2012
Heimsþjálfunarfundur leiðtoga lagði áherslu á raunverulegan vöxt
Apríl 2012


Heimsþjálfunarfundur leiðtoga lagði áherslu á raunverulegan vöxt

Leiðtogar kirkjunnar útskýrðu hvað „raunverulegur vöxtur“ er og hvernig vinna á að honum á heimsþjálfunarfundi leiðtoga, 11. febrúar 2012.

Dieter F. Uchtdorf forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu og meðlimir Tólfpostulasveitarinnar, forsætisráð hinna Sjötíu og aðalforsætisráð aðildarfélaga kirkjunnar komu saman til að veita kirkjuleiðtogum víða um heim leiðsögn og fræðslu.

„Hvað kirkjuna varðar, mætti skilgreina vöxt sem ‚nýja meðlimi.‘ … Raunverulegan vöxt ætti þó að skilgreina sem ‚fjölgun virkra meðlima,‘ útskýrði Uchtdorf forseti.

Öldungur M. Russell Ballard í Tólfpostulasveitinni, sagði ennfremur: „Vöxtur á sér stað þegar einstaklingar og fjölskyldur umbreytast trúarlega vegna ævilangrar skuldbindingar um að lifa eftir fagnaðarerindinu.“

Að sögn Uchtdorfs forseta þá er slík skuldbinding og hollusta ekki auðmæld, því í henni felast daglegar bænir, ritningarnám, fjölskyldukvöld, ástríki á heimilinu og persónuleg upplifun af friðþægingunni.

Hann sagði: „Of oft gerum við fagnaðarerindið í fegurð þess og einfaldleika erfiðara viðfangs með löngum lista ákveðinna væntinga.“ Ef við hins vegar einblínum á „ hvers vegna“ fagnaðarerindisins, mun flest það hverfa sem veldur okkur hugarangri.“

Stór hluti þjálfunarinnar fjallaði um lykil kenningar og reglur, sem veita svör við „hvers vegna“ spurningum.

Uchtdorf forseti sagði: „Slíkar ‚hvers vegna‘ spurningar leiða okkur að viðeigandi ‚hver,‘ ‚hvað,‘ ‚hvenær,‘ ‚hvar,‘ ‚hvers vegna‘ og ‚hvernig‘ ákvörðunum.“

Hjónabandið og fjölskyldan í áætluninni

„Kirkjan er byggð upp á fjölskyldunni,“ sagði Boyd K. Packer forseti Tólfpostulasveitarinnar. „Deildir og stikur eru tilfallandi. Þegar við ræðum um fjölskyldur, sjáum við raunverulegan vöxt kirkjunnar.“

Hann sagði að hver eiginmaður og faðir ætti að vera embættismaður í prestdæminu á heimili sínu, að ríkja yfir fjölskyldu sinni í réttlæti. Hann sagði svipað þessu að hver prestdæmisleiðtogi ætti að leiða verðuglega—í hinum mismunandi prestdæmisembættum, og að hver prestdæmishafi búi að sama prestdæmi og hver annar (sjá K&S 1:20).

Öldungur Russell M. Nelson í Tólfpostulasveitinni lagði áherslu á að eiginmenn og eiginkonur, feður og mæður, verði að byggja upp samband kærleika, iðrunar og bænar, til árangursríkrar varnar fjölskyldunni, sem „er þungamiðjan í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Vonarstjarnan maí, 1996).

Hann sagði: „Í helgri ritningu er þess getið þrisvar að öll jörðin verði lostin banni við endurkomu Drottins, að óuppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í hverju þeirra tilvika er um aðvörun að ræða sem varðar ástand mannkyns, væri helgiathöfn musterisinnsiglunar ekki fyrir hendi. Án þessarar helgiathafnar upphafningar, yrði dýrð Guðs ekki að veruleika.“

Að ná þessu lokatakmarki—eilífu lífi og upphafningu fyrir öll börn Guðs—krefst þess að raunverulegur vöxtur eigi sér stað á heimilum okkar, í deildum og greinum, og alls staðar í kirkjunni.

Hagnýting fagnaðarerindisins

Raunverulegur vöxtur og trúarumbreyting á sér stað við hagnýtingu fagnaðarerindisins í daglegu lífi. Í umræðuhlutanum spurningar og svör útskýrðu öldungarnir L. Tom Perry og D. Todd Christofferson í Tólfpostulasveitinni að endanlegt takmark fagnaðarerindisins væri að gera og halda sáttmála musterisins. Öldungur Christofferson sagði að hlýðni við sáttmála gæti með tímanum breytt hinum náttúrulega manni í heilagan.

Að ná til annarra er enn ein mikilvæg leið til að hagnýta fagnaðarerindið. Leiðtogarnir sögðu hvern meðlim og kirkjuna í heild bera ábyrgð á því að koma öðrum til bjargar, sem eiga í stundlegum og andlegum vanda.

Öldungur Christofferson sagði að við ættum ekki að hika við að taka höndum saman við aðra trúarsöfnuði og þjónustusamtök við að hlynna að fátækum og þurfandi. Prestdæmisleiðtogar ættu að vera leiðandi í slíkum verkefnum, en meðlimir og trúboðar ættu einnig að styðja þau.

Í pallborðsumræðum var fjallað um þjónustu við fjölskyldur, eflingu Melkísedeksprestdæmishafa og aðstoð við að stuðla að trú og vitnisburði æskufólks. Öldungarnir Ballard og Neil L. Andersen í Tólfpostulasveitinni tóku þar þátt, ásamt öldungi Ronald A. Rasband í forsætisráði hinna Sjötíu; Elaine S. Dalton, aðalforseta Stúlknafélagsins; og Rosemary M. Wixom, aðalforseta Barnafélagsins.

Öldungur Rasband sagði að allir leiðtogar þyrftu að taka þátt í að leiða meðlimi aftur til fullrar virkni og öldungur Andersen lagði áherslu á að æskufólkið þyrfti að taka aukinn þátt í endurvirkni og eflingu sín á milli.

Ná raunverulegum vexti

Uchtdorf forseti lagði áherslu á að raunverulegur vöxtur ætti sér stað er meðlimir hagnýttu sér reglur fagnaðarerindisins í daglegu lífi.

Hann sagði: „Er þið hugleiðið efnið, spyrjið ykkur þá sjálf ‚hvers vegna‘ um þjónustu ykkar og niðurstöðuna ‚af því að‘ í ábyrgð ykkar sem einstaklingar og ráð.“

Læra meira

Hægt er að horfa á, prenta og hala niður efni útsendingarinnar á mörgum tungumálum með því að fara á lds.org/study/other-addresses og smella á Worldwide Leadership Training.

Öldungur M. Russell Ballard í Tólfpostulasveitinni talaði í pallborðsumræðunum sem voru á heimsþjálfunarfundi leiðtoga í febrúar 2012.

© IRI