2012
Blessanir trúarskólans
Apríl 2012


Blessanir trúarskólans

Þið eruð ekki ein um að ákveða að sækja trúarskólann. Um heim allan er trúarskólinn hluti af lífi hundruð þúsunda æskufólks, sem fer þangað í strætisvagni, á barkarbátum, hjólum og nota jafnvel Alnetið til þess. Sumir vakna árla og ferðast langar leiðir, aðrir ferðast á kvöldin og enn aðrir læra heima nokkra daga í viku.

Það krefst fórnar að sækja trúarskólann, en æskufólk víða um heim finnst nám í trúarskólanum erfiðisins virði. Og þau sem taka þátt eiga nokkuð sameiginlegt: Trúarskólinn færir þau nær frelsaranum og himneskum föður.

Hljóta lofaðar blessanir

Hvers vegna er trúarskólinn mikilvægur fyrir þig? Sumar þeirra ástæðna fela í sér þessi loforð spámanna og postula Síðari daga heilagra:

  • Hann „er himnasending til hjálpræðis nútíma Ísrael á afar erfiðum tíma.“1

  • Hann „mun búa ykkur undir að kenna þeim sem á vegi ykkar verða boðskap hins endurreista fagnaðarerindis.“2

  • Hann gerir ykkur kleift að „hljóta yfirgripsmikinn skilning á sannleikanum.“3

  • Trúarskólinn „veitir dásamlegt tækifæri til að læra þær kenningar sem leiða ykkur til hamingju. Hann veitir dásamlegt tækifæri til að eiga samskipti við ykkar líka.“4

  • „Þekking ykkar mun aukast á fagnaðarerindinu. Trú ykkar mun styrkjast. Þið munuð þróa dásamleg samskipti og vináttu.“5

  • „Hann eykur … andríki og siðgæðisstyrk til að standa gegn hinu illa hvarvetna umhverfis ykkur og eykur einnig til muna þekkingu ykkar á fagnaðarerindinu.“6

  • Hann er „einn besti undirbúningurinn að trúboði.“7

Ákveða hvernig sækja skal trúarskólann

Að mæta í trúarskólann þýðir að þið þurfið oft að sleppa einhverju öðru sem þið hafið gaman af. En það er fórn sem er þess virði að færa. Elijah Bugayong frá Filippseyjum ákvað að gera það á lokaári grunnskólans. Í gegnum grunnskólann hafði hún alltaf verið næstefst í bekknum sínum. Hún hafði einsett sér að láta lokaár skólans vera í fyrirrúmi og hafði jafnvel hugleitt að hætta í trúarskólanum, sem hún hafði þó sótt árin á undan, til að ná markmiði sínu.

Dag einn skipti hún um skoðun. „Ég virti fyrir mér stundatöfluna,“ sagði hún. „Ég sá bókastafla við hlið hennar, allar skólabækur mínar og námsbók og glósubók trúarskólans. Innst inni spurði ég sjálfa mig: „Hvort er mikilvægara?“

Elijah fann svarið í Matteus 6:33: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Hún ákvað að sækja trúarskólann samviskusamlega og reyna að skipuleggja tíma sinn til að geta unnið að skólanáminu. Í lok skólaársins var hún með hæstu meðaleinkun skólans og ávann sér meira að segja námsstyrks.

Spencer Douglas frá Alabama, Bandaríkjunum, ákvað að gefa sumt í félagslífinu upp á bátinn svo hann gæti nýtt sér trúarskólann til fulls. Fyrstu tvö árin vaknaði hann klukkan fjögur á morgnana til að sækja trúarskólann og síðustu tvö árin vaknaði hann klukkan fimm á morgnana. Hann sagði: „Ég gat oft ekki verið með vinum mínum í félagslífi síðla kvölds, því ég þurfi að fara snemma í rúmið. Ef ég gerði það ekki, átti ég erfitt með að fylgjast með og læra um morguninn.“ Spencer fannst ekki nóg að mæta aðeins í námsbekkinn, því hann vildi líka einbeita sér að náminu.

Öldungur Dallin H. Oaks í Tólfpostulasveitinni sagði: „Aðeins það að eitthvað sé gott er ekki næg ástæða til þess að gera það. Fjöldi alls þess góða sem við getum gert er mun meiri en tíminn sem gefst til að ljúka því. Stundum er sumt betra en gott, og það er það sem ætti að hafa forgang í lífi okkar.“8 Þessa mikilvægu leiðsögn þarf að hafa í huga þegar við ákveðum forgangsröð trúarskólans í dagskrá okkar.

Búa sig undir trúboð

Trúarskólinn er líka afar gagnlegur við að búa ykkur undir trúboðstarf ykkar—nú sem meðlimatrúboði og síðar sem fastatrúboði. Franco Huamán Curinuqui frá Perú veit að ritningarnám í trúarskólanum hefur hjálpað honum að búa sig undir trúboð.

Hann sagði það þess virði að fara á fætur klukkan fjögur á morgnana fyrir slíkan undirbúning, róa á barkarbát þegar flæddi mánuðum saman og að vaða síðan aur til að komast í námsbekkinn. Hann sagði: „Ég ætla að ljúka yngri deild trúarskólans og fara svo í eldri deild trúarskólans til að búa mig undir trúboð. Ég ætla mér að halda áfram að þroskast í kirkjunni.“ Trúarskólinn er honum mikilvægur, því hann lærir ritningarnar og mikilvæg vers utanbókar, sem hjálpar honum að verða betri trúboði.

Njóta blessunar á öllum sviðum lífsins

Þegar æskufólk víða um heim leggur á sig að fara í trúarskólann, styrkist það á mun fleiri sviðum en í ritningarnámi. Cameron Lisney frá Englandi komst að því að hann var blessaður á öllum lífsins sviðum. „Trúarskólinn er ekki aðeins gagnlegur á andlega sviðinu, heldur líka hvað varðar skóla og menntun,“ sagði Cameron.

Hann sagði það „skýra hugsunina að taka daginn snemma. Sumir vina minna sögðust hafa of mikið að gera til að mæta—en það er ekki eins og við þurfum að vinna í stærðfræði klukkan sex á morgnana, er það?“ Þegar við lærum „mun Drottinn hjálpa okkur í prófunum og ef við stundum trúarskólann vel, mun hann jafnvel hjálpa okkur enn meira,“ sagði Cameron.

Trúarskólinn hjálpaði Cameron auðvitað líka að efla vitnisburð sinn. Hann sagði: „Vitnisburður minn tók að myndast vegna trúarskólanámsins. Þegar ég var 14 ára ærslafullur unglingur átti ég erfitt með fagnaðarerindið. Ég naut þess ekki að fara í kirkju og tók að gera ýmislegt sem ég hefði betur látið ógert. Ég hefði gefist algjörlega upp að nokkrum mánuðum liðnum.“ En þegar vinkona ein bauð Cameron að sækja trúarskólann ákvað hann að slá til Eftir það tóku blessanirnar í raun að koma.

„Ég tók að skynja andann að nýju,“ sagði Cameron. „Ég tók að sinna kirkjunni betur og sækja sunnudagaskóla og prestdæmiskennslu. Lífið varð auðveldara og ég varð hamingjusamari. Loks hlaut ég sjálfur vitnisburð um fagnaðarerindið.“ Að loknum tveimur mánuðum í trúarskólanum, átti Cameron viðtal við biskup sinn og var vígður sem kennari í Aronsprestdæminu.

Cameron veit að trúarskólinn hjálpar honum að standa staðfastur gegn freistingum heimsins. Hann sagði: „Þegar á trúarskólanámið leið fannst mér auðveldara að takast á við erfiðleikana sem heiminum fylgja. Það er nokkuð erfitt að vera unglingur í heimi nútímans—syndin umlykur okkur hvarvetna. Ég ber ykkur vitni um að ef þið ástundið trúarskólann, munuð þið hljóta styrk til að standa gegn henni. Trúarskólinn verður andlegur skjöldur okkur til varnar. Ég hef upplifað ýmsa erfiðleika og freistingar og trúarskólinn hefur reynst mér afar gagnlegur við að halda mér á hinum krappa og þrönga vegi.“ 

Styrkja hver annan

Trúarskólinn gerir ykkur líka kleift að hitta aðra unglinga sömu trúar. Vika Chelyshkova frá Rússlandi sagði: „Ég nýt samveru við fólk með líkan hugsunarhátt og siðgæðisvitund og sem trúir á Guð, líkt og ég geri.“ Hún bætti við: „Ef ég hef einhverjar spurningar, get ég rætt þær við trúarskólakennarann minn og samnemendur mína. Ég get miðlað öðrum hugsunum mínum og vitnisburði, til að efla eigin trú og annarra. Með því að lesa saman ritningarnar og ígrunda andlegt efni, komumst við nær Guði og verðum samrýndari.“

Ksenia Goncharova frá Úkraínu hefur séð álíka árangur. Hún sagði: „Þegar við miðlum öðrum reynslu okkar styrkjumst við og skiljum betur ritningarnar. Þegar við ræðum um dæmi úr lífi okkar í kennslunni, sé ég hvernig fagnaðarerindið hefur áhrif á líf mitt og annarra.“

Komast til þekkingar á himneskum föður og Jesú Kristi

Hópur ungs fólks var nýverið spurður að því hvernig trúarskólinn hefði blessað líf þess. Svör þess endurspeglaði það meginþema—að trúarskólinn hafi hjálpað þeim að komast nær himneskum föður og frelsaranum. Öldungur David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni sagði: „Allt efnið sem þið lærið í trúarskólanum er mikilvægt. Á hverju ári, er þið helgið ykkur einu af helgiritunum, er Drottinn Jesú Kristur hafður að þungamiðju.“9

Hér eru nokkur svör unglinganna við því hvernig trúarskólinn hefði fært þau nær Jesú Kristi.

  • „Mér hefur lærst hvað frelsarinn gerir fyrir mig, er ég hef lesið ótal frásagnir hinna ýmsu spámanna, og orðið ljóst hve ég er honum mikils virði. Mér er ljóst að hann elskar mig nægilega mikið til að þjást og deyja svo ég þurfi ekki að þjást.“

  • „Það er yndislegt að hefja daginn með því að fara í trúarskólann. Hversu þreyttur sem ég er, þá skynja ég andann og styrkist, og þegar erfiðleikar steðja að veit ég fyrir víst að frelsarinn elskar mig og ég verð öruggari við að taka stöðu með hinu rétta.“

  • „Ég snerist til trúar á kirkjuna. Ég byrjaði í trúarskólanum áður en ég skírðist. Ég er ekki viss um hvort ég hefði meðtekið skírn ef ekki væri fyrir trúarskólann. Án trúarskólans hefði ég ekki haft frelsarann í lífi mínu núna eða vitað að ég gæti hlotið fyrirgefningu synda minna. Ég hafði í raun aldrei áður upplifað himneskan föður eða Jesú Krist í lífi mínu. Trúarskólinn hjálpaði mér að finna þá og hafa þá með í lífi mínu og í lífi þeirra barna sem ég eignast í framtíðinni.“

  • „Það hjálpaði mér að komast nær Drottni mínum og frelsara, Jesú Kristi, að fara í trúarskólann og læra um kenningar hans, undursamlegu elsku til mín og hvernig ég get dvalið hjá honum að nýju.“

  • „Þegar ég er í trúarskólanum hlýt ég dýpri skilning á ritningunum. Hann hjálpar mér dag hvern að breyta líkt og Kristur í daglegu lífi.“

  • „Trúarskólinn kenndi mér hvernig lesa á ritningarnar og ekki aðeins að njóta þeirra, heldur einnig að hagnýta mér efni þeirra. Ég lærði kenningar og reglur sem hafa styrkt vitnisburð minn um kærleiksríkan himneskan föður og Jesú Krist, sem verða hluti af mér það sem eftir er ævinnar.“

Þar sem svo margar blessanir hljótast af trúarskólanámi, er auðvelt að sjá hvers vegna svo margt ungt fólk í heiminum hefur það í fyrirrúmi í dagskrá sinni.

Heimildir

  1. Boyd K. Packer, Teach the Scriptures (ræða fyrir kennara Fræðsludeildar kirkjunnar, 14. okt. 1977), 3.

  2. L. Tom Perry, „Setja markið hærra,“ Aðalráðstefna, okt. 2007.

  3. Richard G. Scott, „Realize Your Full Potential,“ Líahóna, nóv. 2003, 42.

  4. Gordon B. Hinckley, „Stand True and Faithful,“ Ensign, maí 1996, 93.

  5. Gordon B. Hinckley, „The Miracle Made Possible by Faith,“ Ensign, maí 1984, 47.

  6. Gordon B. Hinckley, „The State of the Church,“ Ensign, maí 1991, 52.

  7. Ezra Taft Benson, „Our Responsibility to Share the Gospel,“ Ensign, maí 1985, 7.

  8. Dallin H. Oaks, „Gott, betra, best,“ Aðalráðstefna, okt. 2007.

  9. David A. Bednar, „Conclusion and Testimony,“ Welcome to Seminary 2010–2011, seminary.lds.org/welcome.

Teikningar eftir Scott Greer

Teikning eftir Christina Smith

Til hægri: Ljósmynd af Provo, Utah, trúarskólaútskrift, birt með leyfi Skjalasafns SDH