„Sjá! Ég er Guð kraftaverka“
Kraftaverk, tákn og undur eru í ríkum mæli meðal fylgjenda Jesú Krists á okkar tíma, í lífi ykkar og mínu.
Kæru bræður mínir og systur, hve dásamlegt að vera meðal ykkur í dag. Sameinaður þeim sem þegar hafa talað á þessari ráðstefnu, ber ég vitni um að Jesús Kristur lifir. Hann stjórnar kirkju sinn; hann talar til spámanns síns, Russells M. Nelson forseta og hann elskar öll börn himnesks föður.
Á þessum páskasunnudegi minnumst við upprisu Jesú Krists, frelsara okkar og lausnara,1 hins almáttuga Guðs, Friðarhöfðingjans.2 Friðþæging hans, sem náði hámarki með upprisu hans, eftir þrjá daga í lánaðri gröf, er mesta kraftaverk sögunnar. „Því að sjá,“ lýsti hann yfir, „ég er Guð, og ég er Guð kraftaverka.“3
Hefur því kraftaverkum linnt, … vegna þess að Kristur hefur stigið upp til himins og sest til hægri handar Guði“?4 spurði spámaðurinn Mormón í Mormónsbók. Hann svaraði: „Nei, né heldur eru englar hættir að þjóna mannanna börnum.“5
Eftir krossfestinguna birtist engill Drottins Maríu og nokkrum öðrum konum, sem höfðu farið til grafarinnar til að smyrja líkama Jesú. Engillinn sagði:
„Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?6
Hann er ekki hér, hann er upp risinn.“7
Abinadí, spámaður í Mormónsbók, sagði um það kraftaverk:
„Hefði Kristur [ekki] risið upp frá dauðum …, gæti engin upprisa hafa átt sér stað.
En upprisan er til, þess vegna hrósar gröfin engum sigri, og Kristur hefur innbyrt brodd dauðans.“8
Kraftaverk Jesú Krists fékk hina fyrri lærisveina hans til að segja: Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.“9
Þegar hinir fyrri postular fylgdu Jesú Kristi og heyrðu hann kenna fagnaðarerindið, urðu þeir vitni að mörgum krafaverkum. Þeir sáu „[blinda fá sýn og halta ganga, líkþráa hreinsast og daufa heyra, dauða rísa upp, og fátækum flutt fagnaðarerindið].“10
Kraftaverk, tákn og undur eru í ríkum mæli meðal fylgjenda Jesú Krists á okkar tíma, í lífi ykkar og mínu. Kraftaverk eru guðlegar athafnir, birtingarmyndir og tjáning á takmarkalausum krafti Guðs og staðfesting á því að hann sé „hinn sami í gær, í dag og að eilífu.“11 Jesús Kristur, sem skapaði höfin, getur róað þau; sá sem gaf blindum sýn getur lyft sjónum okkar til himins; sá sem hreinsaði líkþráa getur bætt veikleika okkar; sá sem læknaði hinn lamaða getur boðið okkur að rísa upp með „kom, fylg mér.“12
Mörg ykkar hafa séð kraftaverk, fleiri en ykkur er ljóst. Þau gætu virst smá í samanburði við Jesú reisa upp frá dauðum. Stærðin er þó ekki skilgreinandi fyrir kraftaverk, heldur að Guð gerði það. Sumir segja kraftaverk einfaldlega vera tilviljanir eða eintóma heppni. Spámaðurinn Nefí fordæmdi þó þá sem myndu „afneita … valdi Guðs og kraftaverkum, en prédika þess í stað eigin visku og eigin fróðleik til að hagnast á því.“13
Kraftaverk eru gerð með guðlegum krafti af honum sem er „máttugur til að frelsa.“14 Kraftaverk eru viðauki hinnar eilífu áætlunar Guðs; kraftaverk eru líflína himins til jarðar.
Síðastliðið haust vorum við systir Rasband á leið til Goshen í Utah fyrir hinn heimslæga þátt Í návígi, sem sendur er út til yfir 600.000 manns á 16 mismunandi tungumálum.15 Þátturinn átti að fjalla um atburði endurreisnar fagnaðarerindisins Jesú Krists, þar sem ungt fullorðið fólk um allan heim sendi inn spurningar. Ég og systir Rasband höfðum persónulega farið yfir spurningarnar; þær veittu okkur tækifæri til að bera vitni um Joseph Smith sem spámann Guðs, kraft opinberunar í lífi okkar, áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og kæran sannleika og boðorð. Margir sem hlýða á í dag voru þátttakendur í þeim undursamlega atburði.
Upphaflega átti útsendingin að fara fram í Lundinum helga í New York fylki, þar sem Joseph Smith vitnaði: „Ég [sá] tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“16 Þetta, bræður og systur, var kraftaverk.
Heimsfaraldurinn neyddi okkur til að flytja útsendinguna til Goshen í Utah, þar sem Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur endurskapað hluta af gömlu Jerúsalem til kvikmyndatöku. Ég og systir Rasband vorum í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Goshen þetta sunnudagskvöld er við sáum þykkan reyk koma úr þeirri átt sem við ókum. Gróðureldar loguðu á svæðinu og við höfðum áhyggjur af að útsendingin gæti verið í hættu. Þá gerðist það einmitt, klukkan tuttugu mínútur í sex, sem var útsendingartíminn okkar, að rafmagnið fór af öllu hverfinu. Ekkert rafmagn! Engin útsending. Ein rafstöð var þar fyrir hendi, sem sumir héldu að við gætum notað, en engin trygging var fyrir að hún væri nógu aflmikill fyrir hinn háþróaða búnað.
Allir í þættinum, þar á meðal sögumenn, tónlistarmenn og tæknimenn – einnig 20 ungir fullorðnir úr minni stórfjölskyldu – höfðu lagt mikið í það sem átti að eiga sér stað. Ég dró mig í hlé, frá tárum þeirra og uppnámi og bað Drottin um kraftaverk. „Himneskur faðir,“ bað ég, „ég hef sjaldan beðið um kraftaverk en ég bið um eitt núna. Þessi viðburður þarf að eiga sér stað fyrir ungt fullorðið fólk um heim allan. Við þurfum að fá rafmagnið til að virka, sé það þinn vilji.“
Sjö mínútur yfir sex kom rafmagnið aftur, jafn skjótt og það hafði farið. Allt fór að virka, tónlistin, hljóðnemarnir, myndböndin og öll útsendingartæki. Við vorum tilbúin í slaginn. Við höfðum upplifað kraftaverk.
Þegar ég og systir Rasband vorum síðar um kvöldið í bílnum á heimleið sendu forseti og systir Nelson okkur þessi textaskilaboð: „Ron, við vildum segja þér að um leið og við fréttum um rafmagnsleysið, báðumst við fyrir um kraftaverk.
Í síðari daga ritningu er ritað: „Því að ég, Drottinn, hef rétt út hönd mína til að koma kröftum himins á hreyfingu. Þér getið eigi séð það nú, en innan tíðar skuluð þér sjá það og vita að ég er, og að ég mun koma og ríkja með þjóð minni.“17
Nákvæmlega þetta gerðist. Drottinn hafði rétt út hönd sína og rafmagnið kom á.
Kraftaverk gerast fyrir mátt trúar, eins og Nelson forseti kenndi svo kröftuglega í síðasta ráðstefnuhluta. Spámaðurinn Moróní brýndi fyrir fólkinu: „Ef engin trú er meðal mannanna barna, getur Guð engin kraftaverk gjört meðal þeirra. Þess vegna sýndi hann sig ekki fyrr en menn trúðu.“
Hann hélt áfram:
„Sjá. Það var fyrir trú Alma og Amúleks, að fangelsið hrundi til grunna.
„Sjá. Það var trú Nefís og Lehís, sem olli breytingunni á Lamanítum, svo að þeir voru skírðir með eldi og heilögum anda.
Sjá. Það var fyrir trú Ammons og bræðra hans, að hin miklu kraftaverk urðu meðal Lamaníta. …
„Og aldrei nokkru sinni hafa nokkrir unnið kraftaverk fyrr en þeir hafa trúað. Þess vegna trúðu þeir fyrst á Guðssoninn.“18
Ég gæti bætt við þessa ritningu: „Það var trú einlægra flytjenda ungs fullorðins fólks, fagfólks útsendingar, kirkjuleiðtoga og meðlima, postula og spámanns Guðs, sem þráðu svo heitt kraftaverk, að rafmagni var komið á í fjarlægu kvikmyndaveri í Goshen í Utah.“
Kraftaverk geta veist sem bænheyrsla. Þau eru ekki alltaf það sem við biðjum um eða væntum, en þegar við treystum Drottni, mun hann vera þar og hafa rétt fyrir sér. Hann mun veita kraftaverkið á því augnabliki sem við þurfum á því að halda.
Drottinn gerir kraftaverk til að minna okkur á mátt sinn, kærleika sinn til okkar, liðsinni sitt frá himnum við dauðlegar upplifanir okkar og þrá sína til að kenna okkur það sem er verðmætast. „Sá, sem hefur trú á mér til að læknast,“ sagði hann við hina heilögu árið 1831, og loforðið er hið sama á okkar tíma, „og ekki er útnefndur til að deyja, hann skal heill verða.“19 Það eru lögmál ákvörðuð á himnum og við erum alltaf bundin þeim.
Stundum vonumst við eftir kraftaverki til að lækna ástvini, snúa við óréttlátum verkum eða mýkja hjarta biturrar eða vonsvikinnar sálar. Þegar við horfum á hlutina með dauðlegum augum, viljum við að Drottinn grípi inn í, lagi það sem er aflagað. Fyrir trú mun kraftaverkið gerast, þó ekki endilega að tímaáætlun okkar eða með þeirri lausn sem við vildum. Merkir það að okkur skortir trúfesti eða verðskuldum ekki afskipti hans? Nei. Við erum elskuð af Drottni. Hann gaf líf sitt í okkar þágu og friðþæging hans léttir áfram af okkur byrðum og syndum, ef við iðrumst og komum í návist hans.
Drottinn minnir okkur á: „Yðar vegir [eru] ekki mínir vegir.“20 Hann býður: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld“21 – hvíld frá áhyggjum, vonbrigðum, ótta, óhlýðni, áhyggjum af ástvinum, frá glötuðum og brostnum draumum. Friður mitt í glundroða eða harmi er kraftaverk. Munið eftir orðum Drottins: „Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“22 Kraftaverkið er að Jesús Kristur, hinn mikli Jehóva, sonur hins hæsta, er að svara með friði.
Á sama hátt og hann birtist Maríu í garðinum og nefndi hana með nafni, býður hann okkur að iðka trú. María hugðist þjóna honum og annast um hann. Hún hafði ekki vænst þess að hann væri upprisinn, en það var í samræmi við hina miklu sæluáætlun.
„Stíg niður af krossinum,“23 sagði hinn trúlausi mannfjöldi hæðnislega við hann á Golgata. Hann hefði getað komið slíku kraftaverki til leiðar. Hann þekkti þó upphafið frá endinum og hafi einsett sér að vera trúfastur áætlun föður síns. Það fordæmi ættum við ekki leiða hjá okkur.
Hann hefur sagt við okkur á tíma prófraunar: „Sjáið sárin er nístu síðu mína og einnig naglaförin á höndum mér og fótum. Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki.“24 Þetta, bræður og systur, er kraftaverk sem okkur öllum er lofað.
Á þessum páskasunnudegi, þegar við höldum upp á kraftaverk upprisu Drottins okkar, þá bið ég þess auðmjúklega sem postuli Jesú Krists, að þið fáið skynjað kraft frelsarans í lífi ykkar, að bænum ykkar til himnesks föður verði svarað af þeim kærleika og trúfesti sem Jesús Kristur sýndi alla sína þjónustutíð. Ég bið þess að þið megið vera stöðug og trúföst í öllu því sem koma skal. Ég blessa ykkur að kraftaverk megi veitast ykkur, eins og við upplifðum í Goshen – sé það vilji Drottins. Gætið að þessum himnesku blessunum í lífi ykkar með því að „leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um, svo að náð Guðs föðurins, og einnig Drottins Jesú Krists og heilags anda, sem ber þeim vitni, megi vera og haldast í yður að eilífu.“25 Í nafni Jesú Krists, amen.