2021
Jane fagnaði á ferðalagi sínu
Mars 2021


Konur á fyrri tíma endurreisnarinnar

Jane fagnaði á ferðalagi sínu

Erum við, líkt og Jane Manning James, ákveðin í því að ljúka ferðalagi okkar í trú?

Ljósmynd
illustration of Jane Manning James

Myndskreyting eftir Toni Oka

Jane Manning James var þreytt á göngunni en hún neitaði að stoppa.

Elsti sonur hennar, Sylvester, var nægilega gamall til að ganga við hlið vagnsins. Enn þurfti þó að halda á ungbarninu, Silas, sem hafði fæðst á leiðinni yfir sléttuna. Það var árið 1847 og James-fjölskyldan yrði brátt meðal fyrstu brautryðjendanna í hinum mikla Saltvatnsdal.

Jane var ekki óvön löngum ferðalögum.

Fjórum árum áður hafði fjölskylda hennar yfirgefið heimili sitt í borg í austri til að ganga til liðs við hina heilögu í Nauvoo, á vesturjaðri byggðar. Ferðin átti einungis að taka nokkra daga eftir ánni, en þar sem svo margir þeldökkir þrælar voru í Bandaríkjunum á þessum tíma, þurfti fjölskylda Jane stöðugt að sýna pappíra sem staðfestu að þau væru frjáls. Sumir staðir höfðu líka ströng lög gegn því að þeldökkir ferðuðust um svæðið – og kröfðust jafnvel allt að 500 dali fyrir hvern einstakling.

Kannski vegna þessa smánarlega gjalds eða einhverra annarra fordóma, þá neitaði áhöfn fljótabátsins að fara lengra með Jane og fjölskyldu hennar. Hvergi bangin yfirgáfu þau mikið af eigum sínum og héldu af stað fótgangandi með hvaðeina sem þau gátu borið.

Fjölskylda Jane gekk meira en 1.287 kílómetra. Þau gengu á rakafylltum dögum og niðdimmum nóttum. Þegar þau höfðu þrammað í gegnum skóg, sváfu þau undir heiðskírum himni. Þegar þau vöknuðu voru fötin þeirra hvít af snjó.

„Við gengum þar til skórnir okkar voru úr sér gengnir og fætur okkar sárir, sprungnir og blóðugir,“ ritaði Jane, „… Við báðum Guð, hinn eilífa föður, að græða fætur okkar og bænum okkar var svarað.“1

Á þessari erfiðu ferð söng Jane sálma með foreldrum sínum og systkinum til að lofa Guð. Loks, eftir næstum þriggja mánaða göngu, komu þau til Nauvoo. Mörgum árum síðar, þegar trúfastir heilagir fóru yfir slétturnar, var Jane meðal fyrstu brautryðjendanna sem gengu þá leið.

Prenta