2015
Hrein guðrækni
Apríl 2015


Hrein guðrækni

Óeigingjörn þjónusta – að gleyma sjálfum sér, bregðast við þörfum annarra og helga okkur þjónustu við aðra – hefur alltaf einkennt lærisveina Jesú Krists.

composite of different families

Teikning eftir Annie Henrie

Í Matteusarguðspjalli, 11. kapítula, kennir frelsarinn okkur þýðingarmikla lexíu af því sem hann sagði ekki er hann svaraði spurningu, sem lærisveinar Jóhannesar skírara lögðu fyrir hann:

„Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?

Jesús svaraði þeim: Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ (Matt 11:2–5).

Í stað þess að setja fram stutta kenningarlega skýringu um að „hann væri sá sem koma ætti,“ þá svaraði frelsarinn með því að benda á verk sín – fordæmi sitt um þjónustu.

Á aðalráðstefnu í apríl 2014 sagði öldungur Richard G. Scott í Tólfpostulasveitinni: „Við þjónum best föður okkar á himnum með því að hafa réttlát áhrif á aðra og þjóna þeim. Stórkostlegasta fordæmið sem verið hefur á jörðinni er frelsari okkar, Jesús Kristur.“1

Óeigingjörn þjónusta – að gleyma sjálfum sér, bregðast við þörfum annarra og helga okkur þjónustu við aðra – hefur alltaf einkennt lærisveina Jesú Krists. Benjamín konungur kenndi líka ríflega 100 árum fyrir fæðingu frelsarans: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar“ (Mósía 2:17).

Jakob brýnir fyrir okkur að „hrein guðrækni“ sé „að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra,“ er við þjónum öðrum (Jakbr 1:27). „Hrein guðrækni“ er meira en trúarjátning. Hún lætur verkin tala.

Elskið samferðafólk ykkar

Í miðjum júlímánuði 1984, aðeins viku eftir að ég og eiginkona mín, Carol, giftum okkur í Los Angeles musterinu í Kaliforníu, vorum við á leið til Utah, þar sem ég hugðist byrja starfsferilinn og Carol ljúka háskólamenntun sinni. Við ókum sitthvorum bílnum. Í bílunum tveimur fluttum við allar okkar eigur.

Þegar við vorum um það bil hálfnuð til Utah, ók Carol upp að hlið bílsins míns og gaf mér bendingu. Þetta var fyrir tíma farsíma og snjallsíma, SMS og Twitter. Ég sá á andlitssvip hennar í gegnum bílrúðuna að henni leið ekki vel. Með handahreyfingu sagðist hún geta haldið akstrinum áfram, en ég hafði áhyggjur af minni nýju brúður.

Þegar við komum að Beaver í Utah ók hún aftur upp að hlið mér og ég sá að hún þurfti að stoppa. Hún var veik og gat ekki haldið áfram. Við vorum með tvo bíla fulla af fötum og brúðargjöfum, en því miður áttum við litla peninga. Við höfum ekki ráð á hótelherbergi. Ég vissi ekki hvað til bragðs átti að taka.

Hvorugt okkar hafði komið áður til Beaver og því ókum við um í nokkrar mínútur, án þess að vita að hverju við leituðum, þar til ég sá almenningsgarð. Við lögðum í bílastæði garðsins og fundum skuggsælt tré, þar sem ég breiddi út teppi, svo Carol gæti hvílst.

Fáeinum mínútum síðar kom annar bíll og lagði í næstum autt bílastæðið, við hlið bílanna okkar beggja. Kona nokkur, sem var á svipuðum aldri og mæður okkar, steig út úr bílnum, spurði hvort eitthvað væri að og hvort hún gæti hjálpað. Hún sagðist hafa veitt okkur eftirtekt þegar hún ók hjá og fundið sig knúna til að gæta að okkur. Þegar við sögðum frá aðstæðum okkar, bauð hún okkur þegar að fylgja sér að heimili hennar, þar sem við gætum hvílt okkur eins lengi og við þyrftum.

Við vorum brátt í þægilegu rúmi í svölu kjallaraherbergi á heimili hennar. Þegar við höfum komið okkur fyrir, sagðist þessi dásamlega systir þurfa að sinna nokkrum erindum og að við yrðum ein í nokkra klukkutíma. Hún sagði að ef við værum svöng, væri okkur velkomið að fá okkur það sem við fyndum í eldhúsinu og bað okkur að loka útidyrahurðinni, ef við færum áður en hún kæmi aftur.

Eftir að Carol hafði fengið nauðsynlegan svefn, leið henni betur og við héldum áfram ferð okkar, án þess að fara í eldhúsið. Þegar við fórum, var þessi ljúfa kona enn fjarverandi. Okkur til armæðu, þá gleymdum við að skrifa hjá okkur heimilisfangið hennar og því gátum við ekki þakkað okkar miskunnsama samverja fyrir að hafa stoppað á ferði sinni og opnað heimili sitt fyrir bláókunnugum.

Þegar ég hugsa um þessa reynslu, koma orð Thomas S. Monson forseta í hug mér, sem geyma boð frelsarans um að „fara og gjöra hið sama“ (sjá Lúk 10:37), sem eiga við um alla menn: „Við getum ekki sannlega elskað Guð, ef við elskum ekki samferðafólk okkar í jarðlífinu.“2

Hvenær sem við mætum „samferðafólki“ – á vegum úti eða á heimilum okkar, á leikvellinum eða í skólanum – og leitum, sjáum og bregðumst við, verðum við líkari frelsaranum og blessum og þjónum öðrum í lífsferð okkar.

Leitum

drawing of woman praying

Teikning eftir Annie Henrie

Öldungur Neal A. Maxwell (1926–2004) í Tólfpostulasveitinni, kenndi:

„Ólíkt okkar hjartfólgna frelsara, þá getum við ekki friðþægt fyrir syndir mannkyns! Við getum vissulega ekki borið alla jarðneska sjúkdóma, veikleika og sorgir (sjá Alma 7:11–12).

Við getum samt, í smærri mæli þó, eins og Jesús hefur boðið, vissulega reynt að verða ‚alveg eins og [hann] er‘ (3 Ne 27:27).“3

Þegar við leitumst við að líkjast honum, af einlægri þrá til að blessa „samferðafólk okkar,“ mun okkur gefast kostur á að gleyma sjálfum okkur og lyfta öðrum. Slík tækifæri geta oft verið óþægileg og reyna á einlæga þrá okkar til að líkjast meira meistaranum, en hin undursamlega þjónusta og friðþæging hans var allt annað en þægileg. „Dýrð sé föðurnum eigi að síður,“ sagði hann, „og ég tæmdi [bikarinn] og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn” (K&S 19:19).

Þegar við leitumst við að líkjast frelsaranum meira, geta augu okkar opnast fyrir því sem við sáum ekki áður. Miskunnsami samverjinn okkar var nægilega næmur fyrir andanum til að bregðast við hugboði hans og hjálpa ókunnugum í neyð.

Sjáum

drawing of three children with lantern

Teikning eftir Annie Henrie

Að sjá með hinu andlega auga, er að sjá hlutina eins og þeir eru í raun og hina viðvarani neyð, sem við hefðum ekki tekið eftir að öðrum kosti. Í dæmisögunni um sauðina og hafrana, höfðu hvorki hinir „blessuðu,“ né hinir „bölvuðu“ séð frelsarann í þeim sem voru hungraðir, þyrstir, naktir eða í fangelsi. Við þessu lofi sögðu þeir: „Hvenær sáum vér þig?“ (Sjá Matt 25:34–44).

Aðeins þeir sem sáu með hinu andlega auga sáu neyðina og brugðust við til að hjálpa þeim sem þjáðust. Miskunnsami samverjinn okkar sá neyðina með hinu andlega auga.

Bregðumst við

drawing of older woman and young man

Teikning eftir Annie Henrie

Við kunnum að sjá neyðina umhverfis, en teljum okkur ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við og að framlag okkar sé ekki nægjanlegt. Þegar við leitumst við að verða eins og hann er, og sjáum neyð samferðafólks okkar, verðum við að reiða okkur á að Drottinn noti okkur og síðan að bregðast við.

Þegar Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn sáu þeir þar mann sem verið hafði „lami frá móðurlífi,“ er bað þá ölmusu (sjá Post 3:1–3). Svar Péturs er sérhverju okkar boð og fordæmi:

„Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!

Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp“ (Post 3:6–7).

Við getum brugðist við með því að gefa af tíma og hæfileikum okkar, mæla ljúf orð eða ljá breitt bak. Þegar við leitum og sjáum, verðum við leidd í aðstæður þar sem við getum brugðist við og blessað aðra. Okkar miskunnsami samverji brást við. Hún fór með okkur heim til sín og bauð okkur það sem hún átti. Hún sagði í raun: „Til endurgjalds á öllu því sem á ég til, þá gef ég þér.“ Það var einmitt það sem við þurftum.

Monson forseti kenndi þessar sömu reglur:

„Hvert okkar mun fara um eigin veg til Jeríkó í jarðlífsferð okkar. Hvað munið þið gera? Hvað mun ég gera? Mun ég ganga fram hjá þeim sem féll í hendur ræningjum og þarfnast minnar hjálpar? Munið þið gera það?

Mun ég sveigja fram hjá er ég sé hinn slasaða og heyri neyðarkall hans? Munið þið gera það?

Mun ég fremur vera sá sem sér, heyrir, staldrar við og hjálpar? Munið þið gera það?

Jesús vísaði okkur veginn: ‚Far þú og gjör hið sama.‘ Þegar við förum að þessu boði, mun ljúkast upp fyrir okkur eilíf víðsýni og óviðjafnanleg gleði.“4

Þegar við líkjumst meira frelsaranum, með því að leita, sjá og bregðat við, mun sannleikur þessara orða Benjamíns konungs taka að ljúkast upp fyrir okkur: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“ (Mósía 2:17).

Heimildir

  1. Richard G. Scott, „Ég hef gefið yður eftirdæmi,“ Aðalráðstefna, apríl 2014, 32.

  2. Thomas S. Monson, „Kærleikur – kjarni fagnaðarerindisins,“ Aðalráðstefna, apríl 2014, 91.

  3. Neal A. Maxwell, „Apply the Atoning Blood of Christ,“ Ensign, nóv. 1997, 22.

  4. Thomas S. Monson, „Your Jericho Road,“ Ensign, maí 1977, 71.