2021
Jesús Kristur þekkir sársaukann sem við upplifum vegna fordóma
September/Október 2021


Jesús Kristur þekkir sársaukann sem við upplifum vegna fordóma

Höfundurinn býr í Gauteng-héraði, Suður-Afríku.

Ég leitast eftir að sjá fólk eins og frelsarinn myndi sjá það.

people gathered on the Rome Italy Temple grounds

Á opnu húsi Rómarmusterisins á Ítalíu umkringja meðlimir og vinir Kristsstyttuna, eins og sést hér í gegnum glugga gestamiðstöðvarinnar.

Ég hef upplifað fordóma og mismunun á ýmsan hátt í nærri 20 ár.

Eftir að hafa gengið í kirkjuna í Mósambík, flutti ég til Suður-Afríku. Það er fallegt land, eitt af mest blómstrandi löndum í Afríku. Fjölbreytileiki fólksins og fjölmenningin undirstrika fegurð landsins.

Suður-Afríka er enn að jafna sig af aðskilnaði kynþátta, sem hefur varpað skugga á sögu þjóðarinnar. Þótt aðskilnaðarstefnan hafi opinberlega verið afnumin árið 1994, þá hefur þessi ríkisframkvæmd kynþáttahyggju skilið eftir sig ör.

Ég hef þolað fordóma og útilokun, sem svört, mósambísk kona og Síðari daga heilagur sem hefur búið í Suður-Afríku síðastliðin 18 ár, sem oft sýnir sig sem aðgangsharka. Kynþáttahyggja, stéttaskipting, ættbálkahyggja, kynjamisrétti og útlendingahatur eru nokkur dæmi um böl aðskilnaðar sem samfélagið glímir enn við. Það er eitthvað hið innra með náttúrlega manninum sem virðist vilja sundra samfélaginu og telja okkur trú um að það sé slæmt að vera öðruvísi.

Það sem við reynum að gera

Eiga meðlimir kirkjunnar á hættu að vera móttækilegir fyrir þess háttar hugsunarhætti? Algjörlega. Við þurfum öll að losa okkur úr viðjum hins náttúrlega manns, með átaki sem varir lífstíð, til að verða heilög fyrir friðþægingu Krists (sjá Mósía 3:19).

Þegar börn mín og ég upplifum okkur einangruð, að það sé litið fram hjá okkur, með staðalímyndum eða af furðu, þá komum við heim og ræðum málið. Við segjum: „Hvað gerðist eiginlega? Skoðum málið nánar. Ræðum af hverju fólk hagar sér á þennan hátt.“ Að ræða málið hjálpar okkur að hafa hemil á því að tilfinningar okkar hlaðist upp innra með okkur.

Ég reyni að kenna börnum mínum að mikilleiki ákvarðist af því hvernig við komum fram við fólk sem er jaðarsett eða útskúfað úr samfélaginu (sjá Matteus 25:40). Það gæti þýtt að leitað sé leiða til að ná til annars fólks, til að við útilokum það ekki.

Ég reyni að líkjast Jesú

Eins sársaukafullar og sumar þessara upplifana eru, þá eru þær lexíur sem við lærum, sem gera börnin mín að betra fólki. Mig líka. Vonbrigði okkar hafa hjálpað okkur að þróa meðaumkun og samúð gagnvart öðrum.

Að upplifa fordóma hefur veitt mér tækifæri til að velja. Mun ég verða bitur og svara í sömu mynt eða mun ég veita þessari persónu ekki aðeins annað tækifæri, heldur jafnvel þriðja og fjórða tækifærið? Mun ég líta á samfélagið sem skelfilegan stað eða mun ég verða afl til góðra breytinga?

Frelsarinn varð líka fyrir fordómum vegna þess hver hann var, hverju hann trúði og hvaðan hann kom (sjá Jóhannes 1:46). Þrátt fyrir þetta brást hann ekki við með ofbeldi, reiði, biturð eða hatri. Hann kenndi á móti öllu þessu og athafnir hans voru í kærleika og sannleika. Hann kenndi að kraftur og áhrif kæmu með fortölum, umburðarlyndi, mildi, hógværð og ást (sjá Kenningu og sáttmála 121:41). Hann kenndi að þegar við erum móðguð ættum við að fara til bróður okkar og tala um fyrir honum (sjá Matteus 18:15). Hann kenndi okkur að biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur (sjá Matteus 5:38–48). Þegar hann var ranglega dæmdur og hengdur upp á krossinn til að deyja, þá kenndi hann okkur að fyrirgefa (sjá Lúkas 23:34).

Að lokum er það elska hans sem mun breyta okkur og heiminum (sjá 2. Nefí 26:24).

Ég mun halda áfram að reyna

Ég er ekki fullkomin; ég fyrirgef ekki alltaf um leið, þegar einhver misbýður mér. Það tekur tíma, það þarfnast lækningar og þess að heilagur andi vinni með mér. Stundum vel ég að móðgast og bregst ekki strax við hvatningu hans. Ef ég er opin fyrir honum, þá vinnur andinn rólega með mér þar til ég get skilið hvað himneskur faðir vilji að ég geri í þessum aðstæðum.

Ég leitast eftir að sjá fólk virkilega eins og frelsarinn myndi sjá það. Til að gera það, verðum við að vera reiðubúin að játa að við höfum ekki öll svörin. Þegar við erum viljug til að segja: „Ég er ekki fullkomin; ég á enn mikið ólært. Hvað getum við lært af sjónarmiðum annarra?“ – Þá erum við virkilega tilbúin til að heyra. Þá getum við sannarlega séð.

Á þessari ferð, hjálpar það mér að minnast þess að ég hef tilgang, að raunir lífsins eru skammvinnar – nauðsynlegur hluti jarðlífsins – og að ég er ekki ein. Í gegnum allt þetta, langar mig að líkjast Jesú! Að reyna er stöðugt í gildi og þegar okkur mistekst, þá getum við reynt aftur.