2012
Mér fannst ég þurfa að koma
Apríl 2012


Mér fannst ég þurfa að koma

Aldo Fabio Moracca, Nevada, Bandaríkjunum

Tveimur og hálfu ári eftir skírn mína í Buenos Aires í Argentínu, hljómuðu orð eins öldungsins sem hafði kennt mér enn í eyrum mínum: „Ég veit að þú ert trúboði.“ Ég man líka eftir áhrifaríku svarinu sem ég hlaut þegar ég bað þess að fá að vita hvort tilfinningin sem hafði búið um sig í hjarta mínu væri sönn. Þegar ég varð 20 ára vissi ég að ég ætti að búa mig undir trúboð.

En hvernig gat ég orðið trúboði? Ég komst ekki í hálfkvist við þá dásamlegu ungu menn sem höfðu kennt mér fagnaðarerindið. Og hvernig gat ég farið úr starfi minni? Hvar gæti ég búið þegar að ég kæmi heim? Mér hafði reynst afar erfitt að finna staðinn sem ég bjó á, jafnvel þótt hann væri aðeins lítið bakherbergi í annarra húsi.

Á heimleið kvöld eitt fylltist hugur minn aftur af þessum efasemdum. Þegar heim kom reyndi ég að taka ákvörðun. Ég ákvað að krjúpa og biðjast fyrir um hjálp. Þegar ég gerði það fann ég sterka hugljómun um að ég ætti að fara til Leandro, vinar sem hafði stutt mig dyggilega á erfiðum tímum.

En hugsunin um að vekja hann á miðnætti varnaði mér að fara til hans. Ég vissi að hann þurfti að vakna snemma og fara til vinnu og ég þorði ekki að knýja dyra hjá honum á þessum tíma. Ég barðist gegn þeirri hugsun að fara til hans en hún áreitti mig stöðugt. Enn ákvað ég að leiða hana hjá mér.

Þess í stað einsetti ég mér að ganga um hverfið til að fá mér frískt loft. Þegar ég hins vegar uppgötvaði að ég hafði skilið dyrnar eftir opnar, fór ég aftur heim. Þegar ég kom inn til mín sá ég Leandro sitja í herberginu. Andinn kom yfir mig og ég tók andköf. Tilfinningaþrunginni röddu spurði ég hann: „Hvað ert þú að gera hér?“

„Ég veit það ekki,“ svaraði hann. „Mér fannst bara að ég ætti að hitta þig.“

Ég sagði honum frá efasemdum mínum um trúboðið. Hann gaf mér vitnisburð sinn og hvatti mig til að fara. Hann hjálpaði mér síðan að útfylla trúboðsumsóknina, sem ég færði biskupinum morgunin eftir. Tveimur mánuðum síðar hlaut ég köllun mína um að fara í Salta-trúboðið í Argentínu.

Ég veit að vinur minn var verkfæri í höndum Drottins þetta kvöld, og af öllu hjarta veit ég að himneskur faðir hlustar og svarar þeim bænum sem fluttar eru af alvöru hjartans og einlægum ásetningi.