Ritningar
Mósía 18


18. Kapítuli

Alma prédikar í leynum — Hann setur fram skírnarsáttmálann og skírir í Mormónsvötnum — Hann stofnar kirkju Krists og vígir presta — Þeir sjá fyrir sér sjálfir og kenna fólkinu — Alma og fólk hans flýr undan Nóa konungi og út í óbyggðirnar. Um 147–145 f.Kr.

1 Og nú bar svo við, að Alma, sem flúið hafði undan þjónum Nóa konungs, iðraðist synda sinna og misgjörða, fór með leynd meðal fólksins og kenndi orð Abinadís —

2 Já, um það, sem í vændum væri, og einnig upprisu dauðra og endurlausn mannanna, sem verða mundi fyrir kraft, þjáningar og dauða Krists, upprisu hans og uppstigningu til himins.

3 Og öllum, sem hlýða vildu á orð hans, kenndi hann. Og hann kenndi þeim á laun, svo að konungurinn kæmist ekki að því. Og margir trúðu orðum hans.

4 Og svo bar við, að allir, sem trúðu honum, héldu til staðar, er nefndur var Mormón og hafði verið nefndur svo eftir konunginum, og var hann við mörk þess lands, þar sem villidýr herjuðu á vissum tímum eða árstíðum.

5 Í Mormón var uppspretta með tæru vatni, og Alma leitaði þar hælis, en nálægt vatninu var þykkni af smátrjám, þar sem hann faldi sig á daginn fyrir leitarmönnum konungs.

6 Og svo bar við, að allir, sem trúðu honum, héldu þangað til að hlýða á orð hans.

7 Og svo bar við, að eftir marga daga var töluverður mannfjöldi samankominn á staðnum Mormón til að hlýða á orð Alma. Já, allir, sem trúðu orðum hans, voru saman komnir til að hlusta á hann. Og hann kenndi þeim og prédikaði fyrir þeim iðrun, endurlausn og trú á Drottin.

8 Og svo bar við, að hann sagði við þá: Sjá hér eru Mormónsvötn (því að svo nefndust þau), og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar —

9 Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, svo að Guð megi endurleysa ykkur og þið megið teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða, svo að þið megið öðlast eilíft líf —

10 Og nú segi ég ykkur, sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur?

11 Og þegar fólkið hafði heyrt þessi orð, klappaði það saman höndum af gleði og hrópaði: Það er þetta, sem við þráum.

12 Og nú bar svo við, að Alma tók Helam, sem var einn hinna fyrstu, sté út í vatnið, stóð þar og hrópaði og sagði: Ó Drottinn, úthell anda þínum yfir þjón þinn, til að hann megi vinna þetta verk með heilagleika hjartans.

13 Og við þessi orð kom andi Drottins yfir hann, og hann sagði: Helam, ég skíri þig með valdi Guðs almáttugs til vitnis um, að þú hefur gjört sáttmála um að þjóna honum allt til dauða hins dauðlega líkama þíns. Megi andi Drottins hellast yfir þig, megi hann veita þér eilíft líf fyrir endurlausn Krists, sem hann hefur fyrirbúið allt frá grundvöllun veraldar.

14 Og þegar Alma hafði mælt þessi orð voru bæði Alma og Helam greftraðir í vatninu, en risu upp og stigu fagnandi upp úr vatninu, gagnteknir andanum.

15 Og Alma sté öðru sinni niður í vatnið og skírði annan á sama hátt og hinn fyrsta, að því undanskildu, að hann lét sjálfan sig ekki hverfa aftur í vatnsins gröf.

16 Og á þennan hátt skírði hann hvern þann, sem hélt til Mormónsstaðar, en þeir voru um tvö hundruð og fjórar sálir að tölu. Já, þeir voru skírðir í Mormónsvötnum og fylltust náð Guðs.

17 Og þeir voru nefndir kirkja Guðs eða kirkja Krists frá þeirri stundu. Og svo bar við, að hver sá, sem skírður var með krafti og valdi Guðs, bættist við kirkju hans.

18 Og svo bar við, að Alma, sem hafði vald Guðs, vígði presta. Já, hann vígði einn prest fyrir hverja fimmtíu til að prédika fyrir þeim og kenna þeim það, sem snertir Guðs ríki.

19 Og hann bauð þeim, að þeir skyldu ekkert annað kenna en það, sem hann hafði kennt og hinir heilögu spámenn hefðu mælt af munni fram.

20 Já, hann bauð þeim, að þeir skyldu ekkert annað prédika en iðrun og trú á Drottin, sem endurleyst hefði fólk sitt.

21 Og hann bauð þeim, að engar deilur skyldu vera þeirra á milli, heldur skyldu þeir horfa fram á við einhuga, í einni trú, í einni skírn, og hjörtu þeirra skyldu tengd böndum einingar og elsku hver til annars.

22 Og þannig bauð hann þeim að prédika. Og þannig urðu þeir börn Guðs.

23 Og hann bauð þeim að virða hvíldardaginn og halda hann heilagan og einnig að færa Drottni Guði sínum þakkir hvern dag.

24 Og hann bauð þeim einnig, að prestarnir, sem hann hafði vígt, skyldu með eigin höndum vinna fyrir daglegu viðurværi.

25 Og ákveðinn dag í viku hverri skyldu þeir koma saman til að kenna fólkinu og tilbiðja Drottin Guð sinn, og jafnframt skyldu þeir sjálfir koma saman eins oft og þeir gætu því við komið.

26 Og prestarnir skyldu ekki eiga daglegt viðurværi sitt undir fólkinu, heldur skyldu þeir þiggja náð Drottins að launum fyrir erfiði sitt, til að þeir mættu eflast í andanum og þekkja Guð, svo að þeir gætu kennt með krafti og valdi Guðs.

27 Og enn fremur mælti Alma svo fyrir, að fólk kirkjunnar skyldi láta af hendi hluta af eigum sínum, hver og einn samkvæmt því, sem hann ætti til. Ef hann ætti mikið, skyldi hann láta ríkulega af hendi rakna, en af þeim, sem ætti aðeins lítið, skyldi lítils krafist, og þeim, sem ekkert ætti, skyldi gefið.

28 Og þannig skyldu þeir af frjálsum vilja og góðum huga til Guðs láta af hendi hluta af eigum sínum til þeirra presta, sem þurfandi væru, já, og til allra þurfandi og nakinna sálna.

29 Og þetta sagði hann við þá að boði Guðs, og þeir gengu grandvarir gagnvart Guði og létu af hendi rakna hver til annars, jafnt í stundlegum sem andlegum efnum, í samræmi við þarfir þeirra og nauðsyn.

30 Og nú bar svo við, að allt gjörðist þetta í Mormón, já, hjá Mormónsvötnum, í skóginum, sem var nálægt Mormónsvötnum. Já, Mormónsstaður, Mormónsvötn og Mormónsskógur, hve mikil er ekki fegurð þeirra í augum þeirra, sem þar fengu vitneskju um lausnara sinn. Já, hvílík er blessun þeirra, því að þeir munu syngja honum lof að eilífu.

31 Og þetta gjörðist á landamærunum, til að konungur fengi ekki vitneskju um það.

32 En sjá. Svo bar við, að konungur, sem orðið hafði var við hreyfingu meðal fólksins, sendi þjóna sína til að hafa gát á því. Þess vegna fann konungur þau þann dag, sem þau söfnuðust saman til að hlýða á orð Drottins.

33 Og nú sagði konungur, að Alma væri að æsa fólkið til uppreisnar gegn sér, og því sendi hann her sinn til að tortíma þeim.

34 En svo bar við, að Alma og öðrum fylgjendum Drottins var gert viðvart um komu hersveita konungs. Þess vegna tóku þeir tjöld sín og fjölskyldur og héldu út í óbyggðirnar.

35 Þeir voru um fjögur hundruð og fimmtíu sálir að tölu.