2015
Syngið ykkar eftirlætis sálm
Apríl 2015


Syngið ykkar eftirlætis sálm

Angela Olsen Center, Ohio, Bandaríkjunum

drawing of mother and newborn in hospital

Teikning eftir Bradley H. Clark

Ég hafði rétt áður fætt dóttur okkar, Rebekah, í heiminn. Hríðarnar höfðu verið sárar og ég var örmagna.

Þegar mér var færð Rebekah í fangið, fann ég afar sterka tilfinningu um að ég ætti að syngja eftirlætis sálminn minn: „Guð barnið eitt ég er“ (Sálmar, nr. 112). Ég hugsaði fyrst: „Nei, ég er allt of þreytt. Ég syng fyrir hana seinna.“ Þá kom hugsunin aftur. Ég tók því að syngja fyrsta stefið, þótt ég væri úrvinda. Eiginmaður minn og móðir mín tóku undir með mér.

Þegar við höfðum sungið sálminn, fann ég sérstaka tilfinningu í herberginu. Meira að segja læknirinn, sem fram að þessu hafði verið fagmannlegur og fremur fámáll, felldi tár á vanga. Hún þakkaði okkur fyrir að hafa sungið þennan fallega sálm. Hún sagðist aldrei hafa upplifað slíkar tilfinningar á öllum þeim árum sem hún hefði tekið á móti börnum.

Ég hugsaði um þessa reynslu og velti fyrir mér hvort ég ætti að finna upptöku með sálminum og færa henni. Því miður gleymdi ég þessu sökum anna.

Skoðunardagur eftir barnsburð rann síðan upp. Þegar læknirinn kom inn í herbergið, lifnaði yfir henni og hún faðmaði mig að sér. Hún sagði sönginn hafa festst í huga sér og að hún hefði jafnvel reynt að finna hann á netinu, til að syngja hann fyrir börnin sín. Á þeirri stundu minnti heilagur andi mig á að ég hefði átt að finna og færa henni sönginn. Ég lofaði að koma með sönginn í vikunni til hennar.

Um kvöldið baðst ég fyrir um hjálp við að finna söngútsetningu sem hentaði henni best. Daginn eftir pantaði ég geisladisk með söngnum. Þegar hann kom nokkrum dögum síðar, beið ég þess spennt að færa henni hann.

Hún var uppnuminn yfir gjöfinni og þakkaði mér fyrir. Hún sagðist ekki vita ástæðuna fyrir víst, en henni fyndist afar mikilvægt að miðla börnum sínum söngnum. Í samtali okkar sagði ég henni ekki aðeins frá því hve söngurinn væri mér kær, heldur gaf ég líka vitnisburð minn um hinn einfalda sannleika sem hann kennir.

Þegar ég ók heim þennan dag, skynjaði ég kærleika himnesks föður til einnar dætra sinna – læknisins. Hann þekkir og elskar hana, og þráir að hún viti líka að hún geti lifað hjá honum að nýju.