2023
Allt verður í lagi
Mars 2023


„Allt verður í lagi,“ Líahóna, mars 2023.

Frá Síðari daga heilögum

Allt verður í lagi

Tíminn virtist endalaus, þar til einn skurðlæknirinn kom til mömmu á biðstofunni.

Russell M. Nelson virðir fyrir sér hjartalíkan

Ljósmynd af Russell M. Nelson eftir Eldon K. Linschoten

Snemma á níunda áratugnum fór faðir minn, sem þjáðist af alvarlegum hjartasjúkdómi, í hjartaaðgerð sem við vonuðum að myndi lengja líf hans.

Á þeim tíma var hin nýstárlega aðferð, sem skurðlæknarnir notuðu, ný í Úrúgvæ. Skurðlæknar skiptu út ósæðarlokunni fyrir gerviloku. Að lokum varð sú aðferð almenn og hefur bjargað ótal mannslífum.

Vegna þess að aðgerðin fól í sér þessa byltingarkenndu skurðaðgerð, komu nokkrir hjartalæknar og fylgdust með framvindunni. Á meðan skurðlæknarnir gerðu aðgerðina, sat móðir mín áhyggjufull á biðstofunni. Stundirnar virtust endalausar.

Við fögnuðum þegar við fréttum að aðgerðin hefði heppnaðist fullkomlega. Þegar komið var út af skurðstofunni, fór einn læknanna frá hinum og á biðstofuna. Hann var aðkomuskurðlæknir sem hafði komið til Úrúgvæ til að hafa umsjón með aðgerðinni.

Hann gekk til móður minnar, nam staðar og snerti hana hughreystandi á öxlinna. Hann horfði síðan í augu hennar og sagði: „Allt verður í lagi.“

Skurðlæknirinn hafði rétt fyrir sér. Faðir minn lifði 24 ár í viðbót og þjónaði Drottni af öllu hjarta – nú heilbrigður – til síðasta dags lífs síns.

Á síðustu aðalráðstefnu kirkjunnar var móðir mín minnt á þessa sérstöku heimsókn, fyrir svo mörgum árum. Reyndar er hún minnt á það í hvert sinn sem aðkomuskurðlæknirinn – Russell M. Nelson forseti – talar til hinna heilögu.

Allir spámenn Drottins eru okkur sérstakir á einhvern hátt. Sumir eru sérstakir, vegna þess að þeir þjónuðu sem forseti kirkjunnar á meðan við vorum ung. Sumir eru sérstakir, vegna þess að þeir þjónuðu sem forseti þegar við létum skírast. Fyrir móður mína og mig, er Nelson forseti sérstakur vegna þess að hann veit að sérhver alvarleg læknisaðgerð snertir ekki bara sjúklinginn, heldur líka ástvini þess sjúklings. Hann veit að fjölskyldumeðlimir þurfa hvatningarorð, styrk og hughreystingu þegar heilsa eða líf ástvinar er í hættu.

Við munum alltaf vera þakklát fyrir fullvissandi orð Nelsons forseta fyrir svo löngu síðan í Úrúgvæ og fyrir líf hans í þjónustu við himneskan föður og börn himnesks föður.