veitir trúföstum börnum sínum kraft til að safna saman og binda saman í flókinn, heilagan vefnað.“

– Systir Sharon Eubank, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins

„Í gegnum eigin lífsreynslu veit ég að með því að halda boðorð Drottins, hafa trú á og treysta honum fullkomlega, getum við fengið aðgang að prestdæmiskrafti hans. …

… Þegar við erum trúföst getum við hlotið þennan prestdæmiskraft og blessun á öllum sviðum lífs okkar. Það getur veitt okkur vernd, huggun, styrk, frið og loforð sem ná inn í eilífðina. Með þessum prestdæmiskrafti minnir heilagur andi mig líka á upplifanir í lífi mínu sem áfram byggja upp vitnisburð minn og trú á Guð.“

– Systir Cristina B. Franco, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Barnafélagsins

„Ár eru liðin frá því að ég fékk patríarkablessun mína, en ég man vel eftir þeirri reynslu. …

Sú reynsla hefur haft áhrif á margar ákvarðanir sem ég hef tekið um ævina. Ég vissi að til að þessar þráðu blessanir yrðu að raunveruleika, þá þyrfti ég að gera minn hlut.

Ég sé núna að það er jafnvel enn meira sem faðir okkar vill að mér gefist, jafnvel meira en tilgreint var í patríarkablessun minni.“

– Systir Becky Craven, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins

„Ég gekk í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu 26 ára gömul. Þótt ég hafi haft tilfinningu rósemdar í hjarta þegar ég fylgdi þrá minni eftir til að verða blessuð af Guði með því að gera sáttmála við hann, þá veit ég að skilningur minn á þeim sáttmála var líkt og lítið fræ á þeim tíma.

Eftir því sem árin liðu og ég lagði mig fram við að halda þann skírnarsáttmála og aðra sáttmála sem ég hef gert við himneskan föður, finnst mér hann hafa blessað mig með auknum skilningi um hann, um frelsara minn og um hlutverk mitt sem sáttmálsdóttir himneskra foreldra.“

– Systir Reyna I. Aburto, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins

Prenta