Ritningar
Bók Abrahams 2


2. Kapítuli

Abraham yfirgefur Úr og fer til Kanaanlands — Jehóva birtist honum í Haran — Niðjum hans er heitið öllum blessunum fagnaðarerindisins og með niðjum hans berast þær til allra — Hann fer til Kanaanlands og áfram til Egyptalands.

1 Nú lét Guð hungursneyðina verða sára í landi Úr, slíka, að Haran bróðir minn dó, en Tara faðir minn lifði enn í landi Úr í Kaldeu.

2 Og svo bar við, að ég, Abraham, tók mér Saraí fyrir eiginkonu og Nahor bróðir minn tók sér Milku fyrir eiginkonu, sem var dóttir Harans.

3 Nú hafði Drottinn sagt við mig: Abraham, far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til lands, sem ég mun vísa þér á.

4 Þess vegna yfirgaf ég landið Úr í Kaldeu og fór til Kanaanlands, og ég tók Lot bróðurson minn og eiginkonu hans og Saraí eiginkonu mína, og faðir minn fylgdi mér einnig, til þess lands, sem við nefndum Haran.

5 Og hungursneyðin rénaði og faðir minn hélt kyrru fyrir í Haran og dvaldist þar, en margar hjarðir voru í Haran og faðir minn sneri sér aftur að skurðgoðadýrkun og dvaldist þess vegna áfram í Haran.

6 En ég, Abraham, og Lot bróðursonur minn báðum til Drottins og Drottinn birtist mér og mælti til mín: Rís á fætur og tak Lot með þér, því að ætlun mín er að taka þig burt frá Haran og gjöra þig að helgum þjóni mínum, sem bera mun nafn mitt í framandi landi, sem ég mun gefa niðjum þínum eftir þig til ævarandi eignar, þegar þeir hlýða rödd minni.

7 Því að ég er Drottinn Guð þinn. Ég dvel á himni. Jörðin er fótskör mín. Ég rétti hönd mína út yfir hafið og það hlýðir rödd minni. Ég gjöri vindinn og eldinn að farkostum mínum. Ég segi við fjöllin — hverfið á brott — og sjá, hvirfilvindurinn feykir þeim burt á augabragði, já, á svipstundu.

8 Nafn mitt er Jehóva, og ég þekki endalokin frá upphafinu. Fyrir því mun hönd mín vera yfir þér.

9 Og ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig ómælanlega, og gjöra nafn þitt mikið meðal allra þjóða, og þú munt verða eftirkomandi niðjum þínum blessun, svo að þeir færi í höndum sér öllum þjóðum þessa helgu þjónustu og þetta prestdæmi —

10 Og ég mun blessa þá fyrir nafn þitt, því að allir þeir, sem meðtaka þetta fagnaðarerindi, skulu kenndir við nafn þitt og teljast niðjar þínir, og þeir munu rísa á fætur og blessa þig sem föður sinn —

11 Og ég mun blessa þá, sem blessa þig, en bölva þeim, sem bölva þér. Og í þér (það er, í prestdæmi þínu) og niðjum þínum (það er, prestdæmi þínu), því að ég gef þér fyrirheit um, að þessi réttur haldist með þér og niðjum þínum eftir þig (það er, beinum niðjum eða holdlegum niðjum), munu allar ættkvíslir jarðar verða blessaðar, já, með blessunum fagnaðarerindisins, sem eru blessanir sáluhjálpar, já, eilífs lífs.

12 Og eftir að Drottinn hafði lokið máli sínu og horfið úr augsýn minni, sagði ég í hjarta mér: Þjónn þinn hefur leitað þín einlæglega; nú hef ég fundið þig —

13 Þú sendir engil þinn til að bjarga mér frá guðum Elkena, og ég gjöri vel að hlýða rödd þinni. Lát þess vegna þjón þinn rísa á fætur og hverfa á brott í friði.

14 Svo að ég, Abraham, fór á brott eins og Drottinn hafði sagt mér, og Lot með mér. Og ég, Abraham, var sextíu og tveggja ára þegar ég fór frá Haran.

15 Og ég tók með mér Saraí, sem ég hafði tekið mér fyrir eiginkonu í Úr í Kaldeu, og Lot bróðurson minn, og allar þær eigur sem okkur höfðu safnast, og þær sálir sem við höfðum unnið í Haran. Og við héldum til Kanaanlands og höfðumst við í tjöldum á leið okkar —

16 Þess vegna var eilífðin skjól okkar, bjarg okkar og sáluhjálp, er við ferðuðumst frá Haran um Jerson til að komast til Kanaanlands.

17 Ég, Abraham, reisti nú altari í Jersonslandi og færði Drottni fórn og bað þess að hungursneyðinni yrði létt af húsi föður míns, svo að þau færust ekki.

18 Og síðan fórum við frá Jerson um landið og til Síkem, sem er á sléttum Móre, og við vorum nú þegar komin að mörkum lands Kanaaníta, og ég færði fórn þar á sléttum Móre og ákallaði Drottin heitt, vegna þess að við vorum nú þegar komin í land þessarar skurðgoðadýrkandi þjóðar.

19 Og Drottinn birtist mér sem svar við bænum mínum og sagði við mig: Niðjum þínum mun ég gefa þetta land.

20 Og ég, Abraham, reis frá altarinu, sem ég hafði reist Drottni, og hélt þaðan upp til fjallanna fyrir austan Betel og reisti þar tjöld mín, og Betel var í vestur og í austur. Og þar reisti ég Drottni annað altari og ákallaði enn nafn Drottins.

21 Og ég, Abraham, hélt ferð minni áfram og enn í suður, og enn var mikil hungursneyð í landinu, og ég, Abraham, ákvað að halda niður til Egyptalands, til að dveljast þar, því að hungursneyðin var mjög sár.

22 Og svo bar við, að þegar ég nálgaðist Egyptaland, sagði Drottinn við mig: Sjá, Saraí eiginkona þín er kona afar fríð sýnum —

23 Því ber svo við, þegar Egyptar sjá hana, að þeir segja — Hún er eiginkona hans, og þeir munu drepa þig, en láta hana lífi halda. Þess vegna skalt þú fara þannig að:

24 Lát hana segja Egyptum, að hún sé systir þín, og sál þín mun lífi halda.

25 Og svo bar við, að ég, Abraham, sagði Saraí eiginkonu minni allt, sem Drottinn hafði sagt við mig — Seg þeim þess vegna, ég bið þig, að þú sért systir mín, svo að mér farnist vel fyrir þínar sakir, og sál mín mun lífi halda þín vegna.