Umbun endurbyggingar
Það olli mér hryggð að horfa á rústirnar eftir jarðskjálftann. En þá rann upp fyrir mér að Guð elskaði þá sem létust, ekki síður en þá sem komust af.
Þar sem ég á heima í Shanghai, Kína, gafst mér kostur á að fara með hópi skólafólks til Sichuan-héraðsins í suðvesturhluta Kína, til að hjálpa til við húsbyggingar fyrir fórnarlömb jarðskjálftans sem lagði svæðið í rúst fyrir nokkrum árum. Við lögðum hart að okkur við að hlaða múrsteina, moka steypu, keyra hjólbörur fullar af múrsteinum og handlanga þá frá einum stað til annars. Eftir annan daginn verkjaði mig í bakið og hanskarnir mínir voru orðnir æði götóttir. Ferðin var mér þó ógleymanleg reynsla og styrkti vitnisburð minn um eigið verðmæti og annarra, sem er eitt af gildum Stúlknafélagsins.
Ég skynjaði að sjálfsmat mitt óx þegar ég stritaði dag eftir dag. Mér leið vel með sjálfa mig, því ég vann við að bæta aðstæður þeirra sem voru mér ógæfusamari.
Okkur gafst líka kostur á að heimsækja skóla á svæðinu. Þegar við komum þangað komu lítil og sæt börn hlaupandi á móti okkur. Þegar ég sá öll þessi litlu dásamlegu börn, skynjaði ég líka verðmæti þeirra. Þau voru öll yndisleg börn Guðs og ég fann sterklega að hann elskar og þekkir sérhvert þeirra.
Þegar líða tók að lokum ferðarinnar gafst okkur kostur á að fara í veitingahús til að snæða hádegisverð. Þegar þangað kom sáum við að það hafði eyðilagst í jarðskjálftanum. Þetta var versta eyðileggingin sem ég hafði fram að þessu séð. Mig langaði til að gráta. Þak og veggir byggingarinnar höfðu hrunið niður, nálægð tré fallið og brak var út um allt. Stórir steinar höfðu oltið niður fjallið og á hlið einnar byggingarinnar og valdið því að þakið og veggurinn brotnuðu niður. Skór lá á einu dyraþrepanna.
Þegar ég hugsaði um þetta og þá staðreynd að fólk hefði látist í þessum hörmungum, átti ég erfitt með að skilja hvernig himneskur faðir gat látið þetta viðgangast. Elskaði hann ekki fólkið? Mér varð síðan hugsað til þess sem við höfðum lært í Stúlknafélaginu og mér varð ljóst að vissulega elskaði hann fólkið. Hann þekkti og elskað það allt persónulega. Þeir sem létust þann dag voru öll börn Guðs. Í fyrstu fannst mér jafnvel enn dapurlegra að hugsa um það. En síðan varð mér ljóst að fólkið var í andaheiminum og gæti snúið til himnesks föður að nýju. Þessi hugsum hughreysti mig og fyllti mig friði.
Ég veit að ég er barn Guðs og einstaklingsverðmæti mitt er mikið. Við erum öll börn himnesks föður, sem þekkir okkur persónulega. Hann elskar okkur heitar en nokkurt okkar fær gert sér í hugarlund. Þann skilning hlaut ég djúpt í hjarta er ég starfaði við hlið þeirra og þjónaði þeim sem þjáðst höfðu svo hræðilega af völdum jarðskjálftans í Sichuan.