Trúarskóli í frumskógum Ekvador
Á afskekktu frumskógarsvæði skiptir trúarskólinn sköpum fyrir æskufólkið þar.
Austan við Quito í Ekvador og eldfjöllin og Andes-fjallgarðinn, er landslagið flatt þar sem Amason-frumskógurinn tekur við. Þar er skógurinn þéttvaxinn, með mörgum ám, öpum, piparfuglum og jafnvel bleikum höfrungum.
Þar er líka borg að nafni Puerto Francisco de Orellana. Hún er eiginlega fjarri öllu öðru í Ekvador. Fyrir fimmtán árum voru íbúar þar tiltölulega fáir. En uppgötvun jarðolíu leiddi til iðnaðaruppbyggingar, meiri atvinnu og kirkjumeðlimum þar fjölgaði.
Trúarskóli í fámennri grein
Sumt æskufólkið, líkt og Oscar R., var þegar meðlimir við stofnun greinarinnar, en flest er það nýskírt. Og eldur brennur í hjörtum þess. „Við erum sterk,“ segir Oscar.
Í september 2010, aðeins ári eftir stofnun greinarinnar, hófst trúarskólinn þar. „Þegar við komum saman í upphafi fyrir nokkrum árum,“ sagði Oscar, „vorum við afar fá. Ég var eini unglingurinn. En okkur tók að fjölga. Brátt vorum við 6, síðan 10 og nú erum við jafnvel enn fleiri.“
Þar sem sumt æskufólkið sótti skóla á morgnana og annað síðdegis, var trúarskólinn tvískiptur—á morgnana frá kl. 8:00 til 9:00 og síðdegis frá kl. 16:30 til 17:30.
Þótt það hafi ekki verið margir í trúarskólanum, varð hann til þess að æskufólkið sem sótti hann breytti lífi sínu.
Af hverju að fara?
„Trúarskólinn er mér mikil blessun,“ sagði Luis V., sem skírðist fyrir nokkru. „Hann býr mig undir að verða góður trúboði. Ég hef tekist á við margar áskoranir og freistingar frá því ég gekk í kirkjuna, og mér hefur tekist að vera sterkur, því ég veit að ég geri það sem rétt er.“
Og það er ekki aðeins Luis sem er á þeirri skoðun. „Ég hef verið meðlimur kirkjunnar aðeins í stuttan tíma,“ sagði Ariana J., „en ég hef sótt trúarskólann frá því að ég var skírð. Ég er ánægð með námið, því ég læri ýmsan sannleika um fagnaðarerindi Jesú Krists, sem fyllir hjarta mitt von og huga minn skilningi.“
Trúarskólinn hefur stuðlað að auknum trúarþroska Ariana. „Mér finnst það blessun að vera í þessum námsbekkjum,“ sagði Ariana. „Þeir efla anda minn og búa mig undir það hlutverk mitt í framtíðinni að verða maki, móðir, leiðtogi í kirkjunni og hugsanlega fastatrúboði.“
Bróðir Ariana, Gerardo, er sama sinnis. „Ég er þakklátur fyrir að trúarskólinn er orðinn mikilvægur hluti lífs míns.“ sagði hann. „Hann býr mig undir að þjóna í trúboði þegar að því kemur. Í honum hef ég lært um sáluhjálparáætlunina sem Guð hefur séð mér fyrir. Í hvert sinn sem ég sæki trúarskólann eflir það von mína um að ég geti erft himneska ríkið og veitir mér fullvissu um að ég hef tekið á móti fagnaðarerindi Jesú Krists.“
Gerardo er stundum nokkuð þreyttur í kennslustundinni. Hann þarf fyrst að fara með litla bróður sinn í skólann og síðan að skjótast heim til að sækja systur sína, svo þau geti farið saman í trúarskólann. En honum er sama.
„Allt þetta er nýtt fyrir mér, en ég er afar hamingjusamur,“ sagði Gerardo. „Ég veit að ég er á réttri leið sem gerir mér kleift að sjá aftur föður minn á himnum. Heilagur andi veitir mér þá fullvissu. Ég verð aðeins að gera mitt og standast allt til enda.
Engin þörf er á kvíða
Í upphafi var trúarskólinn svolítið hrellandi fyrir Walter A. „Ég var kvíðinn fyrst þegar ég kom,“ sagði hann. „En þegar kennslan hófst fannst mér ég sérstakur, því ég skynjaði þá elsku sem maður finnur við ritningarnám. Og þegar ég fór fann ég til aukinnar gleði í hjarta mínu yfir því sem ég lærði. Ein mesta blessunin sem himneskur faðir ætlar æskufólki sínu er trúarskólinn.“
„Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur breytt lífi mínu,“ sagði Abel A., sem býr sig líka undir að fara í trúboð. „Ég læri um kenningar spámannanna. Ég ann Joseph Smith. Hann endurreisti hina sönnu kirkju hugdjarfur, þrátt fyrir allan vandann sem það færði honum. Ég vil líka vera hugdjarfur eins og hann.“
Margt æskufólkið þarf að færa fórnir til að sækja trúarskólann. Það er ekki alltaf auðvelt, en fyrir æskufólkið í Puerto Francisco de Orellana í Ekvador, er það erfiðisins virði.
„Þegar mér verður hugsað til þess að sækja fram, líkt og segir í ritningunum,“ sagði Abel, „finnst mér það þýða að við þurfum að forgangsraða rétt í lífinu. Trúarskólinn fellur þar undir. Trúarskólinn getur breytt lífi alls æskufólks, rétt eins og hann breytti mínu.“
Kirkja Jesú Krists og trúarskóli æskufólksins blómstrar jafnvel innst í skógum Ekvadors og breytir lífi þeirra sem hann sækja.