Trúboðskallanir
3. kafli: Lexía 1 – Boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists


„3. kafli: Lexía 1 – Boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„3. kafli: Lexía 1,“ Boða fagnaðarerindi mitt

3. kafli: Lexía 1

Boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists

Ljósmynd
Fyrsta sýnin

Fólk kann að hugsa með sér

  • Er Guð til?

  • Hvernig get ég fundið aukna nálægð við Guð?

  • Hvernig get ég lært sannleika í ruglingslegum heimi nútímans?

  • Hvernig gætu trúarbrögð hjálpað mér?

  • Af hverju er kirkjur svona margar?

  • Af hverju stend ég frammi fyrir svona mörgum áskorunum?

  • Hvernig get ég fundið frið á ólgutímum?

  • Hvernig get ég verið hamingjusamari?

  • Hvernig getur spámaður hjálpað heimi okkar tíma?

Frá upphafi heims hefur Guð opinberað börnum sínum fagnaðarerindið fyrir tilstilli spámanna. Hann hefur gert þetta í gegnum son sinn Jesú Krist. Í fornöld opinberaði Jesús fagnaðarerindið spámönnum eins og Adam, Nóa, Abraham og Móse. En margir höfnuðu því.

Fyrir tvö þúsund árum kenndi Jesús Kristur sjálfur fagnaðarerindi sitt og stofnaði kirkju sína. Fólk hafnaði jafnvel Jesú. Fljótlega eftir dauða hans varð mikið fráhvarf frá sannleika og kirkju Drottins. Fylling fagnaðarerindisins og prestdæmisvaldið voru ekki lengur á jörðinni.

Öldum síðar kallaði Guð annan spámann, Joseph Smith. Guð endurreisti fyllingu fagnaðarerindisins með honum og fól honum að skipuleggja kirkju Jesú Krists á ný.

Að hafa fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists á jörðinni, er ein af mestu blessunum okkar tíma. Fagnaðarerindið hjálpar okkur að svara mikilvægustu spurningum lífsins. Lifandi spámenn leiða okkur í gegnum krefjandi tíma. Prestdæmisvald Guðs er enn og aftur á jörðinni til að blessa börn hans.

Ljósmynd
trúboðar kenna fjölskyldu

Ábendingar um kennslu

Þessi hluti hefur að geyma sýnishorn af lexíudrögum til að hjálpa ykkur að undirbúa kennsluna. Hann hefur líka að geyma dæmi um spurningar og boð sem þið gætuð notað.

Þegar þið undirbúið ykkur fyrir kennslu, skuluð þið íhuga í bæn aðstæður og andlegar þarfir hvers og eins. Ákveðið hvað gagnlegast er að kenna. Búið ykkur undir að skilgreina hugtök sem fólk gæti ekki skilið. Skipuleggið í samræmi við hversu mikinn tíma þið hafið og munið að hafa lexíurnar stuttar.

Veljið ritningarvers til að nota þegar þið kennið. Lexíuhlutinn „Kenningarleg undirstaða“ hefur að geyma mörg gagnleg ritningarvers.

Íhugaðu hvaða spurningar skal spyrja þegar þið kennið. Ráðgerið að bjóða til að hvetja hvern einstakling til að bregðast við.

Leggið áherslu á fyrirheitnar blessanir Guðs og gefið vitnisburð ykkar um það sem þið kennið.

Það sem þið gætuð kennt fólki á 15 til 25 mínútum

Veljið eina eða fleiri af eftirfarandi reglum til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna aftan við þessi lexíudrög.

Guð er okkar kærleiksríki faðir á himnum

  • Guð er faðir okkar á himnum og við erum börn hans. Hann skapaði okkur í sinni mynd.

  • Guð þekkir okkur persónulega og elskar okkur.

  • Guð hefur dýrðlegan, fullkominn líkama af holdi og beinum.

  • Guð vill blessa okkur með friði og fyllingu gleði sem varir um alla eilífð.

  • Vegna þess að Guð elskar okkur, sendi hann son sinn Jesú Krist til að leysa okkur frá synd og dauða.

Guð opinberar fagnaðarerindið með spámönnum í hverri ráðstöfun

  • Guð kallar spámenn til að vera fulltrúar hans á jörðinni.

  • Til forna kallaði Guð spámenn eins og Adam, Nóa, Abraham og Móse.

  • Lifandi spámaður hlýtur opinberun frá Guði til að kenna og leiða okkur í dag.

Jarðnesk þjónusta og friðþæging Jesú Krists

  • Jesús Kristur er sonur Guðs.

  • Í jarðneskri þjónustu sinni kenndi Jesús fagnaðarerindi sitt og stofnaði kirkju sína.

  • Jesús kallaði tólf postula og veitti þeim vald til að leiða kirkju sína.

  • Við lok lífs síns friðþægði Jesús fyrir syndir okkar með þjáningum sínum í Getsemanegarðinum og með krossfestingunni. Jesús reis upp eftir dauða sinn.

  • Vegna friðþægingarfórnar Jesú, getum við hlotið fyrirgefningu og verið hreinsuð af syndum okkar þegar við iðrumst. Þetta færir okkur frið og gerir okkur kleift að snúa aftur til nærveru Guðs og hljóta fyllingu gleði.

  • Vegna upprisu Jesú, verðum við öll reist upp eftir dauða okkar. Þetta felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og lifa að eilífu.

Fráhvarfið

  • Eftir að postular Jesú dóu, varð mikið fráhvarf frá fagnaðarerindinu og kirkju Jesú Krists.

  • Á þessum tíma breytti fólk mörgum kenningum fagnaðarerindisins. Fólk breytti líka helgiathöfnum prestdæmisins, eins og skírninni. Prestdæmisvaldið og kirkjan sem Jesús hafði stofnað voru ekki lengur á jörðinni.

Endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists fyrir tilstilli Josephs Smith

  • Joseph Smith leitaðist við að vita hvaða kirkja væri hin sanna kirkja Guðs til að ganga í hana. Himneskur faðir og Jesús Kristur birtust honum árið 1820. Sá atburður er kallaður Fyrsta sýnin.

  • Guð kallaði Joseph Smith til að vera spámaður, á sama hátt og hann hafði kallað spámenn fyrri tíma.

  • Fagnaðarerindi Jesú Krists var endurreist fyrir milligöngu spámannsins Josephs Smith.

  • Aðrir himneskir sendiboðar endurreistu prestdæmið og Joseph var falið umboð til að skipuleggja kirkju Jesú Krists.

  • Jesús Kristur heldur áfram að leiða kirkju sína í dag með lifandi spámönnum og postulum.

Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist

  • Mormónsbók er ritning sem var skrifuð til forna af spámönnum í Ameríku. Joseph Smith þýddi hana með gjöf og krafti frá Guði.

  • Biblían og Mormónsbók vitna um þjónustu Jesú, kenningar hans og hlutverk hans sem frelsara okkar.

  • Við getum komist nær Guði með því að lesa Mormónsbók og fara eftir tilmælum hennar.

  • Við getum vitað að Mormónsbók er orð Guðs með því að lesa hana, ígrunda hana og biðja varðandi hana. Það ferli mun líka auðvelda okkur að komast að því að Joseph Smith var spámaður.

Biðjið til að þekkja sannleikann fyrir heilagan anda

  • Bæn er tvíhliða samskipti á milli Guðs og barna hans.

  • Með einlægri bæn getum við vitað að boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists er sannur.

  • Þegar við biðjum, kennir heilagur andi okkur sannleikann og staðfestir hann fyrir okkur.

Ljósmynd
trúboðar að kenna piltum

Spurningar sem þið gætuð spurt fólk

Eftirfarandi spurningar eru dæmi um það sem þið gætuð spurt fólk. Þessar spurningar geta hjálpað ykkur að eiga innihaldsríkar umræður og skilja þarfir og sjónarhorn einstaklings.

  • Hverju trúir þú um Guð?

  • Hvernig myndi það hjálpa þér að finna nálægð Guðs?

  • Hvað veist þú um Jesú? Hvernig hefur líf hans og kenningar haft áhrif á þig?

  • Hvernig finnur þú áreiðanleg svör í ruglingslegum heimi nútímans?

  • Hvernig myndi það hjálpa þér að vita að það er lifandi spámaður á jörðinni í dag?

  • Hefur þú heyrt um Mormónsbók? Megum við segja þér frá ástæðu þess að hún er mikilvæg?

  • Myndir þú vilja segja frá trú þinni varðandi bæn? Megum við segja frá trú okkar varðandi bæn?

Boð sem þið gætuð sett fram

  • Vilt þú biðja Guð í bæn um að hjálpa þér að vita að það sem við höfum kennt er sannleikur? (Sjá „Kennsluinnsýn: Bæn“ í síðasta hluta þessarar lexíu.)

  • Vilt þú koma í kirkju á sunnudaginn til að læra meira um það sem við höfum kennt?

  • Vilt þú lesa Mormónsbók og biðjast fyrir til að vita að hún er orð Guðs? (Þið gætuð lagt til ákveðna kafla eða vers.)

  • Vilt þú fylgja fordæmi Jesú og láta skírast? (Sjá „Boðið um að láta skírast og vera staðfestur“ sem kemur strax á undan þessari lexíu.)

  • Getum við ráðgert tíma fyrir næstu heimsókn okkar?

Kenningarleg undirstaða

Þessi hluti hefur að geyma kenningu og ritningarvers sem þið getið lært til að auka þekkingu ykkar og vitnisburð um fagnaðarerindið og hjálpa ykkur að kenna.

Ljósmynd
fjölskylda

Guð er okkar kærleiksríki faðir á himnum

Guð er faðir okkar á himnum og við erum börn hans. Hann skapaði okkur í sinni mynd. Hann hefur dýrðlegan, fullkominn „líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er“ (Kenning og sáttmálar 130:22).

Guð þekkir okkur persónulega og hann elskar okkur meira en við fáum skilið. Hann skilur raunir okkar, sorgir og veikleika og býðst til að styðja okkur í gegnum það. Hann gleðst yfir framförum okkar og mun hjálpa okkur að velja rétt. Hann vill eiga samskipti við okkur og við getum átt samskipti við hann með bæn.

Guð hefur séð okkur fyrir þessari reynslu á jörðinni svo við getum lært, vaxið og orðið líkari honum. Af fullkominni elsku, vill hann að við snúum aftur til hans eftir að við deyjum. Við getum þó ekki gert þetta sjálf. Vegna þess að Guð elskar okkur, sendi hann son sinn Jesú Krist til að frelsa okkur. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf [son sinn eingetinn] … til þess að frelsa [heiminn]“ (Jóhannes 3:16–17).

Guð vill blessa okkur með friði og fyllingu gleði sem varir um alla eilífð. Hann hefur séð okkur fyrir áætlun sem gefur mögulegt að hljóta þessar blessanir. Þessi áætlun er kölluð sáluhjálparáætlunin (sjá lexíu 2).

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

Ljósmynd
Móse og töflurnar, eftir Jerry Harston

Guð opinberar fagnaðarerindið með spámönnum í hverri ráðstöfun

Spámenn eru fulltrúar Guðs á jörðu

Eitt af því mikilvæga sem Guð gerir til að sýna kærleika sinn til okkar, er að kalla spámenn, veita þeim prestdæmisvald og innblása þá til að mæla fyrir sína hönd. Spámenn eru fulltrúar Guðs á jörðu. Amos, spámaður Gamla testamentisins, ritaði: „Drottinn Guð gerir ekkert án þess að opinbera fyrirætlun sína fyrir þjónum sínum, spámönnunum“ (Amos 3:7). Nokkrar blessananna sem við hljótum frá lifandi spámönnum eru tilgreindar hér á eftir.

Vitni um Jesú Krist. Spámenn eru sérstök vitni um Jesú Krist, sem vitna um hann sem frelsara okkar og lausnara.

Kenningar. Spámenn fá leiðsögn frá Guði til að hjálpa okkur að greina sannleika frá villu. Þeir kenna okkur að hlýða boðorðum Guðs og iðrast þegar okkur verður á. Þeir fordæma syndina og vara við afleiðingum hennar.

Kenningar spámanna lyfta okkur í átt til Guðs og hjálpa okkur að hljóta þær blessanir sem hann þráir fyrir okkur. Mesta öryggið er fólgið í því að tileinka sér orð Drottins, sem gefin eru með spámönnum hans.

Prestdæmisvald. Núverandi spámaður er ráðandi prestdæmishafi á jörðinni. Prestdæmið er valdsumboð og kraftur Guðs. Spámaðurinn hefur vald til að mæla og framkvæma í nafni Guðs, börnum hans til sáluhjálpar.

Kirkjuleiðsögn. Kirkja Jesú Krists er byggð á grundvelli spámanna og postula (sjá Efesusbréfið 2:19–20; 4:11–14).

Spámenn á fornum tímum

Adam var fyrsti spámaðurinn á jörðinni. Guð opinberaði honum fagnaðarerindi Jesú Krists og veitti honum prestdæmisvald. Adam og Eva kenndu börnum sínum þennan sannleika og hvöttu þau til að öðlast trú og lifa eftir fagnaðarerindinu.

Að lokum gerðu afkomendur Adams og Evu uppreisn og hurfu frá fagnaðarerindinu. Þetta leiddi til ástands sem kallast fráhvarf. Þegar víðtækt fráhvarf á sér stað, afturkallar Guð prestdæmisvald sitt, sem er nauðsynlegt til að kenna og þjónusta helgiathafnir fagnaðarerindisins.

Gamla testamentið skráir mörg dæmi um víðtækt fráhvarf. Til að binda enda á þessi tímabil, kom Guð á sambandi við börn sín með því að kalla annan spámann. Hann opinberaði þessum spámönnum sannleika fagnaðarerindisins að nýju og veitti þeim prestdæmisvald. Sumir þessara spámanna voru Nói, Abraham og Móse. Því miður, í endurteknu mynstri með tímanum, hafnaði fólk að lokum spámönnunum og varð fráhverft.

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

  • Leiðarvísir að ritningunum: „Spámaður

  • Gospel Topics: „Prophets,“ „Restoration of the Church

Ljósmynd
Ó, faðir minn, eftir Simon Dewey

Jarðnesk þjónusta og friðþæging Jesú Krists

Jesús Kristur er sonur Guðs. Jesús og friðþæging hans eru kjarni áætlunar Guðs fyrir okkur. Friðþæging hans fól í sér þjáningar hans í Getsemanegarðinum, þjáningar hans og dauða á krossinum og upprisu hans.

Frá tímum Adams og Evu vænti fólk komu Jesú Krists sem frelsara þess og lausnara. Himneskur faðir sendi Jesú til jarðar fyrir meira en 2.000 árum.

Jesús lifði fullkomnu, syndlausu lífi. Hann kenndi fagnaðarerindi sitt og stofnaði kirkju sína. Hann kallaði tólf postula og veitti þeim prestdæmisvald til að kenna og framkvæma helgiathafnir, eins og skírn. Hann veitti þeim líka vald til að leiða kirkju sína.

Við lok lífs síns friðþægði Jesús fyrir syndir okkar með þjáningum sínum í Getsemanegarðinum og með krossfestingunni. Við getum orðið hrein af syndum okkar þegar við iðrumst, vegna friðþægingarfórnar Jesú Krists. Það gerir okkur mögulegt að snúa aftur í návist Guðs og hljóta fyllingu gleði.

Eftir að Jesús var krossfestur reis hann upp og vann sigur á dauðanum með krafti himnesks föður. Vegna upprisu Jesú, verðum við öll reist upp eftir dauða okkar. Þetta felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun lifa ævarandi í fullkomnum, upprisnum líkama. (Sjá „Friðþæging Jesú Krists“ í lexíu 2.)

Ljósmynd
Spámaðurinn Joseph Smith

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins, og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith, [2007], 49).

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

Fráhvarfið

Eftir dauða Jesú Krists reyndu postular hans að halda kenningu Krists hreinni og viðhalda reglu í kirkjunni. Hins vegar sneru margir kirkjumeðlimir frá postulunum og frá þeirri kenningu sem Jesús hafði kennt.

Eftir að postular Jesú dóu, varð víðtækt fráhvarf frá fagnaðarerindinu og kirkju Jesú Krists. Þetta fráhvarf er stundum kallað fráhvarfið mikla. Vegna þess dró Guð prestdæmisvaldið til baka af jörðinni. Þessi missir fól í sér það vald sem þurfti til að stjórna kirkjunni. Þess vegna var kirkjan sem Jesús hafði stofnað ekki lengur á jörðinni.

Á þessum tíma breytti fólk mörgum kenningum fagnaðarerindisins. Stór hluti þekkingarinnar um hið sanna eðli himnesks föður, Jesú Krists og heilags anda hafði brenglast eða glatast. Fólk breytti líka helgiathöfnum prestdæmisins, eins og skírninni.

Öldum síðar reyndu sannleiksleitandi karlar og konur að endurbæta kenningar og trúariðkanir sem hafði verið breytt. Þau leituðu skærara andlegs ljóss og sum þeirra kváðu á um þörfina á endurreisn sannleikans. Viðleitni þeirra leiddi til stofnunar margra kirkna.

Þetta tímabil leiddi til aukinnar áherslu á trúfrelsi, sem opnaði leið fyrir endurreisn sannleika og valds frá Guði.

Spámenn og postular höfðu sagt frá fráhvarfinu (sjá 2. Þessaloníkubréf 2:1–3). Þeir höfðu líka spáð fyrir um að fagnaðarerindi og kirkja Jesú Krists yrðu endurreist á jörðu (sjá Postulasagan 3:20–21). Ef fráhvarf hefði ekki orðið, hefði ekki verið þörf á endurreisn.

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

Endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists fyrir tilstilli Josephs Smith

Fyrsta sýnin og köllun Josephs Smith sem spámanns

Á þeim öldum þegar fylling fagnaðarerindis Jesú Krists var ekki á jörðinni, hélt himneskur faðir áfram að ná til barna sinna. Með tímanum fyrirbjó hann leiðina svo þau gætu aftur hlotið blessun með fyllingu fagnaðarerindis hans. Þegar aðstæður voru réttar kallaði hann Joseph Smith sem spámann og endurreisti fagnaðarerindið og kirkju Jesú Krists fyrir hans milligöngu.

Joseph Smith bjó í austurhluta Bandaríkjanna á tímabili mikils trúarlegs áhuga. Meðlimir fjölskyldu hans voru hollir Guði og leituðu sannleikans. Margar kirkjur sögðust vera með sannleikann og Joseph þráði að vita hver hefði rétt fyrir sér (sjá Joseph Smith – Saga 1:18). Biblían kennir að „einn er Drottinn, ein trú, ein skírn“ (Efesusbréfið 4:5). Þegar Jósef sótti hinar ýmsu kirkjur, varð hann ráðvilltur yfir því í hverja hann ætti að ganga. Hann sagði síðar:

„Glundroði og barátta var svo hörð á meðal hinna ýmsu safnaða, að ógerningur var fyrir jafn ungan mann og mig … að komast að nokkurri öruggri niðurstöðu um það, hverjir hefðu rétt fyrir sér og hverjir rangt. …

Ég sagði oft við sjálfan mig í miðri þessari orrahríð orða og deilna: Hvað á ég að gera? Hver af öllum þessum flokkum hefur rétt fyrir sér, eða skjátlast þeim öllum? Hafi einhver þeirra rétt fyrir sér, hver er það þá og hvernig get ég vitað það?“ (Joseph Smith – Saga 1:8, 10).

Eins og margir, hafði Joseph Smith líka spurningar um hjálpræði sálar sinnar. Hann vildi hljóta fyrirgefningu synda sinna og verða hreinn frammi fyrir Guði. Þegar hann leitaði sannleika meðal hinna ýmsu kirkna, las hann í Biblíunni: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið“ (Jakobsbréfið 1:5).

Vegna þessa ritningarvers, ákvað Joseph að spyrja Guð hvað hann ætti að gera. Vorið 1820 fór hann í trjálund einn nærri heimili sínu og kraup í bæn. Fjórar frásagnir af sýninni fylgdu í kjölfarið, skráðar af Joseph Smith eða af fræðimönnum undir hans leiðsögn (sjá Gospel Topics Essays, „First Vision Accounts“). Í frásögninni sem er í ritningunni greindi hann frá upplifun sinni á eftirfarandi hátt:

Ljósmynd
Fyrsta sýnin, eftir Lindu Christensen og Michael Malm

„Ég sá ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig. … Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina: Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith—Saga 1:16–17).

Í þessari sýn birtust Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, Joseph Smith. Frelsarinn bauð honum að ganga ekki í neina kirknanna.

Í annarri frásögn um þessa sýn sagði Joseph frá því að frelsarinn hefði líka sagt við sig: „Syndir þínar eru þér fyrirgefnar. … Sjá, ég er Drottinn dýrðar. Ég var krossfestur fyrir heiminn, svo að allir þeir sem trúa á nafn mitt mega öðlast eilíft líf.“

Eftir sýnina hugsaði Joseph: „Sál mín fylltist kærleika og í marga daga gat ég fagnað af mikilli gleði og Drottinn var með mér“ (Joseph Smith History, circa Summer 1832, 3, josephsmithpapers.org; stafsetning og greinarmerki færð í nútímahorf).

Með þessari sýn varð Joseph Smith vitni um Jesú Krist og lærði mikilvægan sannleika um Guðdóminn. Hann lærði til dæmis að himneskur faðir og Jesús Kristur væru aðskildar verur. Þegar þeir kölluðu hann með nafni vissi hann að þeir þekktu hann persónulega. Þegar Joseph var sagt að honum væri fyrirgefið, komst hann að því að Guð var miskunnsamur. Þessi upplifun fyllti hann gleði.

Líkt og Guð hafði gert við marga fyrri spámenn, kallaði hann Joseph Smith sem spámann til að endurreisa fyllingu fagnaðarerindisins á jörðu. Þessi endurreisn myndi hjálpa börnum Guðs að upplifa gleði í þessum heimi og eilíft líf í komandi heimi – allt fyrir milligöngu Jesú Krist.

Endurreisn prestdæmisins og prestdæmislykla

Ljósmynd
Yður, samþjónum mínum, veiti ég, eftir Lindu Curley Christensen og Michael Malm

Eftir birtingu föðurins og sonarins, voru aðrir himneskir sendiboðar sendir til Josephs Smith og félaga hans Olivers Cowdery. Jóhannes skírari birtist sem upprisin vera og veitti þeim Aronsprestdæmið og lykla þess. Aronsprestdæmið felur í sér valdsumboð til að skíra.

Ljósmynd
Rödd Péturs, Jakobs og Jóhannesar, eftir Welden C. Andersen

Skömmu síðar birtust Pétur, Jakob og Jóhannes – þrír af upprunalegu postulum Krists – sem upprisnar verur og veittu Joseph Smith og Oliver Cowdery Melkísedeksprestdæmið og lykla þess. Þetta prestdæmi er sama vald og Kristur veitti postulum sínum til forna.

Ljósmynd
Image of Moses Elias and Elijah descending into the Kirtland temple and appearing to Joseph Smith.

Í Kirtland-musterinu birtust Móse, Elías og Elía Joseph Smith og Oliver Cowdery og fólu þeim frekara vald og prestdæmislykla sem nauðsynlegt er til að framkvæma verk Guðs á síðari dögum. Móse veitti lyklana að samansöfnun Ísraels. Elías innleiddi ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams. Elía veitti lykla innsiglunarvaldsins. (Sjá Kenning og sáttálar 110:11–16; sjá einnig Almenn handbók, 3.1.)

Skipulag kirkjunnar

Joseph Smith var leiðbeint að skipuleggja kirkju Jesú Krists aftur á jörðinni. Fyrir hans milligöngu kallaði Jesús Kristur tólf postula.

Spámenn á biblíutímum vísuðu til þess tíma sem við lifum á sem síðustu daga eða síðari daga. Það er tíminn stuttu fyrir síðari komu Jesú Krists. Þess vegna er kirkjan nefnd Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu (sjá Kenning og sáttmálar 115:3–4; sjá einnig 3. Nefí 27:3–8).

Lifandi spámenn og postular okkar tíma

Rétt eins og Jesús kallaði postula í jarðneskri þjónustu sinni til að leiða kirkju sína, hefur hann kallað postula til að leiða hana í dag. Þeir sem skipa Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitina eru spámenn, sjáendur og opinberarar.

Aðeins sá postuli sem hefur starfað lengst er kallaður spámaðurinn, vegna þess að hann stjórnar allri kirkjunni og hefur sérstakt vald til að mæla fyrir munn Drottins. Hann er viðurkenndur eftirmaður Josephs Smith. Hann og núverandi postular rekja vald sitt til Jesú Krists í óbrotinni vígslukeðju sem hófst þegar Joseph Smith var vígður með handayfirlagningu himneskra sendiboða.

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist

Mormónsbók er forn og helg ritning, líkt og Biblían. Biblían er eitt vitni um Jesú Krist og Mormónsbók er annað vitni um þjónustu hans, kenningar hans og hlutverk hans sem frelsara okkar.

Joseph Smith var leiðbeint af himneskum sendiboða að nafni Moróní að hæð nokkurri þar sem forn heimild hafði verið grafin um aldir. Þessi heimild, áletruð á gullplötur (þunn málmblöð), hafði að geyma ritmál spámanna um samskipti Guðs við suma forna íbúa Ameríku. Joseph Smith þýddi þessa heimild með gjöf og krafti frá Guði.

Spámennirnir í Mormónsbók vissu um hlutverk Jesú Krists og kenndu fagnaðarerindi hans. Eftir upprisu Jesú, birtist hann fólkinu þar og þjónaði því persónulega. Hann kenndi því og stofnaði kirkju sína.

Mormónsbók hjálpar okkur að upplifa nálægð Guðs, er við lærum, skiljum og tileinkum okkur kenningar hennar. Spámaðurinn Joseph Smith sagði um Mormónsbók að „maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum [bókarinnar], fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (Kenningar: Joseph Smith, 63).

Ljósmynd
maður les

Til að komast að því að Mormónsbók er orð Guðs, þurfum við að lesa hana, ígrunda hana og biðja vegna hennar. Spámaður Mormónsbókar lofaði að Guð myndi opinbera okkur sannleika bókarinnar þegar við bæðumst fyrir af einlægu hjarta og einlægum ásetningi og í trú á Krist (sjá Moróní 10:3–5). Nám í Mormónsbók er nauðsynlegt til varanlegrar trúarumbreytingar.

Þegar við lesum Mormónsbók og biðjum varðandi hana, munum við læra sannindi um Jesú Krist sem munu blessa líf okkar. Við munum líka komast að því að Joseph Smith var spámaður Guðs og að fagnaðarerindi og kirkja Jesú Krists hafa verið endurreist fyrir tilstilli hans.

Ljósmynd
Russell M. Nelson forseti

„Ég lofa, ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir – daglega. Ég lofa að er þið íhugið það sem þið lærið, þá munu gáttir himins opnast og þið munið hljóta svör við spurningum ykkar og leiðsögn fyrir líf ykkar. Ég lofa ykkur því að er þið sökkvið ykkur daglega í Mormónsbók, þá getið þið verið vernduð gegn vonsku þessara tíma, þar á meðal hinni grípandi plágu kláms og annara deyfandi fíkna“ (Russell M. Nelson, „Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?,“ aðalráðstefna, október 2017).

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

  • Leiðarvísir að ritningunum: „Mormónsbók

  • Gospel Topics: „Book of Mormon

Ljósmynd
biðjandi kona

Biðjið til að þekkja sannleikann fyrir heilagan anda

Guð mun hjálpa okkur að þekkja sannleikann af því að hann er faðir okkar. Við getum vitað að boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists er sannur þegar við lesum Mormónsbók og biðjum til Guðs. Þegar við biðjumst fyrir í trú og af einlægum ásetningi, mun hann svara spurningum okkar og veita okkur leiðsögn.

Guð svarar yfirleitt bænum okkar með heilögum anda. Þegar við biðjumst fyrir, kennir og staðfestir heilagur andi sannleikann. Áhrifamáttur heilags anda er mikill þegar hann tjáir sig. Hann kemur yfirleitt sem hljóðlát fullvissa í gegnum tilfinningar okkar, hugsanir og hughrif (sjá 1. Konungabók 19:11–12; Helaman 5:30; Kenning og sáttmálar 8:2).

Stöðugt nám í ritningunum (einkum í Mormónsbók), vikuleg mæting á sakramentissamkomur og einlægar bænir gera okkur mögulegt að skynja kraft heilags anda og uppgötva sannleikann.

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

  • Leiðarvísir að ritningunum: „Bæn

  • Bible Dictionary: „Prayer

  • Gospel Topics: „Prayer

Stutt til miðlungs lexíudrög

Eftirfarandi lexíudrög eru dæmi um það sem þið gætuð kennt einhverjum ef þið hafið aðeins stuttan tíma. Þegar þið notið þessi lexíudrög, skuluð þið velja eina eða fleiri reglur til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna framar í þessum lexíudrögum.

Spyrjið spurninga og hlustið er þið kennið. Leggið fram boð sem hjálpa fólki að læra hvernig vaxa á nær Guði. Mikilvægt er að bjóða viðkomandi að hitta ykkur aftur. Lengd kennslunnar fer eftir spurningunum sem þið spyrjið og hlustun ykkar.

Ljósmynd
trúboðar ræða við mann

Það sem þið getið kennt fólki á 3 til 10 mínútum

  • Guð er faðir okkar á himnum og skapaði okkur í sinni mynd. Hann þekkir okkur persónulega og elskar okkur. Hann vill blessa okkur með friði og fyllingu gleði sem varir um alla eilífð.

  • Jesús Kristur er sonur Guðs. Hlutverk hans var að gera okkur mögulegt að hreinsast af syndum okkar, sigrast á dauðanum og hljóta eilíft líf.

  • Guð kallar spámenn til að vera fulltrúar hans á jörðinni. Til forna kallaði hann spámenn eins og Adam, Nóa, Abraham og Móse. Lifandi spámaður hlýtur opinberun frá Guði til að kenna og leiða okkur í dag.

  • Jesús stofnaði kirkju sína í jarðneskri þjónustu sinni. Eftir að postular Jesú dóu, varð mikið fráhvarf frá fagnaðarerindinu og kirkju Jesú Krists. Fólk breytti mörgum kenningum fagnaðarerindisins og helgiathöfnum prestdæmisins, svo sem skírninni.

  • Guð kallaði Joseph Smith til að vera spámaður, á sama hátt og hann hafði kallað spámenn fyrri tíma. Himneskur faðir og Jesús Kristur birtust honum. Fagnaðarerindi Jesú Krists var endurreist fyrir hann.

  • Mormónsbók er ritning. Líkt og Biblían, er hún vitnisburður um Jesú Krist og hjálpar okkur að finna nálægð Guðs þegar við lesum hana og förum eftir tilmælum hennar. Joseph Smith þýddi hana með gjöf og krafti frá Guði.

  • Við getum átt samskipti við Guð með einlægri bæn. Við getum vitað að boðskapurinn um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists er sannur.

Prenta