„Svo mun kirkja mín nefnd“
Þegar við notum fullt nafn kirkjunnar, erum við blessuð og við blessum aðra.
Einstaklingar í Afríku, sem leita að kirkju til að ganga í, hafa sagt frá draumförum. Í draumunum var þeim leiðbeint að leita að kirkju sem nefnd var nafni Jesú Krists. Þegar þeir leituðu, fundu þeir aðeins eina kirkju sem hafði nafn frelsarans að þungamiðju – Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Í Rómönsku Ameríku skýrðu nokkrir Síðari daga heilagir frá því að boði þeirra til vina sinna um að mæta í „mormónakirkjuna“ hefði verið mætt með gremju. Það breyttist þegar þeir buðu þeim í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. „Ef kirkjan þín er kölluð kirkja Jesú Krists,“ svöruðu vinir þeirra, „viljum við koma og sjá hana.“
Í Bandaríkjunum bauð Barnafélagsdrengur nágrönnum í skírnina sína. Prestur sem var annarar trúar, sagði að hann myndi aldrei fara í skírn í „mormónakirkjunni.“ Þar sem presturinn fann að kirkja drengsins einblíndi á Jesú Krist, mætti hann þangað með eiginkonu sinni.
Þegar bókunarfulltrúi flugfélags bað meðlim kirkjunnar um netfang, svaraði meðlimurinn: „ldschurch.org.“
„Hvaða kirkja er það?“ spurði fulltrúinn.
„Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu,“ svaraði meðlimurinn.
„Ég vinn of í marga daga án þess að geta talað um Drottin,“ sagði fulltrúinn. „Að vita að ég talaði við annan kristinn einstakling gerir daginn ánægulegri.“
Meðlimur kirkjunnar uppfærði snöggvast netfangið sitt í sniðmáti sínu hjá flugfélaginu: ChurchofJesusChrist.org.1
Uppfyllt loforð
Þessar dásamlegu frásagnir sýna uppfyllingu loforðs sem Russell M. Nelson forseti gaf Síðari daga heilögum í október 2018 og aftur í apríl 2020.
„Ég lofa ykkur, að ef þið gerið ykkar besta til að endurheimta hið rétta nafn kirkju Drottins, mun sá er kirkjan tilheyrir úthella yfir höfuð hinna Síðari daga heilögu krafti sínum og blessunum, aldrei sem áður,“ sagði Nelson forseti. „Við munum hafa þekkingu og kraft Guðs okkur til hjálpar við að færa öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og búa heiminn undir síðari komu Drottins.“2
Á samfélagsmiðlum bauð ég nýlega meðlimum kirkjunnar að segja mér frá þeim blessunum sem þeir hafa hlotið við að nota hið rétta nafn kirkjunnar. Það snerti mig að fá rúmlega 2600 svör.
Ég ætla að miðla ykkur nokkrum þeirra. Þau munu hljóma kunnulega, enda hafið þið hlotið svipaðar blessanir, þar sem þið hafið fylgt leiðsögn Nelsons forseta.
Komast nær Jesú Kristi
Vitnisburður Jacobs, um hvernig fullt nafn kirkjunnar hefur hjálpað honum að einblína á frelsarann, snerti mig: „Ég hef tekið eftir að áhersla mín á Jesú Krist hefur haft áhrif á allar hliðar lífs míns,“ sagði hann mér. „Þegar ég meðtek sakramentið, hugsa ég um hann og friðþægingarfórn hans. Þegar ég les í ritningunum, veiti ég orðum hans meiri athygli, sem og öðrum skírskotunum í hann. Það hefur fært mig nær honum og hjálpað mér að skilja betur hlutverk hans sem frelsara míns og lausnara.“
Mér fannst ég blessaður að læra um hvaða þýðingu nafn frelsarans hefur fyrir Beth og Bryce: „Ég hef fundið sterkari tengingu við frelsara minn,“ sagði Beth. „Ég finn sannlega að ég tilheyri þegar ég er spurð hvaða kirkju ég sæki og svara því að ég tilheyri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég tilheyri fólki hans. Ég tilheyri fjölskyldu hans. Ég tilheyri honum.“
Bryce sagði mér að hið rétta nafn kirkjunnar hjálpaði sér að „hafa hugfast hverjum ég þjóna og hverjum ég sækist eftir að líkjast meira. Það minnir mig á að það er frelsarinn sem færir okkur þessar kenningar og að þær eru ekki frá mönnum komnar.“
„Nafn frelsarans hefur kraft“
Haley, sem er fastatrúboði, sagði: „Notkun rétts nafns kirkju Drottins hefur meiri kraft og vald þegar við kennum um hans endurreista fagnaðarerindi. Þegar ég segi ‚Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu,‘ staðfestir og vitnar andi Drottins að þetta er kirkja Drottins, endurreist á jörðinni á okkar tíma. Að nota hið rétta nafn, er mér afar kært, því þá bæti ég líka mínum lifandi vitnisburði við þann sannleika!“
Nicola sagði mér þetta: „Áður fyrr var oft augnabliks óvissa ef ég sagði ‚mormóni‘ við þá sem voru annarar trúar. Það var næstum hægt að heyra hugsanirnar spretta upp, sem tengdust því sem þeir höfðu heyrt um ‚mormóna.‘ Nú er friður, oftast samþykki. Nafn frelsarans hefur kraft. Hann færir frið. Vitnisburður minn um sannleika fagnaðarerindisins hefur vaxið eingöngu af því að segja hið rétta nafn kirkjunnar. Ég finn fyrir andanum í hvert skipti sem ég segi það. Stundum fæ ég ekki að segja neitt annað um trú okkar, en það er nóg.“
Leiðrétta misskilning
Harold, prófessor í háskóla í Bandaríkjunum, sagði að notkun fulls nafns kirkjunnar hafi hjálpað sér að leiðrétta misskilning. Hann sagði mér að eitt sinn hafi nemandi reynt að draga saman umræður um trúmál með því að segja: „Ætli öll trúarbrögð séu ekki kristin, nema mormónarnir.“
Harold sá gott tækifæri til að leiðrétta þennan misskilning og sagði: „Ég sagði nemendunum að ‚mormóni‘ væri viðurnefni gefið meðlimum kirkjunnar, vegna trúar á að Biblían og Mormónsbók séu tvö forn ritningarleg vitni um Jesú Krist.“
Mary opnaði sig og miðlaði því hvernig fullt nafn kirkjunnar hafi blessað hana í kennslu barna hennar: „Börnin mín eru minna ringluð nú, þegar ég kenni þeim að við séum hinir heilögu í kirkju Jesú Krists á þessum síðari dögum, andstætt því að kalla okkur ‚mormóna.‘ Þau höfðu ruglast og spurt: ‚Af hverju mormónar? Þýðir það að við séum ekki kristin?‘ Mér finnst þessi breyting hafa hjálpað þeim þegar þau ræða við önnur börn í skólanum sem ekki trúa.“
„Ég er trúboði fyrir Jesú Krist“
Nelson forseti lofaði að þegar við notum rétt nafn kirkjunnar munum við „hafa þekkingu og kraft Guðs“ til að breiða út fagnaðarerindið. Teresa veitti mér innblástur með frásögn sinni um það sem gerðist þegar vinur hennar í vinnunni spurði hana um kirkjuna. Eins og Nelson forseti hafði leiðbeint, byrjaði Teresa á að segja frá fullu nafni kirkjunnar.
„Hann hafði áhuga á kirkjunni,“ sagði hún mér. „Hann kynnti sér hana í nokkra mánuði og á undraverðan hátt var hann svo skírður af syni mínum, biskupnum. Ég og fjölskylda mín vorum mjög glöð þennan dag. Loforðin eru sönn.“
Jordan sagði að enn séu ekki margir kunnugir nafni kirkjunnar. „Að nota fullt nafn kirkjunnar,“ sagði hann, „veitir mér tækifæri að útskýra hvernig Jesús Kristur er miðpunktur hennar og hvers vegna við vísum til sjálfra okkar sem Síðari daga heilagra.“
Þegar maður nokkur spurði Chloe hvort hún væri „trúboði mormóna,“ gaf hún kröftugt vitni: „Nei, ég er trúboði fyrir Jesú Krist.“ Chloe sagði mér að maðurinn hafi lýst áhuga á að fylgja frelsaranum, því hafi hún kennt honum að frelsarinn leiði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún gaf honum því næst upplýsingar um kirkju hans.
„[Nefnið] kirkjuna mínu nafni“
Þegar frelsarinn opinberaði spámanninum Joseph Smith nafn kirkju sinnar, sagði hann: „Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum, já, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu“ (Kenning og sáttmálar 115:4). Við Nefítana sagði hann: „[Þér skuluð þess vegna] nefna kirkjuna mínu nafni,“ því „hvernig getur það verið mín kirkja, sé hún ekki nefnd mínu nafni?“ (3. Nefí 27:7, 8).
Ég ber vitni, ásamt Síðari daga heilögum að nafni Tommie, að þegar við notum fullt nafn kirkjunnar erum við blessuð og við blessum aðra. Tommie sagði mér þetta: „Þegar ég segi öðrum frá blessunum þess að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á tímum þegar átök og ótti ráða ríkjum, þá átta ég mig á því að ég er að hjálpa öðrum að vita að til er skjól frá storminum með lærisveinum Jesú Krists, sem lætur sér annt um þá og þeir fylgja honum.“