Veikleiki er ekki synd
Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.
Takmarkanir og vangeta eru ekki syndir og koma ekki í veg fyrir að við séum hrein og verðug andans.
„Er ég í raun verðug þess að fara í hús Guðs? Hvernig get ég orðið það, þar sem ég er ekki fullkomin?“
„Getur Guð í raun breytt veikleika mínum í styrk? Ég hef fastað og beðist fyrir í marga daga, til þess að fá lausn frá þessum vanda en allt er við það sama.“
„Á trúboðakrinum lifði ég af meiri trúfestu eftir fagnaðarerindinu en á öðrum tímum lífs míns, en var aldrei sem áður jafn meðvituð um eigin misbresti? Afhverju leið mér stundum illa, þegar ég var svo góð?“
Þegar við íhugum slíkar spurningar, er nauðsynlegt að skilja að þótt óhjákvæmilegt sé að syndin færi okkur fjær Guði, þá mætti segja það kaldnæðnislegt að veikleikar okkar geti fært okkur nær honum.
Greina á milli syndar og veikleika
Almennt lítum við á synd og veikleika sem misstóra dökka flekki á sálarklæðum okkar, brot sem eru misjöfn að alvarleika. Ritningarnar segja samt synd og veikleika vera eðlislega ólík, krefjast ólíkra úrlausna og geta mögulega haft ólíkar afleiðingar.
Flest erum við kunnugri syndinni en við viljum viðurkenna en hér er skilgreining hennar: Synd er að velja að óhlýðnast boðorðum Guðs eða breyta gegn ljósi Krists hið innra. Synd er að velja að treysta Satan, fremur en Guði, sem setur okkur í andstöðu við föður okkar. Ólíkt okkur, þá var Jesús Kristur algjörlega syndlaus og gat því friðþægt fyrir syndir okkar. Þegar við iðrumst af einlægni – sem er breyting hugarfars, hjartalags og verklags; að biðjast afsökunar eða játa misgjörð; bæta fyrir brotið, ef mögulegt er; og endurtaka ekki syndina aftur – getum við fengið aðgang að friðþægingu Jesú Krists, hlotið fyrirgefningu Guðs og orðið hrein aftur.
Hreinleiki er nauðsynlegur, því ekkert óhreint fær dvalið í návist Guðs. Ef markmið okkar er að verða jafn saklaus og þegar við fórum úr návist Guðs, væri betra að við hefðum legið áfram í vöggunni alla okkar ævi. Við komum til jarðar til að læra af eigin reynslu, að greina á milli góðs og ills, vaxa að visku og hæfileikum, lifa eftir kærum lífsgildum og rækta okkar guðlegu eiginleika – sem ekki er mögulegt í öryggi vöggunnar.
Mannlegir veikleikar gegna mikilvægu hlutverki í þessum nauðsynlega tilgangi jarðlífsins. Þegar Moróní hafði áhyggjur af því að veikleiki hans í ritmáli gæti orðið til þess að Þjóðirnar hæddust að því sem heilagt væri, fullvissaði Drottinn hann með þessum orðum:
„Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“ (Eter 12:27; sjá einnig 1 Kor 15:42–44; 2 Kor 12:7–10; 2 Ne 3:21; og Jakob 4:7).
Þetta kunnuga ritningarvers hefur djúpa merkingu, sem felst í því að við gerum greinarmun á synd (sem Satan hvetur til) og veikleika (sem lýst er sem ástandi sem Guð „gefur“ okkur).
Við getum skilgreint veikleika sem takmarkaðan vísdóm, kraft og heilagleika, sem fylgir hinu mannlega. Við fæðumst hjálparvana og ósjálfstæð, með ýmsa líkamlega vankanta og hneigðir. Við erum alinn upp af og erum samferða öðrum vanmáttugum jarðneskum mönnum, og kennsla, fordæmi og framkoma þeirra er ófullkomin og stundum beinlínis skaðleg. Í okkar vanmáttuga og jarðneska ástandi upplifum við líkamlega og tilfinningarlega sjúkdóma, hungur og þreytu. Við upplifum mannlegar tilfinningar, líkt og reiði, sorg og ótta. Okkur skortir visku, hæfni, úthald og styrk. Við tökumst á við allskyns freistingar.
Jesús Kristur gekkst undir hið jarðneska ástand til jafns við okkur, þótt hann væri syndlaus (sjá 2 Kor 13:4). Hann fæddist sem hjálparvana barn og var alinn upp af ófullkomnum foreldrum. Hann varð að læra að ganga, tala, starfa og umgangast aðra. Hann varð svangur og þreyttur, upplifði mannlegar tilfinningar og gat orðið sjúkur, þjáðst, blætt og dáið. Hann, sem „freistað var á allan hátt eins og vor en án syndar,“ gekkst undir jarðlífið, svo hann mætti „kynnast vanmætti“ okkar og vita hvernig okkur verður best liðsinnt í vanætti okkar (Hebr 4:15; sjá einnig Alma 7:11–12).
Við getum ekki iðrast af því að vera vanmáttug – og veikleikarnir sjálfir gera okkur ekki óhrein. Við getum ekki vaxið andlega nema við höfnum synd, en við getum heldur ekki vaxið andlega nema við viðurkennum okkar mannlega vanmáttuga ástand, tökumst á við það í auðmýkt og trú og lærum að treysta Guði í gegnum veikleika okkar. Þegar Moróní kvartaði yfir veikleika sínum í ritmáli, bauð Guð honum ekki að iðrast. Drottinn bauð honum öllu heldur að vera aumjúkur og trúa á Krist. Þegar við erum auðmjúk og trúföst, veitir Guð af náð sinni – ekki fyrirgefningu – til lausnar veikleikum okkar. Í Leiðarvísi að ritningunum er náð skilgreind sem kraftur frá Guði, sem gerir mönnum kleift að gera það sem við getum ekki gert á eigin spýtur (Sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Náð“) – og er hin rétta guðlega lausn sem við þurfum að nota til að „láta hið veika verða styrk“ okkar.
Iðka auðmýkt og trú
Allt frá upphafi í kirkjunni er okkur kennt umnauðsynlega þætti iðrunar en hvað þurfum við nákvæmlega að gera til að rækta auðmýkt og trú? Athugið eftirfarandi:
-
Ígrundið og biðjið. Þar sem við erum vanmáttug, er ekki víst að við áttum okkur á hvort við séum að fást við synd (sem krefst tafarlausrar og algjörrar breytingar hugafars, hjartalags og verklags) eða veikleika (sem krefst auðmýktar, stöðugrar vinnu, lærdóms og framfara). Hvernig við greinum þessa þætti getur byggst á uppeldi okkar og þroska. Það getur líka verið að einhver breytni sé bæði synd og veikleiki. Að segja að synd sé í raun veikleiki, er að réttlæta í stað þess að iðrast. Að segja að veikleiki séð synd, getur leitt til sektar, ásökunar og örvæntingar og uppgjafar á loforðum Guðs. Ígrundun og bænagjörð geta hjálpað okkur að greina þarna á milli.
-
Forgangsraða. Þar sem við erum vanmáttug, þá náum við ekki að breyta öllu í einu. Þegar við tökumst auðmjúk og trúföst á við okkar mannlegu veikleika, fáeina þætti í einu, þá getum við smám saman orðið vitrari, tamið okkur góðar venjur, orðið líkamlega og tilfinningarlega heilbrigðari og þolbetri og aukið traust okkar til Drottins. Guð getur hjálpað okkur að vita hvar byrja skal.
-
Ráðgera. Þar sem við erum vanmáttug, krefst það meira en réttlátrar þrár að styrkjast og líka mikillar sjálfsögunar. Við þurfum líka að ráðgera, læra af eigin mistökum, þróa betri úrræði, meta áætlun okkar og reyna aftur. Við þurfum hjálp ritningana, viðeigandi hjálparrita og annars fólks. Við byrjum hægt, fögnum framförum og tökum áhættur (jafnvel þótt við upplifum okkur berskjölduð og vanmáttug). Við þurfum stuðning til að auðvelda okkur að velja það sem gott er, jafnvel þótt við séum þreytt eða kjarklaus, og áætlun um hvernig á að leiðrétta stefnuna, ef okkur verður á.
-
Iðka þolinmæði. Breytingar geta tekið tíma, því við erum vanmáttug. Við afneitum ekki veikleikum okkar á sama hátt og við afneitum syndinni. Auðmjúkir lærisveinar gera fúslega það sem krafist er, eru þolgóðir, halda áfram að reyna og gefast ekki upp. Auðmýkt gerir okkur kleift að vera þolinmóð við okkur sjálf og aðra, sem líka eru vanmáttugir. Þolinmæði er staðfesting á trú okkar á Drottin, þakklæti fyrir traust hans á okkur og sýnir að við reiðum okkur á loforð hans.
Við verðum áfram vanmáttug, jafnvel þótt við iðrumst synda okkar, hljótum fyrirgefningu og verðum aftur hrein. Við verðum áfram háð sjúkdómum, tilfinningum, fávisku, hneigðum, ótta og freistingum. Takmarkanir og vangeta eru ekki syndir og koma ekki í veg fyrir að vera hrein og verðug andans.
Veikleiki að styrkleika
Satan reynir óðfús að nota veikleika okkar til að lokka okkur til syndar en Guð getur notað veikleika manna til að kenna, styrkja og blessa okkur. Þvert á það sem við kunnum að vænta eða vona, þá mun Guð ekki alltaf „láta hið veika verða styrk“ okkar með því að fjarlægja veikleika okkar. Þegar Páll postuli bað Guð þráfaldlega um að fjarlægja það sem hann sagði vera „fleinn í holdið,“ sem Satan notaði til að freista hans, þá sagði Guð við Pál: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ (2 Kor 12:7, 9).
Það er ótal margt sem Drottinn gerir til að „láta hið veika verða styrk.“ Þótt hann kunni að fjarlægja veikleika með þeirri áhrifaríku lækningu sem við vonumst til, þá er mín reynslu sú að það er fremur sjaldgjæft. Ég fæ til að mynda ekki séð neina staðfestingu á því að Guð hafi fjarlægt ritmáls veikleika Morónís, í framhaldi hins kunnuga vers í Eter 12. Guð kann líka að láta hið veika verða styrk okkar með því að hjálpa okkur að vinna í kringum veikleika okkar, sjá þá í réttu gamansömu samhengi eða breyta viðhorfi okkar gagnvart þeim og efla þá smám saman yfir ákveðinn tíma. Styrkleikar og veikleikar eru oft samtvinnaðir (líkt og styrkleikinn þrautseigja og veikleikinn þrjóska) og við getum lært að efla styrkleikann og draga úr veikleikanum sem samtvinnast honum.
Guð gerir líka annað, jafnvel enn áhrifaríkara, til að láta hið veika verða styrk okkar. Drottinn sagði við Moróní í Eter 12:37: „Vegna þess að þú hefur komið auga á veikleika þinn, skalt þú styrkur gjörður, já, til að setjast niður á þeim stað, sem ég hef fyrirbúið í híbýlum föður míns.“
Guð er hér ekki að bjóðast til að breyta veikleika Morónís, heldur til að breyta Moróní sjálfum. Með því að takast á við sinn mannlega veikleika, gat Moróní – og það á líka við um okkur – tileinkað sér kærleika, samúð, gæsku, þolinmæði, hugrekki, langlundargeð, visku, þolgæði, fyrirgefningu, þrautseigju, þakklæti, hugvitssemi og ótal aðrar dyggðir, sem gera okkur líkari föður okkar á himnum. Tilgangurinn með komu okkar til jarðarinnar er að tileinka okkur nákvæmlega þessa eiginleika, þá kristilegu eiginleika sem búa okkur undir híbýli himins.
Hvergi er kærleikur, viska og endurlausnarkraftur Guðs sýnilegri en í mætti hans til að nota baráttu okkar við mannlega veikleika til að gæða okkur ómetanlegum guðlegum dyggðum og styrk, sem gera okkur líkari honum.