2021
Skjólstæðingur minn eða köllun?
September/Október 2021


Frá Síðari daga heilögum

Skjólstæðingur minn eða köllun?

Þegar ég reyndi að uppfylla prestdæmisskyldur mínar, sýndi Drottinn mér að honum var kunnugt um fjárhagsstöðu mína.

Ljósmynd
briefcase

Ljósmynd frá Getty Images

Þegar ég var kallaður sem öldungasveitarforseti árið 2000, sóttu að staðaldri aðeins sjö öldungar prestdæmisfundi. Við stóðum okkur heldur ekki vel í að sinna heimiliskennslunni – nú hirðisþjónustu.

Ég vissi að við stæðum andspænis mikilli áskorun, að hvetja öldungana til að gera betur. Til að byrja með, ákváðum við að endurskipuleggja úthlutun verkefna og auka aðhald.

Þar sem ég er sjálfstætt starfandi lögfræðingur, ferðast ég mikið. Ég er afar upptekinn, en vildi uppfylla prestdæmisskyldur mínar.

Dag nokkurn þurfti ég að ferðast til annarar borgar með rútu, til að fylgja eftir skjólstæðingi. Vegna krapprar fjárhagsstöðu minnar, vonaði ég að skjólstæðingurinn samþykkti að greiða mér fyrirfram.

Á leiðinni að rútunni ákvað ég að hitta nokkra meðlimi sveitarinnar og hvetja þá til að heimsækja sínar úthlutuðu fjölskyldur. Nokkrir höfðu gleymt sér, en einsettu sér að gera það. Aðrir sögðust ætla að ljúka af heimsóknunum þessa sömu viku.

Ég var svo spenntur að sjá staðfestu þeirra að ég ákvað að heimsækja og hvetja fleiri meðlimi sveitarinnar. Áður en ég vissi af, var komið fram yfir hádegi. Í stað þess að fara úr bænum, ákvað ég því að fara á skrifstofuna til að líta á mál skjólstæðingsins.

Mér til undrunar stóð skjólstæðingurinn fyrir utan, ásamt öðrum einstaklingi, þegar ég kom á skrifstofuna. Ég sagði skjólstæðingnum að ég væri í þann mund að líta á hans mál og hefði greinargerð fyrir hann næsta dag. Hann sagði að hann hefði komið til að kynna mig fyrir nýjum skjólstæðingi. Eftir að ég og vinur hans höfðum ræðst við, komum við okkur saman um þóknun fyrir þá hjálp mína að leysa úr máli hans. Skjólstæðingur minn bauð mér síðan óvænt fyrirframgreiðslu.

Þetta fannst mér kraftaverk. Himneskur faðir vissi að ég væri að reyna að vera honum trúfastur. Hann þekkti líka þarfir mínar. Hann hefur blessað mig á marga vegu í áranna rás, en í þetta skiptið voru blessanirnar fjárhagslegs eðlis. Hann stóð við orð sín í ritningunum til þeirra sem þjóna honum: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matteus 6:33).

Hvað með öldungasveitina? Drottinn blessaði okkur er við sóttum fram í anda einingar. Heimiliskennslan var brátt komin upp í 100 prósent og mætingin í prestdæminu jókst upp í 35 trúfasta öldunga.

Ég ber vitni um að við getum öll verið verkfæri í verki Drottins og fundið gleði og blessanir í þjónustu við hann með þjónustu við aðra.

Prenta