Hin óeigingjarna og helga fórn frelsarans
Úr trúarræðu: „Truths Most Worth Knowing.“ Flutt í Brigham Young háskóla, 6. nóv. 2011. Hér má lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.
Drottinn er ætíð til staðar. Hann þjáðist og greiddi gjaldið og ef við erum fús, þá getum við tekið á móti honum sem frelsara okkar.
Við lifum öll á andlegum yfirdrætti. Sá yfirdráttur hækkar stöðugt, á einn eða annan hátt. Ef við greiðum hann smám saman upp, höfum við lítið að óttast. Okkur lærist brátt að aga okkur sjálf og verður ljóst að dagur reikningsskila er fyrir höndum, Greiðið reglubundið inn á ykkar andlega reikning, fremur en að safna vöxtum og sektum.
Þess er vænst að ykkur verði á mistök, þar sem þið takist á við prófraun. Ég vænti þess að þið hafið gert eitthvað í lífinu sem þið sjáið eftir, eitthvað sem þið getið jafnvel ekki beðist afsökunar á og því síður leiðrétt og þess vegna hvílir byrði á ykkur. Í þessu samhengi nota ég orðið sektarkennd, er líkja má við blekflekk, sem ekki þvæst svo auðveldlega úr. Vonbrigði og úrtölur, eftirsjá glataðra blessana og tækifæra eru fylgifiskar sektarkenndar.
Ef þið takist á við sektarkennd, er líkt á komið með ykkur og fólkinu í Mormónsbók, sem spámaðurinn sagði um: „Vegna misgjörða þeirra tók kirkjunni að hnigna, og að þeim sótti efi um spádómsandann og anda opinberunar. Og dómar Guðs blöstu við þeim.“ (Helaman 4:23).
Oft reynum við að létta sektarkennd okkar með því að telja sjálfum okkur og öðrum trú um að misgjörðin skipti ekki máli. Einhvers staðar djúpt hið innra trúum við þessu samt ekki. Við trúum okkur sjálfum ekki heldur, þegar við segjum það. Við vitum betur. Hún skiptir máli!
Spámenn hafa ávallt hvatt til iðrunar. Alma sagði: „Sjá. Hann kemur til að endurleysa þá, sem vilja láta skírast iðrunarskírn í trú á nafn hans“ (Alma 9:27).
Alma sagði afdráttarlaust við son sinn: „En iðrun gat ekki fallið í hlut mannanna nema til væri refsing, sem einnig væri eilíf á sama hátt og líf sálarinnar yrði, fasttengd, andstæða sæluáætlunarinnar, sem einnig var jafn eilíf og líf sálarinnar“ (Alma 42:16).
Megin tilgangur jarðlífsins er tvíþættur. Í fyrsta lagi að hljóta efnislíkama, sem hægt er að hreinsa og upphefja og átt getur ævarandi tilveru, ef við viljum það. Í öðru lagi að takast á við prófraun. Okkur verður vissulega á mistök í þeirri prófraun. Við getum samt lært af mistökum okkar, ef við viljum það. „Ef vér segjum: Vér höfum ekki syndgað, þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss“ (1 Jóh 1:10).
Kannski finnst ykkur þið óæðri í huga og líkama og eruð þjökuð og byrðum hlaðin, af einhverju sem á hinum andlega reikningi er merkt „fram yfir eindaga.“ Þegar þið horfist í augu við sjálf ykkur á hljóðum stundum íhugunar (sem mörg okkar reyna að forðast), er þá eitthvað sem angrar og enn er óleyst? Er eitthvað sem nagar samviskuna? Eruð þið enn, að einhverju marki, full sektar yfir stóru eða smáu?
Of oft berast okkur bréf frá þeim sem hafa gert alvarleg mistök og eru byrðum hlaðnir. Þau sárbæna: „Er hægt að fyrirgefa mér? Get ég einhvern tíma breyst?” Svarið er já!
Páll ritaði Korintubúum: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist“ (1 Kor 10:13).
Fagnaðarerindið kennir að hljóta megi lausn frá vanlíðan og sektarkennd með því að iðrast. Að undanskildum hinum fáu – hinum örfáu – sem falla í glötun, eftir að hafa tekið á móti fyllingu, þá er enginn ávani, uppreisn, synd eða misgjörð, smá eða stór, sem ekki fellur undir loforðið um algjöra fyrirgefningu. Hvað sem átt hefur sér stað í lífi ykkar, þá hefur Drottinn búið ykkur leið til að koma til baka, ef þið viljið hlusta á hugboð heilags anda.
Sumir eru haldnir brýnni þörf, freistingu sem stöðugt herjar á hugann, sem getur valdið ávana og síðar ánetjun. Við hneigjumst til sumra synda og misgjörða og teljum okkur líka trú um sektarleysi, því þannig erum við jú úr garði gerð. Við komumst í sjálfheldu og upplifum þannig vanlíðan og sektarkennd, sem aðeins frelsarinn fær leyst okkur undan. Það er í ykkar valdi að segja hingað og ekki lengra og taka á móti endurlausn.
Fjölskyldan sætir árásum Satans
Marion G. Romney forseti (1897–1988) sagði eitt sinn við mig: „Segðu þeim ekki aðeins svo þau skilji, heldur líka svo þau misskilji ekki.“
Nefí sagði: „Því að sál mín hefur unun af hreinskilni, því að eftir hennar leiðum vinnur Drottinn Guð meðal mannanna barna. Því að Drottinn Guð veitir skilningnum ljós“ (2 Ne 31:3).
Hlustið því vel á! Ég tala af hreinskilni, líkt og sá sem er kallaður og ber skylda til þess.
Þið vitið að til er óvinur. Þannig er hann skilgreindur í ritningunum: „Þessi gamli höggormur, hann, sem er djöfullinn og faðir allra lyga“ (2 Ne 2:18). Í upphafi var honum varpað niður (sjá K&S 29:36–38) og neitað um efnislíkama. Hann hefur svarið þess eið að eyðileggja „hina miklu sæluáætlun“ (Alma 42:8) og að verða óvinur alls réttlætis. Hann beinir árásum sínum að fjölskyldunni.
Þið eruð uppi á þeim tíma er klámplágan breiðist út um heiminn. Henni er erfitt að komast undan. Klámið beinist gegn þeim eðlislæga hluta ykkar sem gefur ykkur kraft til að skapa líf.
Skoðun klámefnis leiðir til erfiðleika, hjónaskilnaðar, sjúkdóma og hvers kyns vandamála. Enginn þáttur þess er skaðlaus. Að safna því, skoða það eða hafa það undir höndum, er líkt og að hafa skröltorm í bakpokanum. Varnarleysið gagnvart hinu óhjákvæmilega eitraða og banvæna biti snáksins jafngildir hinni andlegu skaðsemi klámsins. Auðskiljanlegt er, eins og heimurinn er orðinn, að það getur næstum græskulaust birst ykkur til lestrar, skoðunar eða áhorfs, án þess að þið fáið áttað ykkur á hræðilegri skaðsemi þess. Ef þetta á við um ykkur, látið þá af því. Látið strax af því!
Í Mormónsbók segir að allir „menn [séu] nægjanlega uppfræddir til að þekkja gott frá illu“ (2 Ne 2:5). Það á líka við um ykkur. Þið vitið hvað er rétt og hvað rangt. Gætið vandlega að því að fara ekki yfir mörkin.
Þótt hægt sé að játa flest mistök einslega frammi fyrir Drottni, þá eru sumar syndir þess eðlis að meira er krafist af okkur til að hljóta fyrirgefningu. Ræðið við biskup ykkar, ef ykkur hefur orðið alvarlega á. Að öðrum kosti nægir hefðbundin og auðmjúk bænarjátning. Hafið þó í huga að ekki er víst að hin dásamlega dagrenning fyrirgefningar hljótist í einni svipan. Ef þið missið fótana, gefist þá ekki upp. Að sigrast á hindrunum og úrtölum, er hluti af prófrauninni. Gefist ekki upp. Líkt og ég hef áður sagt, þegar þið hafið loks játað og sagt skilið við syndir ykkar, lítið þá ekki um öxl.
Frelsarinn þjáðist fyrir syndir okkar
Drottinn er ætíð til staðar. Hann þjáðist og greiddi gjaldið og ef við erum fús, þá getum við tekið á móti honum sem frelsara okkar.
Við, sem jarðneskar verur, fáum hvorki, né getum skilið að fullu hvernig frelsarinn fékk uppfyllt friðþægingarfórn sína. Eins og er skiptir minna máli að vita hvernig hann þjáðist, heldur en að vita afhverju hann þjáðist. Afhverju hann gerði þetta fyrir mig og þig, fyrir allt mannkynið. Hann gerði þetta sökum elsku til Guðs föðurins og alls mannkyns. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jóh 15:13).
Í Getsemane fór Kristur afsíðis frá postulum sínum til að biðjast fyrir. Við fáum ekki skilið það sem þar gerðist! Við vitum samt að hann gerði friðþæginguna að veruleika. Hann var fús til að taka á sig syndir, misgjörðir, sekt, efasemdir og ótta alls heimsins. Hann þjáðist fyrir okkur, svo við þyrftum ekki að þjást. Margir menn hafa þolað miklar þjáningar og sársaukafullan og hræðilegan dauða. Þjáningar hans taka þeim öllum fram.
Sökum aldurs hef ég kynnst líkamlegum sársauka, sem er hreint ekkert grín! Engin fer í gegnum þetta líf án þess að kynnast einhverri þjáningu. Ég fæ hins vegar ekki borið þá þjáningu þegar ég hef uppgötvað að hafa orðið valdur að þjáningu annars. Í því samhengi fæ ég í örlitlum mæli skilið þjáningarnar sem frelsarinn upplifði í Getsemanegarðinum.
Þjáningar hans voru ólíkar öllum öðrum, fyrr og síðar, því hann tók á sig alla þá refsingu sem lögð hafði verið á mannkynið. Hugsið ykkur það! Hann var skuldlaus! Hann hafði ekkert rangt gert! Hann upplifði engu að síður alla samanlagða sekt manna, sorg þeirra og sársauka og auðmýkingu; allar hugrænar, tilfinningalegar og líkamlegar þjáningar sem menn fá þekkt – hann upplifði þetta allt. Það er aðeins einn í sögu alls mannkyns sem verið hefur algjörlega syndlaus og hefur lausn á syndum og misgjörðum alls mannkyns og hefur þolað sársaukann sem fylgir því að gjalda fyrir það.
Hann kynnti sig og sagði í raun: „Það er ég, sem tek á mig syndir heimsins“ (Mósía 26:23). Hann var krossfestur; hann dó. Þeir höfðu ekki vald til að taka líf hans. Hann ákvað sjálfur að deyja.
Algjör fyrirgefning er möguleg
Ef þið hafið hrasað eða villst frá um stund, ef ykkur finnst óvinurinn hafa á ykkur tangarhald, getið þið haldið áfram í trú og hætt að reika fram og aftur í heiminum. Þeir eru til sem fúslega vilja leiða ykkur aftur til öryggis og friðar. Náð Guðs, líkt og lofað er í ritningunum, veitist „að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2 Ne 25:23). Það er mér afar dýrmætt að þekkja sannleikann um að þetta sé mögulegt.
Ég heiti ykkur að hin dásamlega dagrenning fyrirgefningar mun koma. Þá mun „friður Guðs, sem er æðri öllum skilning,“ (Fil 4:7) fylla líf ykkar aftur, líkt og dagrenning, og þið og hann „ekki framar minnast syndar [ykkar]“ (Jer 31:34). Hvernig vitið þið það? Þið munið vita það! (Sjá Mósía 4:1–3.)
Þetta er það sem ég segi við þá sem búa við vanda. Hann mun bregðast við og leysa það sem þið fáið ekki leyst, en þið verðið að reiða fram gjaldið. Þetta getur ekki orðið án þess að það sé gert. Hann er afar mildur stjórnandi, að því leyti að hann hefur greitt hið nauðsynlega gjald, en hann krefst þess að þið gerið það sem ykkur ber, jafnvel þótt það sé sársaukafullt.
Ég elska Drottin og föðurinn, sem sendi hann. Við getum komið með byrði vonbrigða, synda og sektarkenndar fram fyrir Drottin og sökum hans gjöfulu skilmála, er hægt að merkja „greitt að fullu“ við hvern lið á reikningi okkar.
„Komið, eigumst lög við! segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“ Sem getur orðið, segir í Jesaja, „ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir“ (Jes 1:18–19).
Komið til hans
Ritningin sem segir: „Lærðu visku á unga aldri. Já, lærðu á unga aldri að halda boðorð Guðs,“ (Alma 37:35) er boð sem bundið er loforðinu um öryggi og frið gegn óvininum. „Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika“ (1 Tím 4:12).
Gerið ekki ráð fyrir að líf ykkar gangi alltaf snurðulaust fyrir sig. Þau ykkar sem hagið lífi ykkar eins og vera ber, getið reyndar stundum upplifað andstæðuna. Takist á við hverja lífsins áskorun af bjartsýni og fullvissu og þið munið hafa frið og trú ykkur til styrktar nú og á komandi tíð.
Við þau ykkar sem enn ekki njótið allra þeirra blessana sem þið viljið og óskið ykkur, segi ég að ég trúi staðfastlega að ykkur, sem lifið verðuglega, verði ekki neitað um neina lífsreynslu sem nauðsynleg er til endurlausnar og sáluhjálpar. Verið verðug, vonglöð, þolinmóð og bænheit. Allt fer vel að lokum. Gjöf heilags anda mun vera leiðandi í verkum ykkar og athöfnum.
Ef þið takist á við sektarkennd, vonbrigði eða dapurleika sökum mistaka sem þið hafið gert eða blessana sem enn hafa ekki hlotist, lesið þá hinn hughreystandi texta í sálminum „Kom þú til Jesú“:
Kom þú til Jesú, þjakaður þunga,
þrekaður syndabyrðunum frá.
Hann mun þig leiða til himna sinna,
heim þar sem hvíld er að fá.
Kom þú til Jesú, hann er þinn hirðir,
hart þó þú villist um myrkan geim.
Elska hans leitar, leiðir úr sorta
ljóssins í dýrðina heim.
Kom þú til Jesú, víst mun hann heyra,
hafir þú leitað kærleika hans.
Veist þú þá eigi! Englar þig vernda,
englar frá himinsdýrð hans.1
Ég staðfesti að ég er, ásamt bræðrum mínum, postulunum, sérstakt vitni Drottins Jesú Krists. Það vitni staðfestist enn frekar í hvert sinn er ég upplifi í sjálfum mér eða öðrum hreinsandi kraft friðþægingarfórnar hans. Vitnisburður minn og bræðra minna er sannur. Við þekkjum Drottin. Hann er ekki ókunnugur spámönnum, sjáendum og opinberurum sínum.
Ég fæ skilið að þið eruð ekki fullkomin, en þið þokist áfram á þeim vegi. Verið hugrökk. Vitið að hver sá sem hefur líkama er máttugri en sá sem ekki hefur hann.2 Satan var neitað um líkama, svo ef ykkur er freistað á einhvern hátt, vitið þá að þið getið sigrast á freistingunni, ef þið notið sjálfræðið, sem veitt var Adam og Evu í garðinum og hefur viðhaldist allt fram til ykkar kynslóðar.
Ef þið horfið vonglöð til framtíðar og þráið að gera það sem Drottinn óskar af ykkur – er það allt sem vænst er af ykkur.