Fjölskyldukvöld í 100 ár
Í þessum mánuði eru 100 ár frá því að Æðsta forsætisráðið hvatti fyrst meðlimi til að hafa fjölskyldukvöld. Hér á eftir er útdráttur úr bréfi frá Æðsta forsætisráðinu um innleiðingu fjölskyldukvölds. Það var gefið út í apríl 1915 og birt í tímaritinu Improvement Era í júní 1915 (bls. 733–34). Málfar og stafsetning hafa verið færð í nútímahorf.
Kæru bræður og systur:
Við hvetjum Síðari daga heilaga til að virða betur boðorðið sem Drottinn gaf í 68. kafla Kenningar og sáttmála.
„Og enn fremur, að því leyti sem foreldrar, er eiga börn í Síon eða einhverri skipulagðri stiku hennar, kenna þeim ekki, þegar þau eru átta ára að aldri, að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs, og um skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu, fellur syndin á höfuð foreldranna. …
Og þeir skulu einnig kenna börnum sínum að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni“ [sjá K&S 68:25–28].
Börn í Síon ættu líka að virða betur boðorð Drottins, sem gefið var Ísrael til forna og ítrekað hefur verið við Síðari daga heilaga:
„Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér“ [2. Mós 20:12].
Þessar opinberanir hafa mikið gildi fyrir Síðari daga heilaga og sú krafa er gerð til feðra og mæðra í þessari kirkju, að þessi boðorð verði kennd og tileinkuð á heimili þeirra.
Í þessum tilgangi hvetjum við til þess að „fjölskyldukvöldum“ verði komið á í kirkjunni, þar sem faðir og móðir koma saman á heimilinu með sonum sínum og dætrum, til að kenna þeim orð Drottins. Þannig geta þau betur kynnst kröfum og þörfum barna sinna og þekkt betur reglur fagnaðarerindis Jesú Krists, ásamt börnum sínum. Fjölskyldukvöld þessi ættu að helgast af bæn, sálmasöng og söngvum, hljóðfæraleik, ritningarlestri, fjölskyldumálum og sérstakri fræðslu um reglur fagnaðarerindisins og siðferðisvanda lífsins, sem og ábyrgð barna og skyldur við foreldra, heimilið, kirkjuna, samfélagið og þjóðina. Fyrir yngri börnin gæti verið viðeigandi að syngja, segja sögur og fara í leiki. Hafa mætti léttar veitingar sem tilreiddar eru á heimilinu fyrir slíkt tilefni.
Forðast ætti formlegheit og stirðleika í lengstu lög og allir í fjölskyldunni ættu að vera þátttakendur í því sem fram fer.
Þessar samkomur munu styrkja bönd foreldra og barna og systkina, sem og vera vettvangur foreldra til að aðvara börn sín, veita þeim leiðsögn og handleiðslu. Þau munu gefa börnum kost á að heiðra föður sinn og móður og sýna þakklæti fyrir blessanir heimilisins, svo að loforð Drottins þeim til handa megi bókstaflega uppfyllast og þau verði langlíf og hamingjusöm. …
Við … hvetjum unga fólkið til að vera heima við á þessu kvöldi og beina kröftum sínum að því að gera það uppbyggilegt, lærdómsríkt og áhugavert.
Við lofum hinum heilögu dásamlegum blessunum, ef þeir hlíta þessari leiðsögn. Kærleikur á heimilinu og hlýðni við foreldra munu aukast. Trú mun þroskast í hjörtum ungdóms Ísraels, og hann mun fá kraft til að berjast við ill áhrif og freistingar sem á sækja.
Ykkar bræður,
Joseph F. Smith
Anthon H. Lund
Charles W. Penrose
Æðsta forsætisráðið