Allir þekkja Bleck
Hjá Honoura „Bleck“ Bonnet snerist allt um körfubolta. Við 15 ára aldur var Bleck rísandi stjarna frönsku Pólynesíu—einn besti leikmaðurinn sem lék fyrir eitt besta liðið í efstu deildinni í landinu. Þótt gælunafn hans sé enska orðið black ranglega stafsett, leikur enginn vafi á hæfileikum hans.
En hann stefndi hærra. Hann vildi leika sem atvinnumaður í Evrópu. Og sterkasta þrá hans var að vinna gullpening á Suður-Kyrrahafsleikunum.
Eina hindrunin sem virtist á vegi hans var kirkjan.
Hver ungur maður í trúboð
Þótt liðið sem Bleck lék með að þessu sinni hafi notið stuðnings kirkjunnar, hafði hann lítinn áhuga á kirkjunni eða boði spámannsins til allra ungra manna um að þeir færu í trúboð.
Hann hafði þegar sagt biskupi sínum frá því að hann hygðist ekki fara í trúboð. Hann sá ekki hvernig hann gæti leikið sem atvinnumaður, ef hann hætti að leika í tvö ár.
Og það sem meira var, þá áttu Suður-Kyrrahafsleikarnir—sem voru fjórða hvert ár—að vera meðan á trúboði hans stæði og Körfuboltasamband Tahiti hafði sýnt áhuga á að fá hann til að leika með landsliðinu. Honum gæfist loks tækifæri til að þagga niður í föður sínum sem alltaf hafði sagt þegar Bleck fór að setja sig á of háan hest: „Allir þekkja Bleck, en hann hefur ekki unnið gull.“
Faðir Bleck, Jean-Baptiste, sagði þetta í góðri meiningu. En þessi umsögn gerði Bleck óðan. Þau minntu hann á að jafnvel þótt körfuboltaaðdáendur í Tahiti þekktu hann, hafði hann ekki unnið verðlaunapening á leikunum. Faðir hans hafði unnið gullpening með liði sínu á fyrstu Suður-Kyrrahafsleikunum.
Bleck ætlaði sér að gera út um þá umsögn. Hann hafði ekki tíma fyrir neitt annað ætlunarverk.
Breyting hugans, breyting hjartans
Þrátt fyrir viðhorf Blecks til trúboðsins, tók hann samt þátt í félagsstarfi kirkjunnar. Þegar Bleck var 16 ára á dansleik kirkjunnar, taldi hann í sig kjark til að bjóða Myranda Mariteragi upp í dans. Myranda var góður körfuboltaleikari—sem einnig dreymdi um að vinna gullpening. Faðir hennar hafði líka verið í hinu upphaflega liði sem vann gullið.
Nokkrum andartökum eftir að hann hafði boðið henni lauk tónlistinni. Þau dönsuðu því við næsta lag, sem reyndist vera lokalag kvöldsins. Þegar hér var komið óskaði Bleck þess að lagið tæki ekki enda.
Bleck hafði ekki gert ráð fyrir að gifta sig í musterinu og jafnvel ekki meðlimi kirkjunnar. En það tók að breytast þegar hann kynntist Myranda betur á næstu tveimur árum. Þegar hann var á heimili hennar dag einn vakti athygli hans nokkuð sem hún hafði gert í Stúlknafélaginu. Á það var ritað: „Ég ætla að gifta mig í musterinu.“
Áhugi Blecks á Myranda og staðfastri skuldbindingu hennar um að gifta sig í musterinu var nægur til að hann einsetti sér að endurskoða hugmyndir sínar. Hann tók að ræða um kirkjuna af alvöru. Ákvörðun hans leiddi til aðgerða sem gerðu heilögum anda kleift að hafa áhrif á hann.
Ákvörðunin
Ein þeirra ákvarðana var að búa sig undir að fá patríarkablessun sína 18 ára. Þegar patríarkinn sagði í blessuninni að Bleck mundi þjóna í trúboði og gifta sig í musterinu, skynjaði hann andann. „Ég vissi hvað Guð vildi að ég gerði.“ sagði hann.
Þótt landsliðið væri líklegt til að hljóta verðlaunapening, ákvað Bleck með stuðningi fjölskyldu sinnar að hann mundi hafa það í fyrirrúmi sem Guð vildi að hann gerði. Ákvörðunin reyndist ekki auðveld. Mikið var lagt að honum að leika. Og honum lærðist fljótt að hann yrði reyndur oftar en einu sinni í þeim ásetningi sínum að lúta vilja Guðs.
Eftir að hann hafði þjónaði í trúboði á Thaiti í ár, spurði landsliðsþjálfarinn hann að því hvort hann gæti komið heim til að leika aðeins einn mánuð með liðinu.
Trúboðsforseti Bleck hafði áhyggjur af þeim áhrifum sem sú reynsla kynni að hafa á getu Blecks til koma aftur og þjóna og fann sig knúinn til að segja: „Þú getur farið ef þú vilt, en þú getur ekki komið aftur.“
Bleck vildi verðlaunapeninginn, en hann var ekki það sem hann þráði framar öllu. Trúboð hans hafði verið dásamlegt. Hann var ekki fús til að fórna síðara árinu, jafnvel ekki fyrir körfuboltann.
Bleck varð kyrr.
Liðið vann gullið.
Aðrar aðstæður, sama ákvörðun
Eftir að Bleck hafði lokið trúboði sínu af sóma, giftist hann Myranda í Papeete-musterinu á Tahítí og þau eignuðust barn. Hann hélt áfram að leika fyrir landsliðið.
Myranda lék stöðu varnarmanns í kvennalandsliðinu og bjó sig undir Suður-Kyrrahafsleikana.
En þegar leikarnir nálguðust tóku hjónin að finna sterklega að þau ættu að eignast annað barn.
Leikarnir áttu að vera innan árs og því hefði þeim reynst auðvelt að fresta barneignum fram yfir leikana svo Myranda gæti verið með. Kvennaliðið átti góða möguleika á verðlaunum.
En hjónin höfðu lært af reynslunni að það færði þeim meiri blessanir að lúta vilja Guðs, en nokkuð annað sem þau gerðu til að framfylgja eigin þrá. Eftir vandlega ígrundun og bænir, ákváðu þau að hafa fjölskyldu sína í fyrirrúmi.
Árið 1999, þegar Myranda var komin átta mánuði á leið, vann kvennaliðið gullið.
Allir þekkja Bleck
Bleck og Myranda hafa leikið körfubolta í efstu deild frönsku Pólynesíu á umliðnum áratug—unnið landskeppnir og deildarkeppnir og leikið fyrir landsliðið í keppnum á árunum 2003 og 2007.
Á leikunum 2011 tóku bæði þátt í körfuboltanum, en Bleck var þá þjálfari karlaliðsins. Myranda og kvennaliðið unnu gullið, en karlaliðið vann bronsið og enn á ný rættist draumur Blecks ekki um að vinna gullið.
Bleck veltir stundum fyrir sér hvernig líf hans hefði getað orðið, ef hann hefði gert það sem hann sjálfur vildi í stað þess sem Guð vildi.
„Ég ætti sennilega gullpening,“ sagði hann. „Kannski hefði ég leikið sem atvinnumaður og kannski ekki.“
En hjónin sjá ekki eftir ákvörðunum sínum. Þau sjá ekki hvernig þau gætu verið hamingjusamari.
„Ég gifti mig í musterinu,“ sagði Bleck. „Ég á dásamlega eiginkonu og fjögur falleg börn og er enn í kirkjunni. Körfuboltinn einn og sér hefði ekki getað gefið mér neitt af þessu. Þessar blessanir hafa hlotnast af því að hafa Drottin í fyrirrúmi.“
Þótt hann hafi haft Drottin í fyrirrúmi, þaggar það ekki niður í stríðni föður hans, en orð hans hafa fengið aðra meiningu. Fyrir nokkrum árum, þegar körfuboltasambandið íhugaði að færa leikana yfir á sunnudaga, komu liðsforsetarnir á fundinn til að ræða það. Einhver spurði: „Hefurðu fengið álit Blecks?“
Tillagan var felld.
Bleck er ekki aðeins þekktur fyrir að hafa Drottin í fyrirrúmi—hann er þekktur fyrir það sem hann trúir.