2021
Liðsinni að handan hulunnar
September/Október 2021


Liðsinni að handan hulunnar

Þar sem ég lá sárkvalin á sjúkrahúsinu, var ég einmana þar til ég minntist ástkærra áa minna.

Ljósmynd
translucent fabric

Ljósmynd frá Getty Images

Árið 2017 varð ég þunguð af okkar fyrsta barni. Ég og eiginmaður minn, Lucas, vorum spennt, en smeyk, fyrir komu Juans Lionels litla.

Síðla kvölds, í upphafi febrúar 2018, hófust hríðirnar. Ég var aðeins komin átta mánuði á leið, en það leit út fyrir að barnið kæmi fyrr en búist var við. Við gripum nokkra hluti og drifum okkur af stað á heilsugæsluna. Mér leið ekki eins og ég væri reiðubúin að hefja fæðinguna, en bað þess að vilji Guðs mætti verða, þrátt fyrir ótta okkar.

Þegar við komum á heilsugæsluna var kvensjúkdómalækninum mínum gert viðvart, sem sagðist ekki koma fyrr en síðar. Eiginmaður minn hringdi í og sendi textaskilaboð til foreldra okkar og systkina, en ekkert þeirra var vakandi. Hann hélt áfram að hringja og senda textaskilaboð alla nóttina, en enginn svaraði. Þetta olli því að ég var afar einmana.

Þegar sársaukinn vegna hríðanna ágerðist, varð ég stöðugt meira einmana. Þá gerðist skyndilega nokkuð dásamlegt. Ég byrjaði að leiða hugann að áum okkar – sérstaklega að ömmu minni í móðurætt, Rosu Mercado, og móður hennar, Javieru Balmaceda.

Þegar ég minntist þeirra, fann ég í huga mér og hjarta að þær voru með mér á því augnabliki. Ég fann fyrir nærveru þeirra á svo sterkan og indælan hátt að ég get ekki útskýrt vel með orðum hvað ég upplifði. Ég sá þær ekki en fann fyrir nærveru þeirra og sem mæður og hluti af fjölskyldu minni, veittu þær mér hugrekki, stuðning og elsku. Mér fannst þær vera englar sem þjónuðu mér, þegar ég þurfti á að halda.

Mörgum árum áður hafði ég gert staðgengilsverk fyrir þær og aðra áa í musterinu, ásamt móður minni, föður, systkinum og eiginmanni. Ég finn að hugrekkið sem ég öðlaðist og sú tilfinning að áar mínir væru nærri, var gjöf fyrir kraft og vald Guðs.

Frá því hef ég fundið fyrir anda áa minna við önnur tilefni, er þeir liðsinna mér og leiða mig áfram sem móður, eiginkonu og á öðrum sviðum lífsins.

Ég ber vitni að Guð mun aldrei skilja okkur eftir ein á vegi lífsins. Ef við vinnum verk hans, verður okkur liðsinnt að handan hulunnar. Við munum meðtaka elsku, þekkingu, styrk og þann frið „sem er æðri öllum skilningi“ (Filippíbréfið 4:7).

Prenta