Um einlægleika
Ég bið þess að við munum standast þá freistingu að draga athyglina að okkur sjálfum og þess í stað leggja kapp á það sem mun mikilvægara er: Að gerast auðmjúkir, einlægir lærisveinar Drottins vor og frelsara, Jesú Krists.
Katrín mikla frá Rússlandi tilkynnti, seint á 18. öld, að hún ætlaði að ferðast um suðurhluta ríkidæmis síns í fylgd með nokkrum erlendum sendiherrum. Amtmaðurinn á svæðinu, Grigory Potemkin, langaði virkilega að vekja hrifningu gestanna. Því lagði hann sig í líma að sýna afrek landsins.
Katrín sigldi niður ánna Dnieper ánna, hluta leiðar sinnar, og benti sendiherrunum stolt á líflegu smáþorpin við árbakkann sem voru full af iðnum og hamingjusömum þorpsbúum. Hins vegar var þetta einungis leikrit. Sagt er að Potemkin hafi búið til framhliðar verslana og heimila úr pappaspjöldum. Hann sviðsetti meira að segja önnum kafið sveitafólk á ákveðna staði til að láta líta út fyrir að hagsældin væri mikil. Menn Potemkin pökkuðu þorpinu saman um leið og gestirnir höfðu siglt fyrir beygjuna í ánni og flýttu sér niður ánna til að undirbúa næstu framhjá siglingu Katarínu.
Þótt nútíma sagnfræðingar efist um sannleiksgildi þessarar sögu þá hefur hugtakið „Potemkin tjald“ nú náð bólfestu í orðaforða heimsins. Hugtakið vísar til allra tilrauna til að reyna að líta betur út en við í raun erum.
Eru hjörtu okkar á réttum stað?
Hluti af mannlegu eðli er að vilja líta sem best út. Það er ástæða þess að svo mörg okkar vinna hörðum höndum að því að fegra útlit heimila okkar og að Aronsprestdæmis bræður tryggja að hvert einasta hár sé á réttum stað, bara ef svo vildi til að þeir myndu hitta hina einu sönnu. Það er ekkert athugavert við að pússa skóna okkar, lykta vel eða jafnvel fela skítugu diskana þegar heimiliskennararnir koma. Þegar hins vegar ofuráhersla er lögð á þá þrá að líta vel út, getur hún orðið til trafala og villt okkur sýn.
Spámenn Drottins hafa löngum varað gegn þeim sem „nálgast [Drottinn] með munni sínum og heiðrar [hann] með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá [honum].“1
Frelsarinn hafði skilning og samúð með syndurum sem bjuggu yfir auðmjúku og einlægu hjarta. Hann reis upp í réttlátri reiði gegn hræsnurum eins fræðimönnunum, faríseunum og saddúkeunum – þeim er reyndu að virðast réttlátir til að öðlast lof, áhrif og ríkidæmi í heiminum, en á meðan voru þeir að undiroka sjálft fólkið sem þeir áttu að vera að blessa. Frelsarinn sagði þá líka „hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.“2
Drottinn hefur látið álíka áhrifarík orð falla um prestdæmishafa, á okkar dögum, sem reyna „að hylja syndir [sínar] eða seðja hroka [sinn] og fánýta metorðagirnd. Þegar þeir gera þetta, segir hann: „þá draga himnarnir sig í hlé. Andi Drottins tregar, og þegar hann er vikinn á brott, er úr sögunni prestdæmi eða vald þess manns.“3
Af hverju gerðist þetta? Hvers vegna reynum við stundum að látast virk, efnuð og einlæg út á við þegar við höfum hið innra – eins og opinberarinn sagði um söfnuðinn í Efesus – yfirgefið okkar “fyrri kærleika“?4
Stundum gerist það að menn hreinlega hætta að einbeita sér að grundvallarreglum fagnaðarerindisins og gera ekki greinarmun á því sem er „[guðlegt] að formi til“ og „krafti [þess].“5 Þetta er einkum varasamt þegar við sem lærisveinar notum ytri tjáningu til að vekja hrifningu annarra til að öðlast persónulegan ábata eða áhrif. Þá eigum við á hættu að lenda á slóðum faríseiana og þá er einmitt tíminn til að skoða hjörtu okkar til að leiðrétta stefnuna tafarlaust.
Efnisskrá Potemkins
Þessi freisting, að virðast betri við erum, er ekki einungis að finna í persónulegu lífi okkar heldur einnig í kirkjustarfinu einnig.
Sem dæmi þá veit ég veit um stiku þar sem leiðtogarnir settu mjög háleit markmið fyrir árið. Þrátt fyrir að markmiðin litu út fyrir að vera tilvinnandi þá einblíndu þau annað hvort á dramblátar og tilkomumiklar yfirlýsingar eða tölur og hundraðshluta.
Eitthvað tók að angra stikuforsetann þegar umræðum um markmiðin var lokið og sameiginleg niðurstaðan komin. Hann hugsaði um meðlimi stiku sinnar – eins og ungu móðurina með litlu börnin sem nýlega var orðin ekkja. Hann hugsaði um meðlimina sem voru með efasemdir, áttu í basli við einmannaleika eða með alvarlega heilsubresti og engar tryggingar. Hann hugleiddi meðlimina sem voru að glíma við hjónabandserfiðleika, fíkn, atvinnuleysi og geðræna sjúkdóma. Því meira sem hann hugleiddi stöðu meðlimanna því oftar spurði hann sjálfa sig einnar auðmjúkrar spurningar: Munu nýju markmiðin hafa áhrif á líf þessara meðlima til góðs?
Hann tók að hugleiða hvernig markmið stikunnar hefðu verið öðruvísi ef þau hefðu fyrst spurt sig: „Hver er þjónusta okkar?“
Þessi stikuforseti fór því aftur til ráða sinna og í sameiningu breyttu þau áherslum sínum. Þeir ákváðu að leyfa ekki hinum „hungruðu og þurfandi, nöktu og sjúku og aðþrengdu ganga fram hjá [sér] og [taka] ekki eftir þeim.“6
Þau settu sér ný markmið og gerðu sér ljóst að árangur þeirra markmiða væri ekki alltaf mælanlegur, að minnsta kosti ekki af mönnum – því hvernig er hægt að mæla persónulegan vitnisburð, elsku til Guðs eða samúð með öðrum?
Þau vissu einnig að „margt af því sem hægt er að telja, telur ekki. Margt af því sem ekki er hægt að telja, telur mikið.“7
Ég velti fyrir mér hvort markmið skipulagseininga okkar sem og persónuleg markmið séu stundum jafngildi nútíma Potemkin tjalds. Líta þau hrífandi út í fjarlægð en tekst síðan ekki að takast á við raunverulegar þarfir okkar ástkæru náunga?
Kæru vinir og sam-prestdæmishafar, ef Jesús Kristur myndi setjast niður með okkur og biðja um greinargerð ráðsmennsku okkar þá er ég ekki viss um að hann myndi einblína mikið á verkefnisáætlanir og tölfræði. Það sem frelsarinn myndi vilja vita er ásigkomulag hjarta okkar. Hann myndi vilja vita hvernig við elskum og þjónum þeim sem við eigum að sjá um, hvernig við sýnum maka okkar og fjölskyldu elsku okkar og hvernig við léttum daglegar byrðar þeirra. Frelsarinn myndi einnig vilja vita hvernig þið og ég erum að nálgast hann og himneskan föður okkar.
Hvers vegna erum við hér?
Ávinningur kann að vera í því að rannsaka okkar eigin hjörtu. Til dæmis getum við spurt okkur sjálfa hvers vegna þjónum við í kirkju Jesú Krists?
Við gætum jafnvel spurt hvers vegna erum við á þessum fundi í dag?
Ég geri ráð fyrir að ef ég ætti að svara þeirri spurningu á yfirboðskenndan máta þá gæti ég sagt að ég er hér vegna þess að Monson forseti bað mig að halda ræðu.
Svo ég hafði engan annan valkost.
Auk þess væntir eiginkona mín, sem ég elska heitt, að ég mæti? Hvernig get ég sagt nei við hana?
Við vitum hins vegar að til eru betri ástæður fyrir að sækja samkomur og lifa lífi okkar sem skuldbundnir lærisveinar Jesú Krists.
Ég er hér því ég þrái af öllu hjarta að fylgja meistara mínum, Jesú Kristi. Mig langar að gera allt sem hann biður mig um, fyrir þennan mikla málstað. Mig þyrstir í að uppfræðast af heilögum anda og heyra rödd Guðs er hann talar í gegnum vígða þjóna sína. Ég er hér til að verða betri maður, til að uppbyggjast af innblásnu fordæmi bræðra minna og systra í kirkjunni og til að læra að þjóna nauðstöddum á áhrifaríkari hátt.
Í stuttu máli þá er ég hér vegna þess að ég elska himneskan föður minn og son hans, Jesú Krist.
Ég er viss um að þetta sé einnig ástæða ykkar. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum tilbúin að fórna og ekki bara vera með yfirlýsingar um að við munum fylgja frelsaranum. Þetta er ástæða þess að við berum með heiðri hans heilaga prestdæmi.
Frá neista að báli
Hvort heldur sem vitnisburður ykkar þrífist vel og sé heilbrigður eða virkni ykkar í kirkjunni sé svipuð Potemkin tjaldi þá eru góðu fréttirnar þær að þið getið byggt á hvaða styrk sem þið hafið yfir að búa. Hér í kirkju Jesú Krists getið þið þroskast andlega og nálgast frelsarann með því að hagnýta grunnreglur fagnaðarerindisins daglega.
Jafnvel smæsta gjörð lærisveinahlutverksins eða minnsta glóð trúar, getur orðið að stóru báli helgaðs lífs með aðstoð þolinmæðis og þrákelkni. Reyndar er það hvernig flest bál hefjast – með einföldum neista.
Ef ykkur finnst þið vera litlir og veikburða, komið þá endilega til Krists, sem breytir hinu veika yfir í styrk.8 Hinir veikburðustu meðal okkar, geta orðið andlega sterkir með náð Guðs, vegna þess að „Guð fer ekki í manngreinarálit.“9 Hann er okkar „trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina ... við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.“10
Það er sannfæring mín að ef Guð getur teygt sig til og stutt fátækan þýskan flóttamann frá hægverskri fjölskyldu frá stríðshrjáðu landi hinum megin á hnettinum frá höfuðstöðvum kirkjunnar, þá getur hann teygt sig til ykkar.
Ástkæru bræður í Kristi, Guð sköpunarinnar, sem blés lífi í alheiminn, hefur vissulega kraft til að blása lífi í ykkur. Vissulega getur hann gert úr ykkur þá einlægu og andlegu veru ljóss og sannleikar sem þið þráið að verða.
Loforð Guðs eru vís og örugg. Við getum hlotið fyrirgefningu synda okkar og hreinsast af öllu óréttlæti.11 Ef við höldum áfram að taka á móti og lifa samkvæmt réttum reglum við persónulegar aðstæðum okkar og fjölskyldu okkar, þá munum við að lokum komast á þann stað þar sem okkur „mun þá [eigi] framar hungra og eigi heldur framar þyrsta. ... Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir [okkar] og leiða [okkar] til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum [okkar].“12
Kirkjan er staður lækninga ekki felustaður
Þetta getur hins vegar ekki gerst ef við felum okkur að baki persónulegrar, kenningarlegrar eða skipulagslegrar yfirboðsmennsku. Slík tilgerð í lærisveinshlutverkinu kemur ekki aðeins í veg fyrir að við fáum séð okkur sjálf eins og við í raun erum, heldur líka að við fáum sannlega breyst fyrir kraftaverk friðþægingar frelsarans.
Kirkjan er ekki bílasýning – staður þar sem við sýnum okkur svo aðrir geti dáðst að andríki, hæfni og velsæld okkar. Hún er líkari bílaverkstæði, þar sem gert er við bíla, þeim viðhaldið og þeir endurgerðir.
Þörfnumst við ekki öll viðgerðar, viðhalds og endurgerðar?
Við förum í kirkju til að leysa vandamál okkar, ekki til að fela þau.
Við höfum líka aðra ábyrgð sem prestdæmishafar – að „[vera] hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður ... ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, ... ekki sakir [persónulegs] ávinnings, heldur af áhuga ... eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“13
Munið bræður að „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“14
Mesti, hæfasti og færasti maðurinn sem nokkru sinni gekk á þessari jörð var einnig sá auðmjúkasti. Hann framkvæmdi sum af tilkomumestu þjónustuverkum sínum á persónulegum stundum, þegar einungis fáeinir sáu til og þá bað hann að „segja engum“ frá því sem hann hafði gert.15 Hann var fljótur að staðhæfa að einungis Guð er góður þegar hann var kallaður „[góður.]“16 Lof heimsins var honum greinilega ekkert. Eini tilgangur hans var að þjóna föður sínum og „[gjöra] ætíð það sem honum þóknast.“17 Við myndum gera vel í því að fylgja fordæmi meistara okkar.
Megum við elska eins og hann hefur elskað
Bræður, þetta er hin háa og helga köllun okkar – að vera fulltrúar Jesú Krists, að elska eins og hann elskaði, þjóna eins og hann þjónaði, að „[lyfta] máttvana örmum og [styrkja] veikbyggð kné“18 að „líta til hinna fátæka og þurfandi“19 og að hugsa um ekkjur og munaðarlausa.20
Ég bið þess að er við þjónum í fjölskyldu okkar, sveitum, deildum, stikum, samfélögum og þjóðum þá munum við standast þá freistingu að draga athyglina að okkur sjálfum og þess í stað leggja kapp á það sem mun mikilvægara er: Að gerast auðmjúkir, einlægir lærisveinar Drottins vor og frelsara, Jesú Krists. Þegar við gerum svo, munum við sjá að við erum á þeim vegi sem dregur fram okkar bestu, ósviknustu og göfugustu kosti. Um þetta vitna ég í nafni meistara okkar, Jesú Krists, amen.