2021
Leið fram Síon
September/Október 2021


Leið fram Síon

Sem Síðari daga heilagir, sem blessuð erum með hinu endurreista fagnaðarerindi, erum við kölluð til að styrkja kirkjuna og efla Síon.

Ljósmynd
map of the world

Kortamynd frá Getty Images

Í gegnum tíðina hefur þjóð Drottins reynt að koma á fót samfélagi byggðu á fagnaðarerindinu og þar sem hann getur dvalið. Til að verða að slíku samfélagi heilagra, verðum við að læra að helgast og sameinast í hjarta og huga, vera sanngjörn í samskiptum án ágreinings og deilna og lifa í réttlæti án fátæktar okkar á meðal (sjá HDP Móse 7:18).

Dæmi: Eftir að John og Maria Linford gengu í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í Gravely á Englandi árið 1842, varð John forseti greinarinnar. Skyldmenni og vinir deildu ekki gleði Linford hjónanna í endurreisninni. Ef þau gætu ekki sannfært John um að gefa hina nýju trú upp á bátinn, þá myndu þau „svelta hann til þess“ með því að sniðganga skósmíðafyrirtæki hans.

Árið 1856 gaf sérstakur útflytjendasjóður kirkjunnar John og Mariu tækifæri til að flytja í Saltvatnsdalinn. Þau sigldu til New York ásamt þremur sonum sínum. Þaðan ferðuðust þau til Iowa City, Iowa, en héldu þaðan í júlí 1856, í hina örlagaríku ferð handvagnahóps James G. Willie.

Snemma dags 21. október, nærri bökkum Sweetwater-árinnar í Wyoming, mælti John sín síðustu orð.

„Ég er feginn að við komum,“ sagði hann við Mariu, þegar hún spurði hvort hann sæi eftir að hafa yfirgefið England. „Ég mun ekki lifa það að sjá Saltvatnsdalinn, en þú og drengirnir munuð gera það, og ég hef enga eftirsjá yfir því sem við höfum upplifað, ef drengirnir okkar fá vaxið úr grasi og alið börn sín upp í Síon.“1

Hvað er Síon?

Ljósmynd
group of pioneers

Að frátaldri fæðingu Drottins, Jesú Krists, hafa fá viðfangsefni veitt spámönnum og heilögum fyrr og síðar meiri innblástur en samansöfnun Ísraelsættar á síðari dögum og efling Síonar til undirbúnings síðari komu frelsarans.2

Hvers vegna er Síon svo mikilvæg Síðari daga heilögum – þá og nú, hvar sem lýður Drottins fyrirfinnst?

Öldungur Bruce R. McConkie (1915–85), í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Alltaf, frá dögum Adams til okkar dags – þegar Drottinn hefur eignað sér lýð; þegar fólk hefur hlýtt á rödd hans og haldið boðorð hans; þegar hinir heilögu hafa þjónað honum af hjartans einlægni – hefur Síon verið til staðar.“3

Ritingarnar lýsa samfélagi Síonar. Enok, trúfastur spámaður á dögum Nóa, „byggði … borg, sem nefnd var borgin helga, já, Síon“ (HDP Móse 7:19). Þar dvaldi Drottinn með fólki sínu, blessaði það og land þess (sjá HDP Móse 7:16–18). Drottinn sagði við Enok: „Sjá, ég er Guð. Maður heilagleika er nafn mitt“ (HDP Móse 7:35).

Hinn háleiti málstaður Síonar er að stofna sameiginlegan trúarstað, sem byggist á himneskum reglum, þar sem Guð sjálfur getur dvalið og fólk hans gengið með honum.

Mormónsbók vitnar að eftir að hinn upprisni hafði vitjað hins nýja heims, „höfðu allir snúið til Drottins um gjörvallt landið. …

Og allt var sameign þeirra, og því var enginn ríkur eða fátækur, ánauðugur eða frjáls, heldur var fólkið allt frjálst og hluttakendur hinnar himnesku gjafar. …

Og svo bar við, að engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins“ (4. Nefí 1:2, 3, 15).

Vopnaðir réttlæti og krafti

Á tímum Enoks ríktu styrjaldir, blóðsúthellingar, ótti, myrkur og óvild – þegar „kraftur Satans var yfir öllu yfirborði jarðar“ (HDP Móse 7:24; sjá einnig vers 16, 17, 33). Enok var trúr og Drottinn kallaði hann til að boða iðrun.

Drottinn sagði við Enok að álíka „miklar þrengingar“ (HDP Móse 7:61) yrðu fyrir síðari komu hans. „Sem ég lifi, já, svo mun ég koma á síðustu dögum, á dögum ranglætis og refsingar, til að uppfylla eiðinn, sem ég hef unnið þér, varðandi börn Nóa“ (HDP Móse 7:60).

Russell M. Nelson forseti hafði nýlega þetta að segja um okkar tíma: „[Ég lít á núverandi] faraldur [Kóvid-19] sem aðeins eitt margra meina okkar, sem m.a. eru hatur, borgaraólga, fordómar, ofbeldi, óheiðarleiki og skortur á háttprýði.“4 Við höfum þó spámannlega fullvissu. Nelson forseti hefur líka sagt:

„Við lifum á þeim tíma ‚sem forfeður okkar hafa með mikilli eftirvæntingu beðið eftir.‘ [Kenning og sáttmálar 121:27.] Við sitjum á fremsta bekk og erum sjónarvottar að því sem spámaðurinn Nefí sá, en þó einungis í sýn, að máttur Guðslambsins myndi falla yfir ‚sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.‘ [1. Nefí 14:14.]

Þið, kæru bræður og systur, eruð meðal þeirra karla, kvenna og barna sem Nefí sá.“5

Boðið um að safna saman og blessa þá sem eru beggja vegna hulunnar, efla Síon og búa heiminn undir síðari komu frelsarans á við um okkur öll. „Af öllum þeim sem einhvern tíma hafa búið á jörðinni,“ sagði Nelson forseti, „erum við þau sem fáum að taka þátt í þessum atburði samansöfnunar.“6

Hvernig komumst við þangað?

Sem Síðari daga heilagir, blessuð með hinu endurreista fagnaðarerindi, erum við „[kölluð] til að vinna í víngarði [Drottins] og byggja upp kirkju [hans] og leiða fram Síon“ (Kenning og sáttmálar 39:13). Sú vinna krefst elsku, trúar, þjónustu, fórnar og hlýðni.

Ljósmynd
group of women outside a church

„Þegar fólk elskar Guð af öllu hjarta sínu og gerir allt sem það getur á réttlátan hátt til að verða eins og hann, þá er minna um erjur og deilur í samfélaginu. Þá er meiri eining,“ sagði öldungur Quentin L. Cook, í Tólfpostulasveitinni. Hann bætti við: „Eining er … yfirgripsmikið hugtak, en í því felst vissulega æðsta og næstæðsta boðorðið, að elska Guð og samferðarfólk okkar. Hún gefur til kynna að hjarta og hugur fólks Síonar hafi tengst böndum einingar [Mósía 18:21].“7

Með þessari elsku og einingu iðkum við trú og nærumst á friðþægingu frelsara okkar, en hún getur umbreytt okkur þegar við hreinsum hjarta okkar og líf (sjá Mósía 3:19; Kenning og sáttmálar 97:21). Við söfnum þeim saman, sem viljugir eru að koma í réttlæti til Drottins. Með helgiathöfnum og himneskum reglum, bjóðum við krafti guðleikans í líf okkar (sjá Kenning og sáttmálar 105:5). Við eflum Síon helguð af sáttmálum okkar við Guð og hvert annað og búum okkur undir síðari komuna.

„Kærleikurinn er hin hreina ást Krists,“ sagði Henry B. Eyring forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. „Það er trúin á hann og full áhrif hinnar altæku friðþægingar hans sem gera ykkur [hæf], og þá sem þið elskið og þjónið, fyrir hina guðlegu gjöf að lifa í samfélagi hinnar langþráðu og fyrirheitnu Síonar.“8

Búið ykkur undir komandi daga

Ljósmynd
group of young men sitting in a Church class

Nútíma spámenn kenna að það snúist frekar um persónulega hollustu en líkamlega staðsetningu að koma til frelsarans.

„Á fyrstu tíð kirkjunnar, þýddu trúskipti oft brotthvarf úr landi samhliða,“ útskýrði Nelson forseti. Nú á samansöfnunin sér þó stað í hverju landi. Drottinn hefur lýst yfir stofnun Síonar á hverju því svæði sem hann hefur gefið hinum heilögu sem fæðingar- og þjóðernisaðsetur.“9

Þegar við tökumst á við þá áskorun og blessun að efla Síon í fjölskyldum okkar, greinum, deildum, stikum og samfélagi, þá lítum við með John og Mariu Linford til þess dags þegar börn okkar og barnabörn „fá vaxið úr grasi og [alist] upp í Síon“ meðal allra þjóða, ættkvísla og tungna.

Þegar við leitum fyrst Drottins og réttlætis hans, biðjum við að „ríki hans breiðist út á jörðunni og íbúar hennar megi veita því viðtöku og vera viðbúnir komandi dögum, þegar mannssonurinn kemur í himni niður, klæddur ljóma dýrðar sinnar, til að mæta því Guðs ríki, sem reist er á jörðu“ (Kenning og sáttmálar 65:5).

Heimildir

  1. Sjá Andrew D. Olsen, The Price We Paid: The Extraordinary Story of the Willie and Martin Handcart Pioneers (2006), 45–46, 136–37.

  2. Sjá Russell M. Nelson og Wendy W. Nelson, „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  3. Bruce R. McConkie, „Come: Let Israel Build Zion,“ Ensign, maí 1977, 116–17.

  4. Russell M. Nelson, í Sarah Jane Weaver, „Spámaðurinn gefur út boðskap um lækningarmátt þakklætis,“ 20. nóv. 2020, https://www.kirkjajesukrists.org/spamadurinn-gefur-ut-bodskap-um-laekningarmatt-thakklaetis?lang=isl-is.

  5. Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

  6. Russell M. Nelson og Wendy W. Nelson, „Hope of Israel.“

  7. Quentin L. Cook, „Hjörtu tengd böndum réttlætis og einingar,“ aðalráðstefna, október 2020.

  8. Henry B. Eyring, „Systur í Síon,“ aðalráðstefna, október 2020.

  9. Russell M. Nelson, „Samansöfnun tvístraðs Ísraels,“ aðalráðstefna, október 2006.

Prenta