2023
„Minn frið gef ég yður“
Mars 2023


„Minn frið gef ég yður,“ Líahóna, mars 2023.

„Minn frið gef ég yður“

Jesús segir í lífsstormum okkar sömu orðin og hann mælti óveðursnóttina við Galíleuvatn: „Haf hljótt um þig.“

regn fellur yfir sjó

Ljósmynd frá Getty Images

Fyrir mig og fjölskyldu mína, var kaldi veturinn 1944 tími ótta og óvissu. Með föður minn langt í burtu á vesturvígstöðvunum, átti móðir mín erfitt með að fæða börnin sín fjögur og halda á þeim hita, þar sem stríð ógnaði heimili okkar í Tékkóslóvakíu.

Með hverjum degi nálgaðist hættan. Að lokum ákvað mamma að flýja til foreldra sinna í austurhluta Þýskalands. Einhvern veginn tókst henni að koma okkur öllum í eina af síðustu flóttamannalestunum sem fóru vestur. Nálægar sprengingar, áhyggjufull andlit og tómir magar, minntu alla í lestinni á að við værum að ferðast um stríðssvæði.

Kvöld eitt, eftir að lestin hafði stoppað til að taka vistir, flýtti mamma sér út til að leita matar. Þegar hún kom aftur, sá hún sér til skelfingar að lestin sem við börnin vorum í var farin!

Í mikilli örvæntingu, sneri hún sér til Guðs í ákafri bæn og tók síðan að leita hamstola á myrkri lestarstöðinni. Hún hljóp frá brautarteinum til brautarteina og úr lest í lest. Hún vissi að ef lestin hennar færi áður en hún fyndi hana, gæti svo farið að hún sæi okkur aldrei aftur.

Stormar í lífi okkar

Í jarðneskri þjónustu frelsarans, lærðu lærisveinar hans að hann gæti lægt stormana í lífi okkar. Kvöld eitt, eftir að hafa kennt við ströndina allan daginn, lagði Drottinn til að þeir „[færu] yfir um [Galíleuvatnið]“ (Markús 4:35).

Eftir að þeir fóru, fann Jesús stað til að hvíla sig á í bátnum og sofnaði. Brátt urðu skýin þungbúin og „brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti“ (sjá Markús 4:37–38).

Við vitum ekki hversu lengi lærisveinarnir reyndu að halda bátnum á floti, en loks gátu þeir ekki beðið lengur. Í örvæntingu hrópuðu þeir: „Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“ (Markús 4:38).

Öll upplifum við fyrirvaralausa storma. Í okkar jarðneska lífi, með alls kyns prófraunum, gætum við upplifað vanlíðan, kjarkleysi og vonbrigði. Hjörtu okkar bresta vegna okkar sjálfra og þeirra sem við elskum. Við höfum áhyggjur og óttumst og missum stundum vonina. Á slíkum stundum, gætum við líka hrópað: „Meistari, hirðir þú ekki um að ég farist?“

Þegar ég var ungur, var einn af uppáhalds sálmunum mínum: „Herra, sjá bylgjurnar brotna.“1 Ég gat séð mig fyrir mér í bátnum er „[bylgjur] brotna, og beljandi stormur hvín.“ Mikilvægasti og fallegasti hluti sálmsins er þessi: „Sjá, ég hef vald yfir vindi’ og sjó! Verði hér ró!“ Síðan koma hin mikilvægu skilaboð: „Ei magnþrunginn hafsjór með öldufald, fær grandað því skipi, er geymir’ í sér þann Guð sem frá upphafi var og er.“

Ef við bjóðum Jesú Krist, Friðarhöfðingjann, velkominn í bátinn okkar, þurfum við ekki að óttast. Við munum vita að við getum fundið frið mitt í stormunum sem geysa umhverfis. Eftir að lærisveinarnir höfðu hrópað á hjálp, stóð Jesús upp „hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ,Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn“ (Markús 4:39).

Jesús segir í lífsstormum okkar sömu orðin og hann mælti óveðursnóttina við Galíleuvatn: „Haf hljótt um þig.“

„Ekki … eins og heimurinn gefur“

Við gætum spurt eins og lærisveinarnir: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum“ (Markús 4:41).

Jesús er maður sem enginn annar. Sem sonur Guðs, var hann kallaður til að uppfylla ætlunarverk sem enginn annar gat uppfyllt.

Með friðþægingu sinni, og á þann hátt sem við fáum ekki skilið til fulls, tók frelsarinn á sig „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“ (Alma 7:11) og „uppsafnaða byrði allra dauðlegra synda.“2

Þótt réttvísin ætti ekkert inni hjá honum, þá þjáðist hann fyrir „[allar] … kröfur réttvísinnar“ (Alma 34:16). Með orðum Boyd K. Packer (1924–2015), forseta Tólfpostulasveitarinnar: „Hann hafði ekki gert neitt rangt. Hann upplifði engu að síður alla samanlagða sekt manna, sorg þeirra og sársauka og auðmýkingu; allar hugrænar, tilfinningalegar og líkamlegar þjáningar sem menn fá þekkt – hann upplifði þetta allt.“3 Hann sigraðist á þessu öllu.

Alma spáði: Frelsarinn „mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:12).

Með guðlegri gjöf, sem fæddist af nístandi kvölum og af kærleika til okkar, greiddi Jesús Kristur gjaldið til að endurleysa okkur, styrkja okkur og frelsa okkur. Það er aðeins fyrir friðþæginguna sem við getum fundið þann frið sem við þráum og þörfnumst svo innilega í þessu lífi. Líkt og frelsarinn lofaði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóhannes 14:27).

mynd af Jesú Kristi

Líf og kenningar Jesú Krists gera okkur mögulegt að finna frið hans, ef við snúum okkur til hans.

Ímynd Krists, eftir Heinrich Hofmann

Leiðir til friðar

Jesús Kristur, sem hefur vald yfir frumefnunum, getur líka létt byrðar okkar. Hann hefur mátt til að lækna einstaklinga og þjóðir. Hann hefur sýnt okkur leiðina til sanns friðar, því að hann er „Friðarhöfðinginn“ (Jesaja 9:6). Friðurinn sem frelsarinn býður gæti umbreytt allri mannlegri tilveru, ef börn Guðs myndu leyfa það. Líf og kenningar hans gera okkur mögulegt að finna frið hans, ef við snúum okkur til hans.

„Lær af mér,“ sagði hann, „og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér“ (Kenning og sáttmálar 19:23).

Við lærum um hann þegar við úthellum sál okkar í bæn, ígrundum líf hans og kenningar og „[stöndum] … á heilögum stöðum,“ þar á meðal í musterinu (Kenning og sáttmálar 87:8; sjá einnig 45:32). Farið í hús Drottins eins oft og þið getið. Musterið er friðsælt athvarf frá vaxandi stormum okkar tíma.

Minn kæri vinur, Thomas S. Monson forseti (1927–2018), kenndi: „Þegar við förum í [musterið], þegar við minnumst sáttmálanna sem við gerum þar, munum við geta þolað allar prófraunir og sigrast á hverri freistingu. Musterið veitir tilgang fyrir líf okkar. Það færir sálum okkar frið – ekki þann frið sem menn veita, heldur friðinn sem Sonur Guðs hefur lofað.“4

Við hlustum á orð hans þegar við tileinkum okkur kenningar hans í heilögum ritningum og frá lifandi spámönnum hans, líkjum eftir fordæmi hans og komum til kirkjunnar hans, þar sem við njótum samfélags, fræðslu og erum nærð hinu góðu orði Guðs.

Við göngum í hógværð anda hans þegar við elskum eins og hann elskaði, fyrirgefum eins og hann fyrirgaf, iðrumst og gerum heimili okkar að stað þar sem við getum fundið anda hans. Við göngum líka í hógværð anda hans þegar við hjálpum öðrum, þjónum Guði með gleði og leitumst við að vera „friðsamir fylgjendur Krists“ (Moróní 7:3).

Þessi skref trúar og verka, leiða til réttlætis, blessa okkur á lærisveinsvegferð okkar og færa okkur varanlegan frið og tilgang.

„Svo að þér eigið frið í mér“

Á dimmri nóttu á ljótri járnbrautarstöð fyrir mörgum árum, stóð móðir mín frammi fyrir valkostum. Hún hefði getað setið og harmað þann harmleik að hafa týnt börnum sínum eða hún gæti sýnt von og trúarverk. Ég er þakklátur fyrir að trú hennar sigraði óttann og að vonin sigraði örvæntingu hennar.

Hún fann loks lestina okkar á afskekktu svæði á stöðinni. Þarna vorum við loks sameinuð aftur. Þetta kvöld, og á mörgum komandi stormasömum dögum og nóttum, var það fordæmi móður minnar að sýna von og trúarverk, sem studdi okkur er við vonuðumst eftir og strituðum fyrir bjartari framtíð.

Á okkar tíma uppgötva mörg barna Guðs að lest þeirra hefur líka verið flutt. Vonum þeirra og framtíðardraumum hefur verið svipt í burtu vegna stríðs, heimsfaraldurs og heilsubrests, atvinnu, glötuðum menntunartækifærum og ástvinamissi. Þau hafa látið hugfallast, eru einmana, allslaus.

Bræður og systur, kæru vinir, við lifum á erfiðum tímum. Þjóðir eru ráðvilltar, dómur er yfir landinu og friður hefur verið tekinn af jörðu (sjá Kenning og sáttmálar 1:35; 88:79). Friður þarf þó ekki að hverfa úr hjörtum okkar, jafnvel þótt við þurfum að þjást, syrgja og vona á Drottin.

Vegna Jesú Krists og friðþægingar hans, verður bænum okkar svarað. Tímasetningin er Guðs, en ég ber vitni um að dag einn munu réttlátar þrár okkar uppfylltar og allur okkar missir verða bættur, að því tilskildu að við notum guðlega gjöf iðrunar og verðum trúföst.5

Við munum læknast – líkamlega og andlega.

Við munum standa hrein og heilög frammi fyrir dómgrindunum.

Við munum sameinast ástvinum í dýrðlegri upprisu.

Megum við, þar til það gerist, njóta huggunar og hvatningar, er við treystum á loforð frelsarans: „Svo að þér eigið frið í mér“ (Jóhannes 16:33).