Ekki brotlenda
Örlítil aðgát nú getur síðar fyrirbyggt mikinn vanda.
Flugvélar hafa verið yndi Andrei allt frá barnsaldri. En þótt marga hafi dreymt um að fljúga, þá er höfuð Andrei ekki uppi í skýjunum; hann hefur áhuga á boltum og skrúfum. Þessi 16 ára gamli Rúmeni er að afla sér menntunar sem flugvélavirki.
Í Rúmeníu geta unglingar valið brautir í grunnskóla til að búa sig undir menntaskóla eða iðnskóla. Þar sem Andrei hefur unun af flugvélum var ákvörðun hans um að fara í flugvélavirkjun ekki erfið.
Flugvélavirkjar gera ekki aðeins við bilaðar flugvélar. Eitt mikilvægasta sem þeir gera er að vinna að skoðun og viðhaldi flugvéla, svo bilarnir komi ekki upp í þeim. Þeir skoða reglulega allt sem viðkemur flugvélinni, allt frá skrúfum til lendingargírs og allt þar á milli.
„Erfitt getur reynst að greina smávægilegan vanda sem síðar gæti orðið til þess að flugvél hrapi,“ sagði Andrei. „En bilanaleitin er auðveldari en að reyna að setja saman heila flugvél aftur.“
Reglubundið viðhald og vandvirknisleg vinnubröð eru mikilvæg—bæði fyrir flugfélagið og kirkjuna—í þeirri viðleitni að skilgreina og leiðrétta vanda áður en vélrænt eða andlegt hættuástand skapast.
Andlegt viðhald
Andrei á heima í Búkarest, nærri tveggja milljóna manna borg. Kirkjan er þó tiltölulega ný í Rúmeníu og meðlimir eru ekki fleiri en svo að þar eru tvær greinar. Andrei og fjölskylda hans búa fjarri öðrum meðlimum greinarinnar. Andrei finnur þrýsting heimsins hvarvetna, í skólanum og meðal vinanna. Hann veit hve auðvelt er að hrapa—í andlegri merkingu—ef hann viðheldur ekki reglubundið andlegum styrk sínum.
Lífið getur verið erilsamt. Ásamt því að stunda heimanámið, fótbolta og tölvuna, gefur Andrei sér tíma til að biðja, fasta, læra ritningarnar og rækja skyldur sínar sem prestur. Hann „fer“ líka örugglega í trúarskólann, sem hann stundar á netinu vegna fjarlægðar.
Það er hluti af hinu reglubundna andlega viðhaldi, sem skilgreinir og leiðréttir veikleika okkar, áður en þeir leiða til lífshættulegs hraps í andlegum skilningi.
„Það er sumt sem við hreinlega verðum að gera reglubundið—að skapa okkur venjur,“ sagði hann. „Við megum ekki láta stjórnast af lífinu.“
Andlegt hrap
Andrei hefur lært að ef við sinnum ekki reglubundið andlegu viðhaldi, geta þættir líkt og streita eða þrýstingur jafnaldra orðið yfirsterkari getu okkar til að standast freistingar. Þegar það gerist, er ekki langt í að við hverfum frá stefnu okkar, og sjálfstjórn og glötum að lokum okkar andlega krafti.
Á sama hátt og flugvél án afls missir lofthæð, missum við hæð þegar við syndgum, glötum okkar andlega krafti og fjarlægjumst himininn, og fyrr eða síðar upplifum við andlega brotlendingu.
Þótt friðþæging frelsarans megni að gera okkur heil aftur eftir brotlendingu, er langtum einfaldara að reiða sig á kraft hans til að leysa vandann meðan hann enn er smár—áður en hann veldur andlegum hörmungum.
Áhætta vanrækslu
Sú hugsun að vanrækja viðhald flugvélar hefur aldrei hvarflað að Andrei. Vanræksla er ekki valkostur. „Það er bundið lögmáli,“ sagði hann. En ef hann mundi sleppa viðhaldi—aðeins í eitt skipti—viðurkenndi hann „hlytist líklega enginn skaði af því.“
Kannski felst mesti vandi vanrækslu ekki í því að flugvélin hrapi þegar í stað, heldur að hún hrapi ekki. „Ef ekkert slæmt gerist þegar ég vanræki einu sinni, er auðveldara að freistast til að vanrækja aftur á morgun,“ sagði hann.
Þegar viðhaldi er sleppt reglubundið, munu kraftar og álag sem flugvélin verður fyrir—eða við sjálf—valda því að eitthvað lætur að lokum undan. „Að því kemur að við brotlendum,“ sagði hann.
Þess vegna hefur Guð líka gefið okkur lögmál reglubundins viðhalds. „Þér skuluð koma oft saman [í kirkju] (3 Ne 18:22; skáletrað hér). „Þess vegna verðið þér ávallt að biðja“ (sjá 3 Ne 18:19). Kannið ritningarnar af kostgæfni (sjá 3 Ne 23:1–5). „Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust“ (K&S 121:45; skáletrað hér). Sækið musterið heim reglubundið.1
Ef við höldum þessi lögmál og sinnum reglubundið okkar andlega viðhaldi, munum við fljúga rétt.
„Flugvél er byggð til að takast á loft, fljúga af jörðu.“ sagði Andrei. „Það vill himneskur faðir að við gerum. Með reglubundnu viðhaldi, munum við komast þangað sem við óskum okkur—aftur til himins.“