Uns við hittumst á ný
Von friðþægingarinnar
Úr hátíðarræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla, 4. nóvember 2008. Til að lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.
Von okkar má ekki aðeins byggjast á þekkingu og vitnisburði, heldur líka á persónulegri reynslu af friðþægingunni.
Ég hef kynnst fólki sem hefur enga von haft. Þeim finnst iðrun og fyrirgefning vera utan þeirra seilingar. Þeir skilja ekki hreinsandi mátt friðþægingarinnar. Og ef þeir hafa skilning á því, hafa þeir ekki skilið hverju þjáningar Jesú Krists í Getsemane og á krossinum komu til leiðar. Glati eitthvert okkar þeirri von að geta hreinsast, er það að virða að vettugi hinar sáru og ógnvænlegu þjáningar sem hann þoldi fyrir okkur.
Fyrir nokkrum árum átti ég viðtal við 21 árs gamlan mann þegar ég var á stikuráðstefnu, til að ákvarða verðugleika hans til að þjóna í trúboði. Venjan er ekki sú að aðalvaldhafar eigi viðtal við verðandi trúboða. Þetta var því óvenjulegt. Þegar ég kynnti mér bakgrunn hans og ástæður viðtalsins, fylltist hjarta mitt sorg. Piltur þessi hafði drýgt alvarlegar syndir. Ég velti fyrir mér hvers vegna ég hefði verið beðinn að ræða við mann með slíkan bakgrunn, því mér fannst afar ósennilegt að ég gæti mælt með því að hann sækti um að fara í trúboð.
Eftir laugardagshluta ráðstefnunnar fór ég í skrifstofu stikuforsetans til að búa mig undir viðtalið. Þegar ég beið þar kom ungur og myndarlegur maður aðvífandi með yndislega ásýnd. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti afsakað mig, því mér virtist hann vilja ræða við mig og ég átti mót við afar bagaðan ungan mann. Hann kynnti sig þá. Hann var ungi maðurinn sem ég hafði beðið eftir.
Í næði skrifstofunnar spurði ég hann aðeins einnar spurningar: „Hvers vegna er ég látinn eiga viðtal við þig?“
Hann sagði frá fortíð sinni. Þegar hann hafði lokið því, tók hann að útskýra skrefin sem hann hafði tekið og þjáningarnar sem hann hafði þolað. Hann ræddi um friðþæginguna—óendanlegan mátt friðþægingarinnar. Hann gaf vitnisburð sinn og tjáði elsku sína til frelsarans. Og sagði síðan: „Ég trúi að frelsarinn hafi þolað þjáningar sínar í Getsemane og að fórn hans á krossinum hafi jafnvel verið nægileg til að frelsa mann eins og mig.“
Snortinn af auðmýkt hans og andanum sagði ég: „Ég ætla að mæla með þér til að þjóna sem fulltrúi Jesú Krists.“ Og síðan sagði ég: „Ég fer aðeins fram á eitt við þig. Ég vil að þú verðir besti trúboðinn af öllum í kirkjunni. Það er allt og sumt.“
Þremur eða fjórum mánuðum síðar vorum við hjónin að flytja ræðu í trúboðsskóla. Við lok ræðuhaldanna vitjaði ég trúboðanna og sá þá ungan mann með kunnuglegt andlit.
Hann spurði: „Manstu eftir mér?“
Ég sagði nokkuð skömmustulegur: „Fyrirgefðu. Ég kannast við þig, en kem þér ekki fyrir mig.“
Hann sagði þá: „Ég skal segja þér hver ég er. Ég er besti trúboðinn í trúboðsskólanum.“ Og ég trúði honum.
Von þessa unga manns byggist ekki aðeins á þekkingu og vitnisburði um friðþæginguna, heldur líka á persónulegri reynslu af þeirri gjöf. Hann skildi að hún var fyrir hann persónulega! Hann þekkti mátt friðþægingarinnar og vonina sem hún veitir þegar allt virðist glatað og öll sund lokuð.