Deildarráð að starfi
Síðari daga heilagir nota deildar- og greinarráð tl að blessa líf hinna þurfandi.
Kvöld eitt, 22. maí 2011, á meðan ærandi sírenur hljómuðu, brast gríðaröflugur fellibylur á yfir Joplin, Missouri, í Bandaríkjunum, og eyðilagði heimili og tók líf. Fyrsta Joplin deildin kom herfilega undan skýstrokknum, og Chris Hoffman biskup og deildarráðið tóku þegar í stað að huga að deildarmeðlimum.
„Við höfðum gert neyðaráætlun og rætt um viðbrögð okkar á deildarráðsfundi áður en þetta gerðist,“ sagði hann. „Við reiddum okkur líka á andann til að vita hvað þyrfti að gera. Rafmagnslínur höfðu fallið. Farsímar virkuðu ekki. Við báðumst fyrir og hlustuðum eftir svari, sem lét ekki á sér standa—það kemur alltaf. Það var huggunarríkt fyrir mig sem biskup að heyra meðlimi segja: ‚Þetta er það sem ég hef gert,‘ í stað ‚Hvað viltu að ég geri‘ “
Viðbrögðin í Joplin eru dæmigerð fyrir samstöðumátt deildarráðs. „Deildarráðsfundur er einn sá mikilvægasti í kirkjunni,“ ritaði öldungur M. Russell Ballard í Tólfpostulasveitinni, „því þar geta leiðtogar prestdæmis og aðildarfélaga rætt saman og lagt á ráðin með biskupsráði. … Ég held að af öllum ráðum og nefndum kirkjunnar geti deildarráðið komist mestu til leiðar við að hjálpa börnum föður okkar.“1
Sameinuð í kærleika og trú
Í þorpinu Puerto Francisco de Orellana, sem er afskekkt í frumskógum Ekvador, búa meðlimir að sterkum kærleiks- og trúarböndum. Á mánaðarlegum greinarráðsfundum kemur umhyggja þeirra fram. Þar eru einstaklingar og fjölskyldur í fyrirrúmi og síðan hvernig dagskrá getur komið að liði. Innblástur fylgir í kjölfarið.
Margir meðlimir þarfnast hjálpar við atvinnuleit. Greinarráðinu finnst að oft megi leysa vanda meðlima á heimasvæði þeirra. Þegar greiðarráðið ræðir þarfir einhleyprar móður með unga dóttur sem stríðir við heilsuvanda, bendir Líknarfélagsforsetinn á starf sem móðirin gæti starfað við og verið nærri dóttur sinni.
Greinarráð nýtir sér líka úrræði kirkjunnar, svo sem fræðsluefni og námskeið Atvinnumiðlunar SDH.2 Það hefur komið á fót námsbekk sem greinarmeðlimur kennir og hjálpað hefur öðrum meðlimum að finna sér betri atvinnu.
Ricardo Reyes, fyrsti ráðgjafi í forsætisráði greinarinnar, sagði um greinarráðið: „Við erum verkfæri í höndum Drottins. Hann mun koma tilgangi sínum til leiðar fyrir okkar starf.“
Leiðin að musterinu
Melissa Fisk frá Liverpool, New York, Bandaríkjunum, hefur hlotið skilning á gagnsemi greinarráðsfunda er hún hefur sótt þá. Þegar hún fór ofan í veskið sitt til að sækja glósubók, fann hún ljósmynd af 28 börnum í Barnafélaginu á þrepum Palmyra-musterisins í New York. Öll voru þau þakin býflugnastungum. Andartak dró myndin athygli hennar frá fundinum og henni varð rétt sem snöggvast hugsað um daginn sem Barnafélag greinarinnar hafði farið til Palmyra til að njóta helgra áhrifa musterislóðarinnar. Því miður höfðu börnin fyrir slysni vakið reiði býflugna þegar þau breiddu út teppin nærri búinu þeirra.
Eftir að hugað hafði verið að öllum börnunum, buðu leiðtogarnir þeim að snerta musterið. Börnin neituðu því þau voru hrædd og héldu að þar væri að finna fleiri býflugur. Foreldrar og leiðtogar röðuðu sér því upp og mynduðu rás að musterinu. Það veitti börnunum hugrekki til að takast á við raunina.
Melissa beindi athyglinni að nýju að deildarráðsfundinum og hugsaði með sér: „Bara að allir væru umluktir slíkum kærleiksríkum vinum og leiðtogum er þeir þroskast í átt að musterinu.“
Hún vaknaði upp frá þessum hugrenningum sínum þegar Líknarfélagsforsetinn benti á að ein systirin þyrfti á hjálp að halda: „Hún kom ekki í kirkju síðasta sunnudag. Ég geng úr skugga um að heimsóknarkennarar hennar láti hana vita af fyrirhugaðri musterisferð.“
„Fjölskylda hennar á í erfiðleikum einmitt nú,“ bætti öldungaforsetinn við. „Ég skal ræða við heimiliskennara þeirra og sjá hvað við getum gert.“
„Stúlknafélagið gæti hlaupið undir bagga með barnapössun,“ sagði Stúlknafélagsforsetinn.
Þegar Melissa horfði framan í meðlimi deildarráðsins, lýsti svipur þeirra einlægri umhyggju. Bros færðist yfir andlit hennar. „Drottinn hefur búið börnum sínum leið til að njóta verndar og kærleika,“ hugsaði hún með sér. „Deildarráðið!”
Á sama hátt og í Joplin, Puerto Francisco de Orellana, og í Liverpool, halda kirkjuleiðtogar um heim allan áfram að uppgötva blessanir deildar- og greinarráðs. Þegar þeir gera það, munu þeir virkja hinn einstaka kraft þessara ráða til að hjálpa Drottni að blessa börn sín og framfylgja verki hans.