Námshjálp
ÞJS, Matteus 7


ÞJS, Matteus 7:1–2. Samanber Matteus 7:1–2

Dæmið ekki ranglátlega.

1 Þetta eru orðin sem Jesús kenndi lærisveinum sínum að segja við lýðinn.

2 Dæmið ekki ranglátlega, svo að þér verðið eigi dæmdir; fellið heldur réttláta dóma.

ÞJS, Matteus 7:4–8. Samanber Matteus 7:3–5

Jesús kennir lærisveinum sínum að standa djarflega frammi fyrir lærðu mönnunum, faríseunum, prestunum og Levítunum og láta þá svara fyrir hræsni sína.

4 Enn á ný skulið þér segja við þá: Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í þínu eigin auga?

5 Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu eigin auga?

6 Og Jesú sagði við lærisveina sína: Sjáið þið fræðimennina, og faríseana, og prestana, og Levítana? Þeir kenna í samkundum sínum, en virða ekki lögmálið, eða boðorðin, og allir hafa þeir villst af leið og eru syndugir.

7 Farið og segið við þá: Hví kennið þér mönnum lögmálið og boðorðin þegar þér sjálfir eruð afsprengi spillingar?

8 Segið við þá: Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr þínu eigin auga, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

ÞJS, Matteus 7:9–11. Samanber Matteus 7:6

Jesús kennir lærisveinum sínum að boða iðrun og deila ekki leyndardómum ríkisins með heiminum.

9 Farið út um heiminn og segið öllum: Iðrist, því að himnaríki er í nánd við yður.

10 Og leyndardóma ríkisins skuluð þér geyma hjá yður sjálfum, því ekki er rétt að gefa hundum það sem heilagt er; né heldur kasta perlum yðar fyrir svín, að þau troði þær undir fótum sér.

11 Því að heimurinn getur ekki tekið á móti því sem þér, sjálfir, eruð ekki færir um að bera. Því skuluð þér ekki gefa þeim perlur yðar, svo að þeir snúi ekki við og tæti yður í sundur.

ÞJS, Matteus 7:12–17. Samanber Matteus 7:7–8

Jesús kennir lærisveinum sínum að faðirinn veitir öllum opinberun sem biðja þess.

12 Segið við þá: Biðjið Guð, biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

13 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

14 Því næst sögðu lærisveinarnir við hann: Þeir munu segja okkur, að þeir séu sjálfir réttlátir og þarfnist eigi leiðsagnar frá öðrum. Við vitum að Guð hlýddi á Móse og suma spámennina, en á okkur mun hann ekki hlusta.

15 Og þeir munu segja, við höfum lögmálið okkur til sáluhjálpar og það nægir okkur.

16 Jesús svaraði og sagði við lærisveina sína: Þannig skuluð þið svara þeim.

17 Hver á meðal ykkar, á son, sem úti er og segir: Faðir, opna hús þitt svo ég megi koma inn og eta með þér. Mun svarið ekki vera: Kom inn sonur minn, því mitt er þitt og þitt er mitt?