Musteristíðindi
Vígsla Quetzaltenango-musterisins í Guatemala
Quetzaltenango-musterið í Guatemala var vígt sunnudaginn 11. desember 2011, á þremur vígsluathöfnum af Dieter F. Uchtdorf forseta, öðrum ráðgjafa í Æðsta forsætisráðinu. Útsending var af samkomum vígslunnar til safnaða kirkjunnar innan musterisumdæmisins.
„Hve dásamlegt musteri,“ sagði Uchtdorf forseti á menningarhátíð laugardagsins, þar sem æskufólk frá heimasöfnuðum dansaði, söng og lék sögu og menningu staðarins. „Það geislar af því líkt og demanti og það er dýrgripur fyrir þetta svæði og landið allt.“
Quetzaltenango-musterið í Guatemala er 136. musterið í heiminum öllum og hið fimmta í Mið-Ameríku. Musterið mun þjóna um 60.000 síðari daga heilögum.
Kirkjan tekur skóflustungu að byggingu sjöunda musterisins í Brasilíu
Hinn 15. nóvember 2011 var öldungur David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni í forsæti fyrir athöfn þar sem fyrsta skóflustunga var tekin að Fortaleza-musterisins í Brasilíu, sjöunda musteris kirkjunnar þar í landi.
Öldungur Bednar sagði: „Musteri þetta mun vekja vonir, veita ljós og efla trú á Guð, öllum sem hingað koma og ganga um þetta svæði. Borg þessi mun alltaf verða betri og öðruvísi en áður vegna musterisins sem hér verður byggt.“
Musterið verður byggt í Avenida Santos Dumont í Fortaleza, Ceará, Brasilíu. Thomas S. Monson forseti tilkynnti á aðalráðstefnu í október 2009 um byggingu Fortaleza-musterisins í Brasilíu.