Köllun fyrir trúskipting
Ég var nýskírð og hafði enga hæfileika til að leika á píanó. En hve þakklát ég er fyrir köllun mína sem undirleikari greinar minnar, köllun sem breytti lífi mínu.
Stuttu eftir að ég skírðist 10 ára gömul í Lappeenranta, Finnlandi, hlaut ég mína fyrstu kirkjuköllun. Það var árið 1960 og fámennu greininni okkar vantaði sárlega einhvern til að leika undir sálmasönginn á sakramentissamkomum. Ég var beðin að taka það að mér.
Þótt móðir mín hefði stöðugt hvatt bróðir minn og mig til að rækta listhæfileika, kunni ég ekki að leika á píanó og við áttum ekki píanó. En ég vildi uppfylla köllun mína, svo ég gerði áætlun.
Við ræddum á fjölskyldukvöldi hvaða þýðingu köllun þessi hafði fyrir okkur öll. En móðir mín var ekkja með tvö ung börn, og því var okkur ljóst að það yrði heilmikil áskorun fyrir okkur að greiða fyrir píanókennslu. Við vorum öll fús til að færa nauðsynlegar fórnir.
Fyrsta fórnin sem við færðum var fjárhagsleg. Við einsettum okkur að hjóla fremur en að fara í strætó allt frá vori til hausts. Bróðir minn, Martti, var kjarkaður og varð einkar góður að hjóla—jafnvel í snjó og á ís. Ég keypti mér nærri því engin föt og lærði að sauma. Við lærðum líka að lifa sparlega. Við hófum garðrækt í sveitinni nærri húsi afa míns og ömmu og geymdum matvæli til vetursins. „Sumarfríið“ okkar varð ferð móður minnar til musterisins í Sviss, eða lautarferðir og útilegur ekki fjarri heimili okkar.
Önnur fórnin sem fjölskylda mín færði var tímatengd. Við skiptum húsverkunum á milli okkar og endurskipulögðum önnur verkefni og heimanám, svo mér gæfist tími til að æfa mig á píanóið. Og vegna fórna okkar og erfiðis, gat móðir mín þess oft að okkur gæfist enginn tími til að koma okkur í vandræði líkt og jafnaldrar okkar. Köllun mín varð í raun að fjölskylduköllun löngu áður en ég lék nótu.
Ég byrjaði á því að fara í píanótíma hjá tónlistarkennara í hverfisskólanum. Ég æfði mig á pappírsnótnaborði og á píanóinu í kirkjunni. Þegar píanókennari minn flutti í burtu, keyptum við píanóið hans og ég hóf nám hjá nafntoguðum píanókennara á svæðinu.
Ég lærði sálmana sjálf og æfði oft með tónlistarstjóra greinarinnar. Allir hvöttu mig—jafnvel þótt „falsnóta“ læddist með. Kennara mínum hryllti við þegar hún komst að því að ég spilaði fyrir fólk áður en ég hafði lært lögin almennilega. En einnar handar tónlist var betri en alls engin.
Ég hjólaði í kennslu og þegar vetur kom reyndi ég að ganga eða fara á skíðum, ef hægt var. Á sunnudögum gekk ég einsömul í kirkju, svo ég hefði klukkustund til að æfa mig fyrir samkomur. Ég ákvað að taka strætó aðeins þegar hitastigið fór niður fyrir -15ºC. Regn og snjókoma drógu ekki úr mér kjark; tíminn leið hratt á göngu minni, því ég hafði svo marga fallega sálma mér til samfélags. Á göngu minni fór ég yfir slétturnar með frumherjunum (sjá „Ó, kom þú örugg Herrans heilög sveit,“ Sálmar, nr. 13), klifraði hátt á fjallstind í Síon (sjá „Á háum fjallsins hnúk,“ Sálmar, nr. 4), og stóð með æskufólki sem aldrei hrasar (sjá „Sannir í trúnni,“ Sálmar, nr. 109). Ég myndi aldrei hrasa með slíkan stuðning—jafnvel þótt fjölskylda mín og ég værum einu Síðari daga heilagir í samfélagi okkar í austurhluta Finnlands, við landamæri Rússlands.
Í áranna rás varð ég betri píanóleikari og mér tókst að leika tónlist, en ekki bara spila réttar nótur. Mér lærðist að vera bænheit í vali mínu á sálmum, svo andinn ríkti á samkomum. Og mikilvægast er að vitnisburð minn um fagnaðarerindið hlaut ég fyrir tónlistina. Mér reyndist auðvelt að muna eftir innblæstri, orðum og boðskap sálmanna, ef ég var í vafa um eitthvað. Ég vissi að reglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins væru sannar, því ég hafði lært þær setningu á setningu ofan og nótu á nótu ofan.
Ég minnist sérstaklega dags nokkurs þegar trú mín á reglur þessar urðu mér prófraun. Ég var 14 ára gömul og hafði yndi af að synda og mig dreymdi um að synda á Ólympíuleikunum. Ég tók ekki þátt í keppnum á sunnudögum, en náði samt árangri. Loks, þegar Ólympíuleikarnir í Mexíkó-borg tóku að nálgast, bauð þjálfarinn mér að taka þátt í sérstakri þjálfun.
En þjálfunin reyndist vera á hverjum sunnudagsmorgni á tíma sunnudagaskólans. Ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um að ég gæti farið í þjálfunina og sleppt sunnudagaskólanum, því ég gæti í tíma náð sakramentissamkomunni síðdegis. Ég sparaði fyrir strætógjaldinu og skipulagði allt. Ég greindi móður minn frá áætlun minni laugardaginn fyrir fyrstu þjálfunina.
Ég sá vonbrigðin og sorgina í augum hennar, en hún sagði aðeins að ákvörðunin væri mín og mér hefði verið kennt hvað rétt væri að gera. Um kvöldið gat ég ekki hætt að hugsa um texta sálmsins „Veldu rétt“ (Sálmar, nr. 98). Orðin hljómuðu í huga mér líkt og biluð plata.
Á sunnudagsmorguninn hafði ég sundtöskuna í annarri hendi og tónlistartöskuna í hinni, og vonaði að ég gæti fengið móður mína til að halda að ég væri að fara í kirkju. Ég fór út og að strætóskýlinu. Svo vildi til að strætóskýlið mín megin á götunni var fyrir leiðina að sundhöllinni og skýlið hinu megin var fyrir leiðina að kirkjunni. Meðan ég beið varð ég ergileg. Í eyrum mínum klingdi sálmurinn „Hef ég drýgt nokkra dáð?“ (Sálmar, nr. 91)—, sem ráðgert var að syngja í sunnudagaskólanum einmitt þennan dag. Af reynslu vissi ég að stórslys hlytist af án ákveðins undirspils, því taktur sálmsins var erfiður, textinn flókinn og nóturnar háar.
Þegar ég rökræddi þarna við sjálfa mig komu báðir vagnarnir aðvífandi. Vagninn sem fór að sundhöllinni stöðvaði fyrir mig og bílstjóri vagnsins sem fór til kirkjunnar stöðvaði vagninn og leit á mig gáttaður því hann vissi að ég hafði alltaf tekið vagninn hans. Við horfðum öll hvert á annað nokkur andartök. Hverju beið ég eftir? Ég hafði þegar valið Drottin (sjá „Who’s on the Lord’s Side?“ Hymns, nr. 260). Ég hafði lofað að fara hvert sem hann vildi að ég færi (sjá „Ég fer hvert sem vilt að ég fari,“ Sálmar, nr. 104). Ég hafði ákveðið löngu áður að halda boðorðin (sjá „Boðorðin haldið,“ Sálmar, nr. 113).
Áður en hugsunin tók yfir hjartað hafði líkami minn brugðist við. Ég stikaði örg yfir götuna og gaf hinum vagninum merki um að halda áfram. Ég greiddi fargjaldið og settist aftast í vagninn á leið til kirkjunnar og horfði á sunddraumana hverfa í burtu í gagnstæða átt.
Allir héldu að ég hefði grátið þennan dag vegna þess að ég skynjaði andann. En í raun grét ég vegna þess að æskudraumur minn fór út um þúfur og ég fyrirvarð mig fyrir að hafa jafnvel gælt við þá hugmynd að synda á hvíldardegi. En þennan sunnudag uppfyllti ég köllun mína, líkt og ég hafði alltaf gert og mun eftir sem áður gera.
Þegar að því kom að ég fór í framhaldsskóla, þjálfaði ég nokkra meðlimi greinarinnar í söngstjórn og píanóleik. Ég hélt áfram að leika á píanó meðan ég var í skólanum og lærði líka að spila á orgel. Ég taldi möguleika mína á því að fara til rómönsku Ameríku enga eftir að ég gaf sundkeppni upp á bátinn, en eftir að ég lauk meistaragráðu frá Brigham Young háskóla, þjónaði ég í trúboði í Kólombíu. Í trúboði mínu kenndi ég píanóleik. Ég vildi að þessir heilögu gætu notið tónlistar eftir að ég færi. Börn og unglingar í Kólombíu þurftu að ganga marga kílómetra í sólarhitanum til að geta lært að spila á píanó. Þau byrjuðu líka á því að spila með einni hendi uns þau gátu leikið með báðum höndum. Og þau færðu meiri fórnir en ég hafði gert til að geta lært á píanó.
Nú eru liðin yfir 50 ár frá því að ég skírðist. Ég hef ferðast vítt og breitt frá heimili mínu í Finnlandi og hvert sem ég hef farið er alltaf þörf fyrir einhvern til að spila undir sálmana. Alheimsmál tónlistarinnar hefur byggt brýr skilnings og kærleika á mörgum stöðum.
Fingur mínir eru nú stirðir af liðagigt. Margt hæfara tónlistarfólk hefur komið í minn stað. Móðir mín er oft sorgmædd er henni verður hugsað til fyrstu ára minna í kirkjunni og alls þess sem ég lagði á mig, langra gönguferða minna og þess sem ég þurfti að neita mér um. Að henni læðist sá grunur að kuldinn hafi stuðlað að liðagigt minni. Ég ber þó mín „lífsins ör“ með gleði. Gleði mín og sorg fær útrás í tónlistinni. Mér lærðist að tjá hlátur og grátur með fingrum mínum.
Hjarta mitt fyllist þakklætissöng þegar mér verður hugsað til þess að himneskur faðir og leiðtogar mínir báðu unga stúlku um að taka að sér svo erfitt verkefni. Köllunin gerði mér kleift að hljóta öruggan skilning á fagnaðarerindinu og stuðla að því að aðrir nytu andans með tónlist. Ég er lifandi sönnun þess að hinir nýju í trúnni þurfa köllun—jafnvel ungar stúlkur sem ekki kunna að leika á píanó. Í fyrstu köllun minni komst ég að því að með Guði er ekkert ómögulegt og að hann hefur áætlun og tilgang fyrir hvert barn sitt. Og tónlistin gerði mér kleift að hljóta staðfastan vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.