Síðurnar okkar
Slökkviliðsmenn og alvæpni Guðs
Dagurinn var rólegur í slökkviliðsstarfinu þar sem ég var sjálfboðaliði, svo ég ákvað að lesa í Mormónsbók. Einn af samstarfsmönnum mínum sá mig lesa bókina og spurði hvort ég vissi hvernig hægt væri að íklæðast alvæpni Guðs á okkar tíma. Útkallsbjallan glumdi við í miðjum samræðum okkar. Eldur hafði komið upp í nálægri verslun.
Við fórum í snatri í búninginn og tókum búnaðinn og héldum rakleiðis þangað. Eldurinn var ofsafenginn og þegar við komum að versluninni varð mikil sprenging. Eldhafið umlukti okkur. Sprengingin sló mig og samstarfsmann minn út af laginu í nokkrar sekúndur. Þökk sé búningnum og búnaðinum að við hlutum engan skaða af.
Þegar við komum aftur í stöðina, eftir að hafa slökkt eldinn, minnti ég samstarfsmann minn á spurningu hans um alvæpni Guðs. Ég útskýrði fyrir honum að alvæpni Guðs væri líkt og öryggisbúningur okkar Við verðum alltaf að vera íklædd alvæpni Guðs til að fá staðist öflugar árásir óvinarins. Ef við höldum boðorðin, munum við blessuð með verndandi krafti alvæpnis Guðs og heilagur andi mun leiða okkur.
Fernando de la Rosa Marrón, Mexíkó
Mín eftirlætis ritningargrein
1 Sam 16:7. „Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.“
Áður en ég gekk í kirkjuna, hafði ég alltaf litið á mig sjálfa sem venjulega manneskju með venjulega eiginleika. Mér fannst ég ekki búa yfir neinu sérstöku. Ég óttaðist að vera ég sjálf meðal fólks, því ég óttaðist höfnun og særindi. Mér fannst allir aðrir vera sterkari, snjallari og betri en ég sjálf.
Það breyttist þó þegar ég varð meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég lærði að við værum öll börn Guðs og erfðum því guðlega eiginleika. Ég skil nú að málið snýst ekki um það að vera snjallari, ríkari eða fallegri í útliti. Í augum Drottins stöndum við öll jafnfætis og hann er sá sem dæmir – ekki eftir líkamlegu atgervi, heldur samkvæmt hlýðni og þrá til að fylgja þeim vegi sem hann hefur markað.
Joan Azucena, Filippseyjum
Vinnur þú á sunnudegi?
Þegar ég var 15 ára hlaut ég sterkan vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists og var innilega glaður að ganga í kirkjuna. Á þeim tíma varð ég að vinna úti til að hjálpa til við að framfleyta fjölskyldu minni. Ég missti vinnuna stuttu eftir að ég skírðist.
Ég þurfti að finna annað starf fljótt, því fjölskylda mín reiddi sig á mig, en öll störfin sem ég sótti um kröfðust þess að ég ynni á sunnudögum. Ég hafnaði mörgum störfum, því ég vissi að ég þyrfti að fara í kirkju á sunnudögum (sjá K&S 59:9–10).
Eftir tveggja mánaða leit, hafði ég enn ekki fundið starf við hæfi. Móðir mín var ekki meðlimur kirkjunnar og þótt hún tryði á Guð, varð hún afar reið yfir að ég hafði hafnað svo mörgum störfum.
Kvöld eitt leit hún á mig með tár í augum og spurði: „Afhverju lætur Guð þetta gerast, þegar þú ert svo trúfastur í því að gera hið rétta?“
Ég svaraði: „Mamma, ég veit ekki afhverju það gengur ekki betur, en ég veit að ég er að gera það sem rétt er og ég veit að Guð mun blessa okkur fyrir það.“
Daginn eftir bauð einhver mér dágóða upphæð fyrir að vinna í tvo daga við að flytja þungan farm á milli húsa. Vinnan var erfið og þegar ég fékk útborgað fór ég rakleiðis heim til að færa þakkir í bæn. Ég fann brátt gott starf, þar sem þurfti ekki að vinna á sunnudögum og hef ekki verið án atvinnu frá þeim tíma.
Ég er feginn yfir að hafa haldið hvíldardaginn heilagan. Lífið býður upp á margar áskoranir en ég veit að þegar við tökumst á við þær í trú, mun Drottinn blessa okkur.
Sahil Sharma, Indlandi