Ég mun deyja!
Ramona Ross, Tennessee, Bandaríkjunum
Ég starfa sem hjúkrunarkona á eftiraðgerðardeild og fékk dag nokkurn símtal varðandi sjúkling að nafni Bill, sem nýkominn var úr skurðaðgerð. Hann hefði átt að fá inni á gjörgæsludeild, en var falinn mér í hendur því sú deild var yfirfull.
Sjúklingurinn kom brátt ásamt fjölskyldu sinni. Mér létti að sjá að hann var skýr í hugsun og virtist ekki þjáður.
Eftir að ég hafði gert nauðsynlegar prófanir á honum og sýnt honum og fjölskyldu hans herbergið, fór ég fram á gang til að skrá athugasemdir á spjaldið hans. Um leið og penninn snerti blaðið heyrði ég rödd segja: „Farðu aftur inn í herbergið hans.“ Ég hætti við að skrifa og horfði aftur fyrir mig. Þar var enginn. Ég taldi þetta hafa verið ímyndaða rödd, þegar ég allt í einu heyrði hana aftur—og þá greinilegar.
Ég hljóp inn i herbergi Bills og sá að háls hans hafði tvöfaldast að stærð og hann átti erfitt með andardrátt. Ég hélt að hálsslagæð hans hefði rifnað og þrýsti því fast á háls hans með hægri hendinni meðan ég notaði vinstri höndina til að hringja í lækninn sem séð hafði um meðferð hans. Skurðlæknirinn sagðist senda læknalið upp til Bills strax og hægt væri. „Og ekki taka höndina í burtu!“ sagði hann.
Þegar ég þrýsti þarna á háls Bills tók ég eftir kunnuglegri kirkjubók hjá rúmi hans. „Ertu meðlimur kirkjunnar?“ spurði ég.
Hann reyndi að kinka kolli en sagði mér síðan að hann væri musterisþjónn í Georgia-musterinu í Atlanta. Úr augum hans streymdu tár og hann sagði: „Ég mun deyja!“
Ég svaraði honum að hann myndi ekki deyja og sagði gallhörð: „Ég er að fara að gifta mig í musterinu í Atlanda í næsta mánuði og þú verður þar.“ Skurðaðgerðateymið birtist svo og rauk með Bill í burtu.
Í spenningnum yfir brúðkaupinu næsta mánuðinn hafði ég næstum gleymt Bill, en í ljós hafði komið að svörun hans við lyfjagjöfinni var jákvæð. Þegar musterisþernan leiddi mig inn í innsiglunarherbergið á brúðkaupsdegi mínum, birtist mér kunnuglegt andlit: Eiginkona Bills, Georgia. Þegar ég sagði henni að ég væri í þann mund að gifta mig, fór hún til að ná í Bill. Rétt áður en athöfnin hófst lukust dyrnar upp og hann kom inn. Eftir margra vikna höfuðverk, ógleði og þreytu, leið Bill nógu vel dag þennan til að koma til musterisins, án þess þó að vita að þetta væri brúðkaupsdagur minn.
Tveimur árum síðar var ég og eiginmaður minn kölluð til að vera musterisþjónar í Nashville-musterinu í Tennessee. Þegar við komum í musterið til embættisísetningar hélt herramaður nokkur dyrunum opnum fyrir mig og sagði: „Velkomin í Nashville-musterið!“ Það var bróðir Bill.
Við þjónuðum saman í þrjú ár. Bill sagði öllum að ég hefði bjargað lífi hans, en ég vissi að það var Drottinn sem hafði gert það. Þessi reynsla hefir kennt mér mikilvægi þess að hlusta á innblástur andans.