2023
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi, jafnvel þótt við verðum öldruð
Mars 2023


„Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi, jafnvel þótt við verðum öldruð,“ Líahóna, mars 2023.

Eldast trúfastlega

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi, jafnvel þótt við verðum öldruð

Konur þessar, sem kallaðar eru á efri árum til að skipa Líknarfélagsforsætisráð, koma með reynslu og skilning í þjónustu sína.

þrjár eldri konur með göngugrindur

Ljósmynd frá Richard M. Romney

„Við gætum bara verið elsta Líknarfélagsforsætisráðið í kirkjunni,“ segir Sharon Alexander. Hún var nýorðin 89 ára. Ráðgjafar hennar, Marlene Peterson og Dorothy Arnold, eru 90 og 91 árs, í þeirri röð.

„Þannig að meðalaldur okkar er 90 ár,“ segir Dorothy og hlær.

Þetta Líknarfélagsforsætisráð þjónar í grein í sjálfstæðri búsetu í Ogden, Utah, Bandaríkjunum. Margir eldri meðlimir kirkjunnar hafa búsetu þar og oft má sjá forsætisráðið styðja sig við göngugrindur sínar þegar þær ganga á milli dyra, heilsa fólki og athuga hvort allir séu í lagi.

Hér áður sá fólk frá nágrannadeildum um slíkar þjónustuheimsóknir. Stikuforsetinn hlaut þá innblástur um að hvetja greinarforsætisráðið til að spyrja Drottin hvaða íbúar gætu þjónað og í hvaða köllun.

Of ríkulega blessaðar til að segja nei

„Þegar greinarforsetinn kallaði mig sem Líknarfélagsforseta,“ segir Sharon, „hugsaði ég með mér að ég hefði verið of ríkulega blessuð til að segja nei.“ Hún fékk þá í staðinn innblástur um hverjir ráðgjafar hennar ættu að vera. „Marlene kom fyrst í hugann,“ segir hún. „Við höfðum unnið saman á stikustigi, undirbúið nöfn fyrir musterisverkið. Ég vissi að eiginmaður hennar hefði látist fyrir ekki alls löngu og þótt hún ætti erfitt með það, vissi ég að hún var trúföst.“

Eftir sakramentissamkomu, leit Sharon síðan í kringum sig í herberginu og leitaði innblásturs. „Ég sá Dorothy. Hún brosti til mín og ég vissi að hún var hinn ráðgjafinn. Drottinn leiðbeindi mér varðandi þær báðar og hann gerði engin mistök, í báðum tilvikum.“

Eins og ein stór fjölskylda

Sharon segist einnig sjá kosti þess að fólk í búsetunni þjóni öðrum í búsetunni. „Við erum nær aðstæðunum,“ segir hún. „Við vitum að við erum stundum klaufskar, stundum gleymum við mörgu og stundum líður okkur bara ekki vel. Við vitum líka hvernig á að hlæja að vandamálunum sem við tökumst saman á við.“

„Fólkið sem býr hér er nú þegar eins og ein stór fjölskylda,“ segir Marlene. „Við borðum máltíðirnar saman, því hittumst við þrisvar á dag. Svo erum við líka stundum saman í félagsstarfi. Ég tel því að stikuforsetinn hafi verið innblásinn þegar honum fannst að hér væri fólk sem gæti þjónað hvert öðru.“

„Við vitum hvað er að gerast frá degi til dags. Við vitum hvort einhver þarfnast hjálpar eða ef einhver veikist,“ segir Dorothy.

Auk þess að þjóna og hjálpa öðrum að þjóna, skipuleggja meðlimir forsætisráðsins kennslu Líknarfélagsins. Þær benda á íbúa sem gætu verið kallaðir til að kenna og þær laga verkefni og stundaskrár að þörfum kennara.

Munið að Drottinn elskar ykkur

„Aðalstarf okkar er þó að minna aðra íbúa á að Drottinn elskar þá,“ segir Marlene. „Þegar við gerum það, finnum við líka kærleika hans.

„Við höfum öll eitthvað að glíma við,“ segir Sharon. „Ég glími nú við erfiðleika sem ekki voru til staðar fyrir fimm mánuðum. Þegar ég fer að vorkenna sjálfri mér, hugsa ég: „Æi, þetta er ekkert miðað við það sem frelsarinn gekk í gegnum. Við erum hér til að þróast og vaxa. Ef við lærum af reynslunni, getum við, jafnvel á gamals aldri, haldið áfram að læra að eilífu.“

Þar sem hver þeirra hefur misst ástvini, þá hefur forsætisráðið líka lært mikið um samúð. Þær vita hvernig á að hjálpa þeim sem þurfa á huggun að halda. Marlene missti til að mynda fjóra fjölskyldumeðlimi og sína bestu vinkonu á einu ári.

„Vegna þess að við höfum gengið í gegnum erfiða hluti,“ segir hún, „getum við líka hjálpað öðrum að komast í gegnum erfiða hluti. Ef þið glímið við eitthvað, skuluð þið týna ykkur sjálfum í þjónustu við aðra. Það er það sem þessi köllun hefur hjálpað mér að gera.“

Meðlimir forsætisráðsins koma með mikla reynslu og skilning í kallanir sínar. Þær hafa búið og starfað á mörgum stöðum — Kaliforníu, Ohio, Wyoming og Utah. Þær hafa þjónað í musterinu, í deildar- og stikuköllunum, í Barnafélaginu, Stúlknafélaginu og við mannúðarþjónustu. Dorothy hafði þó aldrei starfað í köllun í Líknarfélaginu fyrr en nú.

„Hver eru kjörorð Líknarfélagsins? spyr hún. ,Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‘ Það er satt þegar þú ert ungur, en það er jafn satt þegar þú ert eldri. Sem forsætisráð, lærum við það á hverjum degi.“

„Ég held að við vinnum mjög vel saman,“ segir Sharon og blikkar auga, „miðað við forsætisráð sem hefur 90 ára meðalaldur.“