Við verðum að fara strax til musterisins!
Mary Holmes Ewen, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Sunnudagsmorgun einn var nýlega skírður meðlimur kynntur í deild okkar. Hún heitir Lydia. Hún vann strax hug okkar og hjörtu.
Lydia var eldri kona og orðin blind af áralangri baráttu við sykursýki. Hún var fljót að bera kennsl á meðlimi deildarinnar af röddum þeirra og fótataki. Hún nefndi okkur með nafni, heilsaði okkur með handabandi og við minntumst aldrei á blindu hennar.
Eftir að Lydia hafði beðið í eitt ár, líkt og krafist var til að fá musterismeðmæli, hitti hún biskupinn og stikuforsetann og fékk þau. Sunnudag einn í Líknarfélaginu dró hún mig að sér og sagði: „Stikuforsetinn sagði að ég yrði að fara í musterið eins fljótt og hægt væri. Getur þú farið með mér?“
Þetta var í fyrstu viku desembermánaðar – miklar annir biðu okkar allra. Ég reyndi að afsaka mig og sagði: „Má það ekki bíða fram í janúar?“
„Nei, við verðum að fara strax!“
Kvennahópur í deildinni fór í musterið í hverjum mánuði og ég spurði hvort þær gætu farið í ferð með Lydiu. Þær voru líka önnum kafnar. Lydia hélt áfram og sagði tárvot að stikuforsetinn hafi sagt henni að fara eins fljótt og auðið var.
Við ákváðum því að fara allar hina 240 km ferð til musterisins í komandi viku. Á leiðinni var smárútan fyllt af átta blaðrandi vinkonum. Lydia var yfir sig glöð eftir að hafa upplifað musterið og tekið á móti musterisgjöf sinni.
Í fyrstu viku janúarmánaðar tók heilsu Lydiu að hraka og hún var send í sjúkrahús á gjörgæslu. Hún lést viku síðar. Lydia hafði samt með sér sínar eilífu blessanir, sem hún hafði hlotið í musterinu nokkrum vikum áður.
Ég sagði stikuforsetanum síðar frá ferð okkar til musterisins og hughrifum mínum yfir að hann hafi fundið sig knúinn til að segja Lydiu að fara strax til musterisins.
„Ég átti í raun ekki við að hún yrði að fara strax,“ sagði hann. „Ég hvet alla sem hljóta musterismeðmæli í fyrsta sinn að fara fljótt í musterið. Andinn talaði til Lydiu, ekki ég.“
Lydia kenndi okkur öllum að hlusta á andann og bregðast skjótt við. Ég er þakklát fyrir að hún minnti mig á hlusta á hina kyrrlátu og hljóðu rödd.