2015
Monson forseti kallar eftir hugrekki
Apríl 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

Monson forseti kallar eftir hugrekki

diamond shape made up of fish with one orange fish in the center of black fish.

Teikning eftir iStock/Thinkstock

Varla líður klukkustund, sagði Thomas S. Monson forseti, án þess að við þurfum að velja á einhvern hátt.

Hann sagði að við þyrftum hugrekki til að taka réttar ákvarðanir – „hugrekki til að segja nei, hugrekki til að segja já. Ákvarðanir móta vissulega örlögin.“1

Í eftirfarandi útdrætti brýnir Monson forseti fyrir Síðari daga heilögum, að þeir þurfi að sýna hugrekki til að styðja sannleika og réttlæti, til að verja trú sína og standa gegn heimi sem hafnar eilífum gildum og reglum.

„Hugrekkis er stöðugt af okkur krafist,“ sagði hann. „Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða.“2

Hugrekki vekur velþóknun Guðs

„Við munum öll upplifa ótta, háðung og mótlæti. Megum við – sérhvert okkar – hafa hugrekki til að bjóða tíðarandanum birginn, hugrekki til að standa fast á því sem rétt er. Hugrekki, ekki málamiðlun, vekur bros og velþóknun Guðs. Hugrekki verður raunveruleg og tilvinnandi dyggð einsetji menn sér fremur að lifa siðsamlega, en að vera fúsir til að deyja karlmannlega. Þegar við sækjum fram og reynum að lifa eins og okkur ber að gera, munum við vissulega njóta hjálpar Drottins og finna huggun í orðum hans.“3

Sýna hugrekki í andstreymi

Hver er merking þess að standast? Þessi skilgreining er mér kær: Að sýna hugrekki í andstreymi. Hugrekki kann að vera nauðsynlegt trú ykkar; stundum er það nauðsynlegt til að hlýða. Þess verður vissulega krafist til að fá staðist fram að þeim degi er þið yfirgefið þessa dauðlegu tilveru.“4

Hafið hugrekki til að styðja sannleikann

„[Megið] þið hafa hugrekki til að styðja staðfastlega sannleika og réttlæti. Þar sem stefna samfélagsins er á skjön við gildin og reglurnar sem Drottinn hefur gefið, er næsta víst að við þurfum að koma trú okkar til varnar. Ef rætur vitnisburðar ykkar eru ekki sterkar, mun ykkur reynast erfitt að standast háð þeirra sem véfengja trú ykkar. Þegar vitnisburður um fagnaðarerindið, um frelsarann og föður okkar á himnum, er orðinn vandlega rótfastur, mun hann hafa áhrif á allt sem þið gerið í lífi ykkar.“5

Við þurfum siðferðisþrek og andlegt hugrekki

„Boðskapur sjónvarps, bíómynda og fleiri fjölmiðla er mjög oft í andstöðu við þann boðskap sem við óskum að börn okkar taki á móti og varðveiti. Við berum ekki aðeins þá ábyrgð að kenna þeim að halda sig fast að andanum og kenningunni, heldur einnig að hjálpa þeim við það, þrátt fyrir hin ytri öfl sem þau standa andspænis. Það krefst mikils tíma og fyrirhafnar af okkar hálfu – og til að geta hjálpað öðrum, þurfum við sjálf siðferðisþrek og andlegt hugrekki, til að fá staðist hið illa sem hvarvetna birtist.“6

Megum við ætíð vera hugrökk

„Í okkar daglega lífi er varla hægt að komast hjá því að reynt sé á trú okkar. Stundum finnst okkur við umkringd en vera samt í minnihlutahóp, eða jafnvel standa ein í málefnum hins ásættanlega eða óásættanlega. …

Megum við ætíð vera hugrökk og fús til að standa á eigin sannfæringu, og ef við neyðumst til að standa ein í baráttunni, megum við þá sýna hugrekki og tvíeflast í þeirri vitneskju að við erum í raun aldrei ein er við stöndum með föður okkar á himnum.“7

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „Réttindi, ábyrgð og afleiðing vals,“ Aðalráðstefna, okt. 2010, 75.

  2. Thomas S. Monson, „Kallað eftir hugrekki,“ Aðalráðstefna, apr. 2004, 55.

  3. Thomas S. Monson, „Ver þú hughraustur og öruggur,“ Aðalráðstefna, apr. 2014, 69.

  4. Thomas S. Monson, „Trúa, hlýða og standast,“ Aðalráðstefna, apr. 2012, 137.

  5. Thomas S. Monson, „Megið þið hafa hugrekki,“ Aðalráðstefna, apr. 2009, 126.

  6. Thomas S. Monson, „Þrjú markmið til leiðsagnar,“ Aðalráðstefna, okt. 2007, 131.

  7. Thomas S. Monson, „Þorum að standa einir,“ Aðalráðstefna, okt. 2011, 74.