2023
Mátturinn til að reisa upp
Mars 2023


„Mátturinn til að reisa upp,“ Líahóna, mars 2023.

Kraftaverk Jesú

Markús 5:22–24, 35–42

Mátturinn til að reisa upp

Við getum hjálpað við að lyfta þeim upp sem vona á lausn frelsarans.

Ljósmynd
fólk snertist með höndunum

Yfirbuguð. Aftur. Ég hallaði mér aftur í stólinn og laut höfði. Ég var bara áhorfandi, en samt hafði ég enga orku til að standa upp. Liðið okkar hafði lagt sig svo mikið fram. Sumar voru marðar. Sumar fóru haltrandi af velli. Eftir hvert tapið á fætur öðru hjá skólaliði okkar í fótbolta, vorum við ekki bara slegnar – við vorum niðurbrotnar.

Í þann mund sem vonbrigði mín virtust yfirbuga mig, hljóp ein af yngstu stúlkunum í liðinu fram hjá. Ég tók strax eftir tilganginum sem ég sá í andliti hennar.

Ég horfði á það hvernig hún rétti hverri stúlku hönd í hverju skrefi, en þó ekki til að viðurkenna ósigur. Þess í stað veitti hún hverri þeirra lof, huggun og samúð. „Ég hef aldrei séð þig hlaupa svona mikið til að komast að hverri sendingu. Þetta var besti leikurinn þinn.“ Við aðra sagði hún: „Vá, ótrúlegur leikur. Í alvöru, þú varst í stuði í dag!“

Eftir hvern handasmell, tók hún með annarri hönd í hönd þeirra og hina setti hún á öxlina eða klappaði varfærnislega á marinn og graslitaðan fótinn. Ég fann að hún hafði eitthvað hið innra, kraft sem hún á einhvern hátt yfirfærði í hjarta hvers liðsmanns. Bros fóru að brjótast fram í gegnum sársauka- og vonbrigðakveinin. Smám saman, ein í senn, fann hver stúlka nýja tilfinningu vakna meðal þeirra.

Hverjum var ekki sama um marbletti og sársauka? Hverjum var ekki sama um reiði og vonbrigði? Öllum. Hvernig gat aðeins ein hönd lyft einhverjum frá stað þjáningar til staðar tilgangs og styrks?

Leyfið mér að miðla nokkru því sem ég hef lært um mátt frelsarans til að lyfta og hvernig við getum hjálpað, eins og vinkona mín í fótboltaliðinu.

Í Nýja testamentinu lesum við eftirfarandi frásögn um dóttur Jaírusar.

„Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú féll hann til fóta honum,

bað hann ákaft og sagði: ,Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana að hún læknist og lifi.‘

Jesús fór með honum“ (Markús 5:22–24).

„Jesús fór með honum“

Ég ann orðunum: „Jesús fór með honum“ (Markús 5:24). Kraftaverkið hafði enn ekki gerst. Reyndar yrðu nokkrar hörmulegar tafir áður en fjölskyldan fengi líknina sem hún var að biðja um. Kristur var þó þegar á ferð með þeim.

Þegar við þörfnumst þess sem við getum ekki gert fyrir okkur sjálf, getum við treyst því að Jesús sé að koma. Við getum líka treyst því að þegar við vonumst í trú eftir kraftaverkum hans í lífi okkar eða ástvina okkar, mun hann ganga með okkur. Hann mun ganga með okkur leiðina á enda í gegnum kvíða og ótta og sorg, sem kunna að bíða okkar á veginum til líknar.

„Kom og legg hendur yfir hana“

Það er ekki okkar að bjóða fram lækningu, en eins og Jaírus getum við komið með Jesú Krist, meistaralækninum, til þeirra sem við elskum. Jaírus vissi að hendur frelsarans gætu lyft einhverjum frá stað þjáningar til staðar tilgangs og styrks.

Ég sá það á ljósgjafanum okkar í fótboltanum. Hún var að miðla ljósi Krists á fótboltavellinum og gera honum mögulegt að framkvæma lækningu sína. Með því að halda uppi ljósi hans, var hún að hjálpa til við að safna saman Ísrael.

Sérhvert okkar mun þarfnast björgunar frá einhverjum öðrum en okkur sjálfum. Hversu berskjölduð sem okkur kann að finnast við vera vegna þess, þá getum við treyst því að himneskur faðir sá okkur fyrir frelsara sem getur hjálpað við að reisa okkur við frá örvæntingu. Við getum líka verið þátttakendur með honum, alveg eins og fótboltahetjan mín gerði.

Hvað ef hlutirnir versna bara á meðan þú bíður eftir að blessanir hans komi?

„Hví ómakar þú meistarann lengur?“

Meðan Kristur var á leiðinni til húss Jaírusar, tafðist hann. Göturnar voru fullar og þegar hann reyndi að komast leiðar sinnar snerti kona mikillar trúar, sem líka hafði beðið eftir læknandi hendi hans, klæði hans.

„Hún hugsaði: ,Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.‘

Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar og hún fann það á sér að hún var heil af meini sínu“ (Markús 5:28–29).

Hversu frávita var Jaírus? Hversu vonsvikinn yfir töfinni? Þegar hann fór frá húsi sínu, var dóttir hans þegar að dauða komin. Síðan, þegar frelsarinn leitaði konunnar sem læknaðist og talaði við hana, kom einhver út úr húsi Jaírusar með þessar slæmu fréttirnar: „Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?“ (Markús 5:35).

Hve mikil blessun fyrir konuna sem hafði beðið svo lengi! Hvílíkur harmleikur þó fyrir Jaírus og fjölskyldu hans, sem höfðu alls engan tíma til að bíða! Stundum þegar við bíðum, getur verið erfitt að halda í vonina um að hann sé að koma. Fyrir Jaírus og fjölskyldu hans, virtist það nú of seint að vonast eftir kraftaverkinu sem þau höfðu þurft. Dóttir hans var látin. Af hverju að ómaka meistarann lengur?

Af hverju? Vegna þess að takmörkin sem við setjum stundum á kraftaverk frelsarans, eru merkingarlaus. Hann er ekki bundinn af tímamörkum okkar, né takmarkast vald hans við skilning okkar á því sem er mögulegt.

Ef við horfum fram með augum trúar á meðan við bíðum, munum við finna fullvissu um að frelsun hans sé að koma (sjá Alma 58:11). Þessi fullvissa getur breytt hjörtum okkar og staðfest trú okkar á hann. Jafnvel þótt tækifærið virðist liðið, þá er hann enn að koma; stund okkar mun renna upp.

Ljósmynd
Jesús reisir dóttur Jaírusar frá dauðum

Upprisa dóttur Jaírusar, eftir Gabriel Max / Peter Horree / Alamy Stock Photo

„Óttast ekki, trú þú aðeins“

Jafnskjótt og frelsarinn hafði heyrt þessi slæmu tíðindi, sagði hann við Jaírus: „Óttast ekki, trú þú aðeins“ (Markús 5:36). Orð frelsarans til Jaírusar, sýna hversu óðfús hann er að fullvissa okkur í biðinni. Hann gerir ekki hlé á þjónustu sinni, jafnvel þótt við gerum það. Hann hvatti Jaírus jafnskjótt áfram í trú.

„Jesús gengur inn og segir: ,Hví hafið þið svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur. …

Og hann tók hönd barnsins og sagði: ,Talíþa kúm!‘ Það þýðir: ‚Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!‘“ (Markús 5:39, 41).

Heyrðuð þið þetta? „Hann tók hönd barnsins.“ Það er máttur í höndum hans. Howard W. Hunter forseti (1907–95) sagði eitt sinn: „Allt sem Jesús leggur hendur yfir mun lifa.“1 Hvað getum við gert til að meðtaka betur læknandi hönd hans? Hvernig getum við verið hendur hans til að hjálpa við að lyfta öðrum á tíma sorgar örvæntingar?

„Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um“

Um leið vaknaði dóttir Jaírusar til lífs: „[Hún reis jafnskjótt upp] og fór að ganga um“ (Markús 5:42). Jarðlífið mun koma með rúm sem við verðum að rísa upp úr. Fyrir sérhvert okkar munu þessi rúm líta aðeins öðruvísi út – allt frá vonbrigðum eftir tap á vellinum til þess að missa ástvin. Þjáningar munu óhjákvæmilega verða. Hann mun þó aldrei yfirgefa okkur, sama hversu skelfilegar eða endanlegar aðstæðurnar kunna að virðast. Stundum leyfir hann að við göngum um staði dauða eða auðnar, svo að hann geti rétt fram hendur sínar og fyllt þá lífi.

Með tákni friðþægingar sinnar – naglaförunum á báðum höndum – sýnir hann okkur að við erum þau sem hann þjónar: „Sjá, ég hef rist þig á lófa mína“ (1. Nefí 21:16). Þjónusta Krists var, er og mun alltaf verða til að reisa okkur upp frá þeim dauða sem við fáum ekki umflúið líkamlega eða andlega og allt er það gert mögulegt fyrir friðþægingarfórn hans.

Þegar slíkar sorgir og áskoranir eiga sér stað, getum við séð fyrir okkur hendurnar sem bera merki í báðum lófum, er færa okkur ekki aðeins gæsku og kærleika, heldur kraft til sigurs. Með því að iðka trú á hann, mun hin fullkomna endurreisn af hálfu lausnara heimsins sigrast á hverju því sem við stöndum frammi fyrir.

Við getum líka verið framlenging handa hans, fyrir þau sem þarfnast snertingar hans.

Ég ber vitni um að sérhvert okkar mun rísa upp frá eigin veikleika og að lokum upp úr gröfinni. Munið að jafnvel þótt allt sé glatað, þá er hann til staðar og réttir fram hendur sínar með frelsandi mætti. Ímyndið ykkur gleðina sem vaknar þegar hann réttir fram hönd sína til ykkar og lýsir yfir: „Ég segi þér, rís upp.“ Við munum vissulega rísa upp.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Howard W. Hunter (2015), 150.

Prenta