27. Kafli
Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Harmony, Pennsylvaníu, í ágúst 1830. Vegna undirbúnings guðsþjónustu, þar sem sakramenti brauðs og víns skyldi veitt, fór Joseph til að útvega vín. Þá mætti hann himneskum sendiboða og fékk þessa opinberun. Var hluti hennar skrifaður á þeirri stundu, en það sem eftir var í september sama ár. Vatn er nú notað í stað víns á sakramentissamkomum kirkjunnar.
1–4, Táknin, sem notuð skulu við sakramentið, gefin; 5–14, Kristur og þjónar hans frá öllum ráðstöfunartímum eiga að meðtaka sakramentið; 15–18, Íklæðist alvæpni Guðs.
1 Hlýð á rödd Jesú Krists, Drottins þíns, Guðs þíns og lausnara, en orð hans er lifandi og kröftugt.
2 Því að sjá, ég segi þér, að það skiptir engu hvað þér etið eða drekkið, þegar þér meðtakið sakramentið, ef þér aðeins gjörið það með einbeittu augliti á dýrð mína — og minnist fyrir föðurnum líkama míns, sem lagður var í sölurnar fyrir yður, og blóðs míns, sem úthellt var til fyrirgefningar synda yðar.
3 Þess vegna gef ég yður þau fyrirmæli, að þér skuluð ekki kaupa vín né sterka drykki af óvinum yðar —
4 Þér skuluð þess vegna ekki neyta víns, nema það sé nýlagað af yður sjálfum, já, í þessu ríki föður míns, sem reist skal á jörðu.
5 Sjá, þetta er viska mín, undrist ei, því að stundin kemur, er ég mun drekka af ávexti vínviðarins með yður á jörðu og með Moróní, sem ég hef sent yður til að opinbera Mormónsbók, er geymir fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis míns, en honum hef ég falið lyklana að heimildunum á staf Efraíms —
6 Og einnig með Elíasi, sem ég hef falið lyklana að endurreisn allra hluta, sem talað hefur verið um fyrir munn allra hinna heilögu spámanna frá upphafi veraldar, varðandi hina síðustu daga —
7 Og einnig Jóhannesi syni Sakaría, þess Sakaría, sem hann (Elías) vitjaði og gaf loforð um, að hann skyldi eignast son, og nafn hans skyldi vera Jóhannes og hann skyldi fyllast anda Elíasar —
8 Þann Jóhannes, sem ég hef sent yður, þjónar mínir, Joseph Smith yngri og Oliver Cowdery, til að vígja yður hinu fyrra prestdæmi, sem þér hafið meðtekið, svo að kalla mætti yður og vígja, rétt eins og Aron —
9 Og einnig Elía, sem ég hef falið lyklana að því valdi að snúa hjörtum feðranna til barnanna og hjörtum barnanna til feðranna, svo að öll jörðin verði ekki lostin banni —
10 Og einnig með Jósef og Jakob og Ísak og Abraham, feðrum yðar, en með þeim eru fyrirheitin —
11 Og einnig með Míkael, eða Adam, föður allra, höfðingja allra, hinum aldna daganna —
12 Og einnig með Pétri og Jakob og Jóhannesi, sem ég hef sent yður, og með þeim hef ég vígt yður og staðfest til að vera postula og sérstök vitni nafni mínu, og halda lyklum helgrar þjónustu yðar og þess sama, sem ég hef opinberað þeim —
13 En þeim hef ég falið lykla ríkis míns og ráðstöfun fagnaðarerindisins fyrir síðustu tímana, og fyrir fyllingu tímanna, en þá mun ég safna öllu saman í eitt, bæði því sem er á himni og á jörðu —
14 Og einnig með öllum þeim, sem faðir minn hefur gefið mér úr heiminum.
15 Lyftið þess vegna hjörtum yðar og fagnið, girðið lendar yðar og klæðist alvæpni mínu, svo að þér fáið staðist hinn illa dag, eftir að hafa gjört allt til að fá staðist.
16 Standið þess vegna með lendar yðar girtar sannleikanum, klæddir brynju réttlætisins og með fætur yðar skóaða undirbúningi friðarboðskaparins, sem ég hef sent engla mína til að fela yður —
17 Og berið skjöld trúarinnar, en með honum getið þér að engu gjört glóandi örvar hinna ranglátu —
18 Og takið hjálm sáluhjálparinnar og sverð anda míns, sem ég mun úthella yfir yður, og orð mitt, sem ég opinbera yður, og verið einhuga varðandi allt, sem þér biðjið mig um, og staðfastir þar til ég kem, og þér verðið hrifnir upp, að þar sem ég er skuluð þér og vera. Amen.