2021
Sigrast á áhyggjum heimsins
Mars 2021


Kenning og sáttmálar 37–40

Sigrast á áhyggjum heimsins

Áhyggjur heimsins mega ekki trufla mig frá því að hlýða orði Guðs.

man riding a bicycle in the city

Ég varði öllu síðdeginu á hjólinu og fór úr einu fyrirtæki í annað í leita að atvinnu.

Myndskreyting eftir Liam O’Farrell

Ef við höfum of miklar áhyggjur af því sem heimsins er og hugsum ekki um vilja Drottins, munum við missa blessanir okkar, jafnvel þótt okkur sé heitið miklum blessunum. Þetta kemur skýrt fram í reynslu manns nokkurs á fyrsta tíma endurreisnarinnar.

James Covel hafði verið prestur í annarri kirkju í 40 ár, en eftir að hann heyrði um hið endurreista fagnaðarerindi, „gjörði [hann] sáttmála við Drottin um að hlýðnast hverju því boði, sem Drottinn gæfi honum með spámanninum Joseph“ (Kenning og sáttmálar 39, kaflafyrirsögn). Drottinn sagði við Covel fyrir munn Josephs: „[Hlýð] á rödd mína, sem segir við þig: Rís á fætur og lát skírast og lauga burtu syndir þínar. Ákalla nafn mitt og þú skalt hljóta anda minn og ríkulegri blessun en þú hefur áður þekkt“ (Kenning og sáttálar 39:10).

Covel „hafnaði [þó brátt] orði Drottins og sneri aftur til fyrri trúarkenninga og fólks“ (Kenning og sáttmálar 40, kaflafyrirsögn). Talandi um Covel sagði Drottinn: „Hann tók á móti orðinu með gleði, en samstundis freistaði Satan hans og óttinn við ofsóknir og veraldlega hluti varð til þess, að hann hafnaði orðinu“ (Kenning og sáttmálar 40:2). Sökum þessara áhyggna yfir því sem heimsins var, þá missti Covel þær blessanir sem Drottinn hafði lofað honum.

Ætti ég að fara eða dvelja áfram?

Í eigin lífi hef ég lært að við megum ekki láta áhyggjur heimsins afvegaleiða okkur frá því að hlýða Drottni. Ég ólst upp á yndislegu og ástríku heimili þar sem foreldrar mínir kenndu okkur fagnaðarerindið vandlega og ást þeirra til okkar endurspeglaði kærleika himnesks föður til barna hans.

Þegar ég var 16 ára var mér boðið að vinna á búgarði í Bandaríkjunum með þeim möguleika að byggja þar einhvern tíma mitt eigið heimili. Þetta höfðaði til mín, þar sem heimaland mitt, Holland, er einungis lítið mjög fjölmennt land.

Reyndar fundu allir forfeður föður míns megin svipaða löngun til að búa á öðrum stað. Þeir fluttu til Indónesíu, sem áður var hollensk nýlenda. Ég fæ vel skilið af hverju. Í Indónesíu er gott veður, landslagið fallegt og nægt rými. Ég hafði sömu flökkugenin og innblésu forfeður mína. Ætti ég líka að yfirgefa heimaland mitt í leit að velsæld og ævintýrum?

Á þessum tíma ákvarðana afhenti pabbi mér afrit af bréfi sem trúboðsforseti hans , Donovan van Dam, skrifaði honum og systrum hans mörgum árum áður. Van Dam forseti bað þau að vera áfram í Hollandi og byggja upp kirkjuna þar. Faðir minn sagði mér að hann hefði ákveðið að gera nákvæmlega það. Þar sem Boom ættarnafnið var á bréfinu, var það nú mitt að komast að því hvað ég ætti að gera.

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina höfðu margir kirkjumeðlimir flutt til Ameríku og Kanada. Það var enn í gangi á áttunda áratugnum, þrátt fyrir hvatningu frá leiðtogum kirkjunnar um að meðlimir yrðu áfram í eigin löndum og efldu kirkjuna þar sem þeir bjuggu. Ég tók líka þá ákvörðun af kostgæfni að vera áfram og byggja upp kirkjuna í Hollandi, en skildi þó ekki alveg hvað það myndi þýða fyrir framtíðina.

Ákvarðanir, ákvarðanir

Þegar ég lauk menntaskóla seint á áttunda áratugnum var óróleiki í hollenska efnahagslífinu. Atvinnuleysi var mikið. Að öllu jöfnu, þá litu hlutirnir frekar dapurlega út. Það var erfitt fyrir útskriftarnema að ákveða hvað gera skyldi næst.

Faðir minn þjónaði sem greinarforseti. Endrum og eins ræddi hann við mig þann möguleika að ég færi í fastatrúboð. Auðvitað myndi það vera dásamlegt viðfangsefni. Ég hafði hlakkað til þess allt mitt líf.

Ég sá þó ekki hvernig trúboð gæti hjálpað mér að sjá fyrir framtíðarfjölskyldu minni. Allt frá barnæsku hafði ég haft mikla löngun til að finna ástina einhvern daginn og eignast börn.

Ég var 17 ára á þessum tíma, og vissi ekki hvað ég átti að gera næst, en tókst á við mitt næsta menntunarstig. Eftir nokkrar vikur komst ég þó að því að sú menntun yrði mér ekki til lífsfyllingar. Ég velti því fyrir mér hvort hún myndi jafnvel sjá mér fyrir góðri atvinnu. Ég íhugaði að hætta í skóla.

Foreldrar mínir voru ekki ánægðir með þetta. Þau sögðu mér að ég gæti bara hætt í skóla ef ég hefði atvinnu. Þau héldu líklega að ég myndi aldrei finna atvinnu vegna fjármálakreppunnar. Ég varði öllu síðdeginu á hjólinu og fór úr einu fyrirtæki í annað. Loks réð fyrirtæki mig til vinnu í vöruhúsi þess.

Áætlunin mín

Þótt ég hefði tekið þessa tímabundnu stöðu, var ég með áætlun. Ég ætlaði að verða lögreglumaður. Að starfa fyrir yfirvöld, myndi veita örugga framfærslu fyrir mína framtíðarfjölskyldu og allt myndi ganga upp.

Ég man þann dag er ég fór í prófin til að komast í lögregluskólann. Ég tók lestina snemma morguns og varði öllum deginum í alls kyns próf. Í dagslok var ég kallaður inn á skrifstofuna. Þar var mér sagt að ég hefði staðist öll prófin og þeir myndu gjarnan vilja ráða mig, en þar sem ég var 17 ára var ég of ungur. Þau sögðu mér að reyna aftur eftir ár.

Heimur minn hrundi og alla leiðina heim hugsaði ég: „Hvað næst?“ Þegar heim var komið hlustaði pabbi á gremju mína og bauðst til að veita mér blessun. Ég átti von á að Drottinn myndi segja mér að allt myndi ganga upp og ég yrði tekinn inn í lögregluskólann á undraverðan hátt. Í staðinn sagði Drottinn mér að ef ég veldi að setja hann í fyrsta sæti, þá myndi ég alltaf hafa brauð á borði mínu og úrræði til að annast væntanlega fjölskyldu mína.

Betri áætlun

map showing parts of Europe

Ég hlaut svar eftir að hafa beðist fyrir, þess eðlis að hafa Drottin í fyrirrúmi fæli í sér að ég þjónaði í fastatrúboði. Ég hafði alltaf hugsað mér að gera það, en hafði ekki séð hvernig eitt skref myndi leiða til annars. Nú vissi ég að ég ætlaði að fara í trúboð og ég vildi gera það sem fyrst.

Á þessum tíma var kostnaður trúboðs 10.000 gömul hollensk gyllini, eða um eins árs laun. Ég hélt áfram að vinna í vöruhúsinu og í upphafi sumars 1981 hafði ég unnið mér inn 10.000 gyllini. Ég var líka orðinn 18 ára. Faðir minn, greinarforsetinn, sagði mig of ungan fyrir trúboð og það sama sögðu umdæmisforsetinn og trúboðsforsetinn. Á þessum tíma var aldurstakmarkið 19 ára. Á 18 ára afmælisdaginn minn fór ég sjálfur til læknisins og tannlæknisins og lét þá fylla út þeirra hluta í trúboðsumsókninni minni.

Einhvern veginn tókst mér að fá leiðtoga mína til að taka viðtöl við mig og senda umsóknina mína. Við biðum síðan. Ég vissi ekki að faðir minn hefði fengið bréf sem greinarforseti. Umsóknin var send til baka til hans með orðsendingu um að ég væri of ungur. Hann hafði ekki viljað segja mér frá þessu að sinni og hafði bréfið á sér í jakkavasanum í margar vikur án þess að láta mig vita. Sem betur fer hafði honum borist önnur orðsending í millitíðinni. Þar sagði að í sumum tilfellum væru bræðurnir fúsir til að láta unga menn fara fyrr en ella, ef þeir væru vel undir það búnir. Fljótlega var ég kallaður til að þjóna og var falið að fara í austur-London trúboðið í Englandi. Trúboðið varð mesta blessun lífs míns.

Blessanir frá Drottni

Þremur mánuðum eftir að ég kom heim frá trúboðinu kynntist ég ástinni í lífi mínu. Ári síðar vorum við gift og innsigluð í London-musterinu, Englandi. Efnahagkerfið var enn ekki í góðu lagi, en ég hef alltaf náð að hafa vinnu og getað séð fyrir fjölskyldunni. Það hefur alltaf verið brauð á borði og þak yfir höfði okkar.

Þegar ég var trúboði varð þetta eitt minna eftirlætis ritningarversa: „Sem þú heldur boðorð Guðs, svo mun þér vegna vel í landinu“ (Alma 36:1). Með það að leiðarljósi ákvað ég að gera það sem faðir minn hafði gert – að vera áfram í Hollandi og byggja upp kirkjuna í heimalandi mínu.

photograph of Elder Boom’s family

Fjölskylda öldungs og systur Boom árið 2019. Síðan hefur annað barnabarn, telpa, fæðst.

Í dag er litla greinin þar sem ég ólst upp yndisleg deild þar sem barnabörnin okkar njóta samvista við marga vini, samankomin í fjölmennu Barnafélagi. Synir okkar eru í góðri atvinnu og eru blessaðir með brauði á borði. Ég sé að ákvarðanir mínar hafa haft áhrif á næstu kynslóð, sem líka hyggst setja Drottin í fyrsta sæti í lífi sínu.

Ég er þakklátur fyrir að hafa lært snemma á ævinni að rétta ákvörðunin er að sigrast á áhyggjum heimsins og setja himneskan föður í fyrsta sæti. Hann hefur veitt mér blessanir sem ég hefði aldrei kynnst að öðrum kosti.