Trúboðskallanir
3. kafli: Lexía 3 – Fagnaðarerindi Jesú Krists


„3. kafli: Lexía 3 – Fagnaðarerindi Jesú Krists,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„3. kafli: Lexía 3,“ Boða fagnaðarerindi mitt

3. kafli: Lexía 3

Fagnaðarerindi Jesú Krists

Ljósmynd
Síðari koman, eftir Harry Anderson

Fólk kann að spyrja sig

  • Hver er Jesús Kristur? Hvernig getur hann hjálpað mér og fjölskyldu minni?

  • Hvað felst í því að trúa á Jesú Krist? Hvernig getur það blessað líf mitt að trúa á hann?

  • Hvað er að iðrast?

  • Hvernig get ég fundið frið og fyrirgefningu Guðs eftir að hafa tekið slæmar ákvarðanir?

  • Hver er tilgangurinn með skírn?

  • Hvað er gjöf heilags anda?

  • Hvað felst í því að standast allt til enda?

Fagnaðarerindi Jesú Krists er leiðin til Krists. Það er svo einfalt að barn fær skilið það. Þessi lexía fjallar um fagnaðarerindið og kenningu Krists, það á meðal trú á Jesú Krist, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og að standast allt til enda. Hún tilgreinir líka hvernig fagnaðarerindið blessar öll börn Guðs.

Orðið fagnaðarerindi merkir í raun „góð tíðindi“. Fagnaðarerindi Jesú Krists eru góð tíðindi vegna þess að í því er kenningin – hinn eilífi sannleikur – sem við þurfum til að koma til hans og frelsast (sjá 1. Nefí 15:14). Fagnaðarerindið kennir okkur hvernig við getum lifað góðu og innihaldsríku lífi. Hin góðu tíðindi fagnaðarerindisins eru að við getum hlotið fyrirgefningu synda, helgast og snúið aftur í návist Guðs.

Ábendingar um kennslu

Þessi hluti hefur að geyma sýnishorn af lexíudrögum til að hjálpa ykkur að undirbúa kennsluna. Hann hefur líka að geyma dæmi um spurningar og boð sem þið gætuð notað.

Þegar þið undirbúið ykkur fyrir kennslu, skuluð þið íhuga í bæn aðstæður og andlegar þarfir hvers og eins. Ákveðið hvað er gagnlegast að kenna. Búið ykkur undir að skilgreina hugtök sem fólk skilur kannski ekki. Skipuleggið í samræmi við hversu mikinn tíma þið hafið og munið að hafa lexíurnar stuttar.

Veljið ritningarvers til að nota þegar þið kennið. Lexíuhlutinn „Kenningarleg undirstaða“ hefur að geyma mörg gagnleg ritningarvers.

Íhugaðu hvaða spurningar skal spyrja þegar þið kennið. Ráðgerið að bjóða til að hvetja hvern einstakling til að bregðast við.

Leggið áherslu á fyrirheitnar blessanir Guðs og gefið vitnisburð ykkar um það sem þið kennið.

Ljósmynd
trúboðar kenna fjölskyldu

Það sem þið gætuð kennt fólki á 15 til 25 mínútum

Veljið eina eða fleiri af eftirfarandi reglum til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna aftan við þessi lexíudrög.

Hið guðlega hlutverk Jesú Krists

  • Guð sendi son sinn Jesú Krist til jarðar til að leysa okkur frá synd og dauða.

  • Við getum orðið hrein af syndum okkar og helgast þegar við iðrumst, vegna friðþægingarfórnar Jesú Krists.

  • Jesús reis upp eftir að hann var krossfestur. Vegna upprisu hans, munum við öll rísa upp eftir dauða okkar. Það felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun lifa ævarandi í fullkomnum, upprisnum líkama.

Trú á Jesú Krist

  • Trú er fyrsta frumregla fagnaðarerindis Jesú Krists.

  • Trú á Jesú Krist felur í sér að treysta því að hann sé sonur Guðs og að treysta á hann sem frelsara okkar og lausnara.

  • Trú á Jesú Krist er regla verka og kraftar.

  • Við styrkjum trú okkar með því að biðja, læra ritningarnar og hlýða boðorðunum.

Iðrun

  • Trú á Jesú Krist leiðir okkur til iðrunar. Iðrun er það ferli að snúa sér til Guðs og hverfa frá synd. Þegar við iðrumst breytast gjörðir okkar, langanir og hugsanir og verða meira í samræmi við vilja Guðs.

  • Þegar við iðrumst af einlægni, mun Guð fyrirgefa okkur. Fyrirgefning er möguleg vegna þess að Jesús Kristur friðþægði fyrir syndir okkar.

  • Þegar við iðrumst finnum við frið er við læknumst af sorg okkar og sekt.

  • Iðrun er ævilangt ferli. Guð tekur okkur fagnandi í hvert sinn sem við iðrumst. Hann mun aldrei gefast upp á okkur.

Skírn: Fyrsti sáttmáli okkar við Guð

  • Skírn er hvernig við fyrst göngum í sáttmálssamband við Guð.

  • Skírn er tvíþætt: skírn í vatni og skírn með anda. Þegar við erum skírð og staðfest erum við hreinsuð af syndum okkar, sem gerir okkur mögulegt að byrja að nýju í lífinu.

  • Við fylgjum fordæmi Jesú og erum skírð með niðurdýfingu.

  • Börn eru ekki skírð fyrr en þau eru átta ára gömul. Börn sem deyja fyrir þann aldur eru endurleyst með friðþægingu Jesú Krists.

  • Við meðtökum sakramentið í hverri viku í minningu um fórn Jesú og til að endurnýja sáttmála okkar við Guð.

Gjöf heilags anda

  • Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins.

  • Eftir skírn er okkur veitt gjöf heilags anda með helgiathöfn staðfestingar.

  • Þegar við hljótum gjöf heilags anda, getum við notið samfélags hans alla ævi ef við erum trú.

  • Heilagur andi helgar okkur, leiðir okkur, huggar okkur og hjálpar okkur að vita sannleikann.

Standast allt til enda

  • Að standast felur í sér að halda áfram að iðka trú á Krist á hverjum degi. Við höldum áfram að halda sáttmála okkar við Guð, iðrast, leita samfélags heilags anda og meðtaka sakramentið.

  • Þegar við leitumst trúfastlega við að fylgja Jesú Kristi lofar Guð að við munum öðlast eilíft líf.

Fagnaðarerindi Jesú Krists blessar öll börn Guðs

  • Að lifa eftir fagnaðarerindinu, dýpkar gleði okkar, innblæs gjörðir okkar og auðgar sambönd okkar.

  • Við erum líklegust til að verða hamingjusöm – bæði sem einstaklingar og sem fjölskylda – þegar við lifum eftir kenningum Jesú Krists.

  • Fyrir tilstilli fagnaðarerindis Jesú Krists njóta fjölskyldur blessunar í þessu lífi og geta sameinast um eilífð og lifað í návist Guðs.

Spurningar sem þið gætuð spurt fólk

Eftirfarandi spurningar eru dæmi um það sem þið gætuð spurt fólk. Þessar spurningar geta hjálpað ykkur að eiga innihaldsríkar samræður og skilja þarfir og sjónarhorn einstaklings.

  • Hvað veist þú um Jesú?

  • Hvað merkir það fyrir þig að trúa á Jesú Krist?

  • Hvaða breytingar vilt þú gera á lífi þínu?

  • Hver er þinn skilningur á iðrun?

  • Hver er þinn skilningur á skírn? Hvað getur þú gert til að búa þig undir skírn?

  • Hvernig gæti heilagur andi hjálpað þér á ferðalagi þínu aftur í návist Guðs?

  • Hver er einhver áskorun sem þú eða fjölskylda þín stendur frammi fyrir? Viltu leyfa okkur að segja frá því hvernig fagnaðarerindi Jesú Krists gæti hjálpað?

Boð sem þið gætuð sett fram

  • Vilt þú biðja Guð í bæn um að hjálpa þér að vita að það sem við höfum kennt er sannleikur? (Sjá „Kennsluinnsýn: Bæn“ í aftasta hluta lexíu 1.)

  • Vilt þú koma í kirkju á sunnudaginn til að læra meira um það sem við höfum kennt?

  • Vilt þú lesa Mormónsbók og biðjast fyrir til að vita að hún er orð Guðs? (Þið gætuð lagt til ákveðna kafla eða vers.)

  • Vilt þú fylgja fordæmi Jesú og láta skírast? (Sjá „Boðið um að láta skírast og vera staðfestur“ sem kemur strax á undan lexíu 1.)

  • Getum við ráðgert tíma fyrir næstu heimsókn okkar?

Kenningarleg undirstaða

Þessi hluti hefur að geyma kenningu og ritningarvers sem þið getið lært til að auka þekkingu ykkar og vitnisburð um fagnaðarerindið og hjálpa ykkur að kenna.

Ljósmynd
Þessa tólf sendi Jesús út, eftir Walter Rane

Hið guðlega hlutverk Jesú Krists

Himneskur faðir sendi ástkæran son sinn, Jesú Krist, til jarðar til að gera okkur öllum mögulegt að upplifa gleði í þessum heimi og eilíft líf í komandi heimi. „Og þetta er fagnaðarerindið, … að [Jesús Kristur] kom í heiminn, … til að bera syndir heimsins, og til að helga heiminn og hreinsa hann af öllu óréttlæti — Svo að fyrir hann gætu allir … frelsast“ (Kenning og sáttmálar 76:40–42).

Sem dauðlegir menn syndgum við öll og deyjum öll. Synd og dauði myndu koma í veg fyrir að við hlytum eilíft líf með Guði, nema við hefðum lausnara (sjá 2. Nefí 9). Áður en heimurinn var skapaður, valdi himneskur faðir Jesú Krist til að endurleysa okkur. Í æðstu kærleikstjáningu, kom Jesús til jarðar og uppfyllti þetta guðlega hlutverk. Hann gerði okkur mögulegt að verða endurleyst frá syndum okkar og hann tryggði að við munum öll rísa upp eftir að við deyjum.

Jesús lifði syndlausu lífi. Í lok jarðneskrar þjónustu sinnar tók hann á sig syndir okkar með þjáningum sínum í Getsemane og þegar hann var krossfestur (sjá 1. Nefí 11:33). Þjáningar Jesú voru svo miklar að þær urðu til þess að hann „skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu“ (Kenning og sáttmálar 19:18). Eftir krossfestingu sína reis Jesús upp og sigraði dauðann. Sameiginlega mynda þessir atburðir friðþægingu Jesú Krists.

Syndir okkar gera okkur óhrein og „ekkert óhreint fær dvalið með Guði“ (1. Nefí 10:21). Auk þess krefst lögmál réttlætis afleiðinga fyrir syndir okkar.

Friðþægingarfórn Jesú veitir okkur leið til að verða hreinsuð af synd og helguð þegar við iðrumst. Það veitir líka leið til að fullnægja kröfum réttvísinnar (sjá Alma 42:15, 23–24). Frelsarinn sagði: „Ég … hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast – En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég“ (Kenning og sáttmálar 19:16–17). Ef ekki væri fyrir Jesú Krist, myndi synd binda enda á alla von um framtíðartilveru með himneskum föður.

Með því að bjóða sig sjálfan sem fórn fyrir okkur, aflétti Jesús ekki persónulegri ábyrgð okkar. Við þurfum að hafa trú á hann, iðrast og leitast við að hlýða boðorðunum. Þegar við iðrumst mun Jesús krefjast réttar síns til miskunnar föður síns fyrir okkar hönd (sjá Moróní 7:27–28). Vegna fyrirbænar frelsarans, fyrirgefur himneskur faðir okkur og léttir af okkur byrði og sekt synda okkar (sjá Mósía 15:7–9). Við erum andlega hreinsuð og getum að lokum verið boðin velkomin í návist Guðs.

Guðlegt hlutverk Jesú var líka að frelsa okkur frá dauða. Vegna þess að hann reis upp, munum við öll rísa upp eftir dauða okkar. Það felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun lifa ævarandi í fullkomnum, upprisnum líkama. Ef ekki væri fyrir Jesú Krist myndi dauðinn binda enda á alla von um framtíðartilveru með himneskum föður.

Ritningarnám

Guð sendi son sinn

Sáluhjálp fyrir tilstilli Jesú Krists

Læra meira um þessa reglu

Trú á Jesú Krist

Fyrsta frumregla fagnaðarerindisins er trú á Drottin Jesú Krist. Trú er undirstaða allra annarra trúarreglna.

Trú á Jesú Krist felur í sér fullvissu um að hann sé eingetinn sonur Guðs. Hún felur í sér að treysta á hann sem frelsara okkar og lausnara – að hann sé eina leið okkar til að snúa aftur í návist Guðs (sjá Postulasagan 4:10–12; Mósía 3:17; 4:6–8). Okkur er boðið að iðka „óbifanlega trú á hann og með því að treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa“ (2 Nefí 31:19).

Trú á Jesú Krist felur í sér að trúa að hann hafi þjáðst fyrir syndir okkar í friðþægingarfórn sinni. Við getum orðið hrein og verið endurleyst þegar við iðrumst, vegna friðþægingarfórnar Jesú Krists. Þessi hreinsun hjálpar okkur að finna frið og von í þessu lífi. Hún gerir okkur líka mögulegt að hljóta fyllingu gleði eftir að við deyjum.

Trú á Jesú Krist felur í sér að treysta að fyrir hann munum við öll rísa upp eftir að við deyjum. Þessi trú getur stutt okkur og huggað á tíma missis. Fyrirheitið um upprisuna getur sefað sorg yfir dauða.

Trú á Jesú Krist felur í sér að trúa og treysta því að hann hafi tekið á sig þrengingar okkar og veikleika (sjá Jesaja 53:3–5). Hann veit af eigin reynslu hvernig á að liðsinna af miskunn í gegnum áskoranir lífsins (sjá Alma 7:11–12; Kenning og sáttmálar 122:8). Þegar við iðkum trú hjálpar hann okkur að sækja fram í gegnum erfiðleika.

Fyrir trú okkar á Jesú, getur hann læknað okkur líkamlega og andlega. Hann er alltaf fús til að hjálpa okkur þegar við minnumst boðs hans: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki“ (Kenning og sáttmálar 6:36).

Regla verka og máttar

Trú á Jesú Krist leiðir til verka. Við tjáum trú okkar með því að hlýða boðorðunum og gera gott á hverjum degi. Við iðrumst synda okkar. Við sýnum honum hollustu. Við reynum að verða líkari honum.

Þegar við iðkum trú getum við upplifað kraft Jesú í daglegu lífi okkar. Hann mun efla bestu viðleitni okkar. Hann mun hjálpa okkur að vaxa og standast freistingar.

Styrkja trú okkar

Spámaðurinn Alma kenndi að trúaruppbygging geti hafist með einfaldri „löngun til að trúa“ (Alma 32:27). Síðan, til að trú okkar á Jesú Krist vaxi, þurfum við að rækta hana með því að læra orð hans, tileinka okkur kenningar hans og hlýða boðorðum hans. Alma kenndi að þegar við værum þolinmóð og nærðum orð Guðs af kostgæfni í hjörtum okkar, „þá [myndi] það festa rætur. Og sjá, það verður að tré, sem vex upp til ævarandi lífs“ – og styrkir þannig trú okkar (Alma 32:41; sjá vers 26–43).

Ritningarnám

Trú, máttur og sáluhjálp

Kenningin um trú

Fordæmi um trú

Verk og hlýðni

Trú til iðrunar

Læra meira um þessa reglu

Iðrun

Hvað er iðrun?

Iðrun er önnur frumregla fagnaðarerindisins. Trú á Jesú Krist og elska okkar til hans leiðir okkur til að iðrast (sjá Helaman 14:13). Iðrun er það ferli að snúa sér til Guðs og hverfa frá synd. Þegar við iðrumst breytast gjörðir okkar, langanir og hugsanir og verða meira í samræmi við vilja Guðs. Fyrirgefning synda er möguleg vegna Jesú Krists og friðþægingarfórnar hans.

Iðrun er miklu meira en að beita viljastyrk til að breyta hegðun eða sigrast á veikleika. Iðrun er að snúa sér af einlægni til Krists, sem veitir okkur mátt til að upplifa „gjörbreytingu“ í hjörtum okkar (Alma 5:12–14). Þegar við upplifum þessa hjartans breytingu, endurfæðumst við andlega (sjá Mósía 27:24–26).

Með iðrun þróum við nýja sýn á Guð, okkur sjálf og heiminn. Við finnum að nýju fyrir elsku Guðs til okkar sem börn hans – og kærleika frelsarans til okkar. Tækifærið til að iðrast er ein mesta blessun sem Guð hefur gefið okkur með syni sínum.

Ferli iðrunar

Þegar við iðrumst viðurkennum við syndir okkar og finnum fyrir einlægri eftirsjá. Við játum syndir okkar fyrir Guði og biðjum um fyrirgefningu hans. Við játum líka mjög alvarlegar syndir fyrir viðurkenndum kirkjuleiðtogum, sem munu styðja okkur þegar við iðrumst. Við gerum það sem í okkar valdi stendur til að bæta fyrir gjörðir okkar, sem þýðir að við reynum að leiðrétta vandann sem við kunnum að hafa valdið. Einlæg iðrun er best sýnd með réttlátum gjörðum yfir ákveðinn tíma.

Iðrun er daglegt ferli í gegnum lífið. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ (Rómverjabréfið 3:23). Við ættum stöðugt að iðrast og hafa í huga: „Allt megna ég fyrir hjálp [Krists] sem mig styrkan gerir“ (Filippíbréfið 4:13). Drottinn hefur fullvissað okkur: „Jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér“ (Mósía 26:30).

Blessanir iðrunar

Iðrun er jákvæð regla sem færir gleði og frið. Hún leiðir okkur „undir vald lausnarans til hjálpræðis sálum [okkar]“ (Helaman 5:11).

Þegar við iðrumst læknumst við af sekt og sorg í tímans rás. Við skynjum ríkulegar áhrif heilags anda. Þrá okkar til að fylgja Guði verður sterkari.

Ljósmynd
Russell M. Nelson forseti

„Of margir líta á iðrun sem refsingu – eitthvað sem forðast á … Sú tilfinning að verið sé að refsa manni, er af völdum Satans. Hann reynir að koma í veg fyrir að við lítum til Jesú Krists, sem stendur með útbreidda arma, vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga“ (Russell M. Nelson, „Við getum gert betur og orðið betriaðalráðstefna, apríl 2019).

Ritningarnám

Iðrun

Endurlausn og fyrirgefning

Miskunn fyrir þau sem iðrast

Læra meira um þessa reglu

Ljósmynd
stúlka skírð

Skírn: Fyrsti sáttmáli okkar við Guð

Trú á Jesú Krist og iðrun býr okkur undir helgiathafnir skírnar og staðfestingar. Skírn er fyrsta frelsandi frumregla fagnaðarerindis Jesú Krists. Þegar við meðtökum þá gleðilegu helgiathöfn vonar gerum við fyrsta sáttmála okkar við Guð.

Helgiathöfn er trúariðkun framkvæmd með valdsumboði prestdæmisins. Sumar helgiathafnir, eins og skírn, eru nauðsynlegar fyrir sáluhjálp okkar.

Með helgiathöfnum gerum við sáttmála við Guð. Þessir sáttmálar eru heilög fyrirheit milli okkar og Guðs. Hann lofar að blessa okkur þegar við höldum loforð okkar við hann. Við ættum að hafa sterka tilfinningu skuldbindingar um að standa við loforð okkar við Guð.

Guð hefur séð okkur fyrir helgiathöfnum og sáttmálum til að hjálpa okkur að koma til hans og öðlast eilíft líf. Þegar við tökum á móti helgiathöfnum prestdæmisins og höldum tilheyrandi sáttmála getum við upplifað „[kraft] guðleikans“ í lífi okkar (Kenning og sáttmálar 84:20).

Skírnarsáttmálinn

Frelsarinn kenndi að skírn væri okkur nauðsynleg til að komast í ríki Guðs (sjá Jóhannes 3:5). Það er líka nauðsynlegt fyrir okkur að verða meðlimir kirkju Jesú Krists. Frelsari okkar setti fordæmið með því að láta skírast (sjá Matteus 3:13–17).

Þegar við erum skírð og höldum sáttmála okkar, lofar Guð að fyrirgefa syndir okkar (sjá Postulasagan 22:16; 3. Nefí 12:1–2). Sú mikla blessun er möguleg með friðþægingarfórn Jesú Krists, sem „elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu“ (Opinberunarbókin 1:5). Guð lofar líka að blessa okkur með samfélagi heilags anda svo við getum verið helguð og notið leiðsagnar og huggunar.

Í okkar hluta skírnarsáttmálans vitnum við að við erum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists. Við lofum líka að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Við lofum að elska og þjóna öðrum, „syrgja með syrgjendum … hugga þá sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs alltaf, í öllu og alls staðar“ (Mósía 18:9; sjá vers 8–10, 13). Við tjáum skuldbindingu okkar um að þjóna Jesú Kristi allt til loka lífs okkar (sjá Kenning og sáttmálar 20:37; Mósía 2:17).

Sáttmálsskuldbindingar okkar í tengslum við skírn eru mikil ábyrgð. Þær eru líka hvetjandi og gleðilegar. Þær skapa sérstakt samband milli okkar og himnesks föður þar sem hann útvíkkar ævarandi kærleika sinn.

Skírn með niðurdýfingu

Jesús kenndi að við þurfum að láta skírast með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda okkar (sjá Kenning og sáttmálar 20:72–74). Skírn með niðurdýfingu er táknræn fyrir dauða, greftrun og upprisu Jesú Krists (sjá Rómverjabréfið 6:3–6).

Skírn með niðurdýfingu er líka áhrifamikil táknmynd fyrir okkur persónulega. Hún táknar dauða okkar gamla lífs, greftrun þess og upphaf okkar andlegu endurfæðingar. Þegar við erum skírð hefjum við ferli endurfæðingar og verðum andlegir synir og dætur Krists (sjá Mósía 5:7–8; Rómverjabréfið 8:14–17).

Börn

Börn er ekki skírð fyrr en þau ná ábyrgðaraldri, sem er við átta ára aldur (sjá Kenning og sáttmálar 68:27). Börn sem deyja fyrir þann aldur eru endurleyst með friðþægingu Jesú Krists (sjá Moróní 8:4–24; Kenning og sáttmálar 137:10). Áður en börn eru skírð, ætti að kenna þeim fagnaðarerindið svo þau séu undirbúin fyrir það mikilvæga skref í lífi sínu að gera sáttmála við Guð.

Sakramentið

Himneskur faðir vill að við séum trú sáttmálum þeim sem við gerum við hann. Til að hjálpa okkur að gera það, hefur hann boðið okkur að koma oft saman til að meðtaka sakramentið. Sakramentið er helgiathöfn prestdæmisins sem Jesús kynnti postulum sínum rétt fyrir friðþægingu sína.

Meðtaka sakramentisins er megintilgangur sakramentissamkoma í hverri viku. Brauð og vatn er blessað og útdeilt til safnaðarins. Brauðið táknar fórn frelsarans á líkama sínum fyrir okkur. Vatnið táknar blóð hans, sem hann úthellti fyrir okkur.

Við meðtökum sakramentið í minningu um fórn frelsarans og til að endurnýja sáttmála okkar við Guð. Við meðtökum að nýju loforðið um að andinn verði hjá okkur.

Ritningarnám

Fordæmi Krists

Skírnarsáttmálinn

Skilyrði skírnar

Fyrirheitnar blessanir skírnar

Nauðsyn valdsumboðs

Jesús innleiddi sakramentið

Sakramentisbænirnar

Meðtaka sakramentið

Læra meira um þessa reglu

Ljósmynd
Kristur setur hendur á konu

Gjöf heilags anda

Hljóta gjöf heilags anda

Skírnin er tvíþætt. Jesús kenndi að við þyrftum að „fæðast af vatni og anda“ til að komast í Guðs ríki (Jóhannes 3:5; skáletrað hér). Joseph Smith kenndi: „Skírn með vatni er aðeins annar hluti skírnar og er einskis virði án hins hlutans – sem er skírn með heilögum anda“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 95).

Skírninni verður að fylgja eftir með skírn andans svo að hún sé fullkomnuð. Þegar við meðtökum báða þætti skírnarinnar erum við hreinsuð af syndum okkar og endurfæðumst andlega. Við hefjum síðan upphaf nýs andlegs lífs sem lærisveinar Krists.

Við meðtökum skírn andans með helgiathöfn sem kallast staðfesting. Sú helgiathöfn er framkvæmd af einum eða fleiri prestdæmishöfum sem leggja hendur á höfuð okkar. Fyrst staðfesta þeir okkur sem meðlim kirkjunnar og veita okkur síðan gjöf heilags anda. Þetta er sama helgiathöfn og vísað er til í Nýja testamentinu og Mormónsbók (sjá Postulasagan 8:14–17; 3. Nefí 18:36–37).

Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins. Hann starfar í einingu með himneskum föður og Jesú Kristi. Þegar við hljótum gjöf heilags anda getum við notið samfélags hans alla ævi ef við erum trúföst.

Hvernig heilagur andi blessar okkur

Gjöf heilags anda er ein af dýrmætustu gjöfum himnesks föður. Heilagur andi hreinsar og helgar okkur, gerir okkur heilagri, fullgerðari, líkari Guði (sjá 3. Nefí 27:20). Hann hjálpar okkur að breytast og vaxa andlega er við leitumst við að fylgja tilmælum Guðs.

Heilagur andi hjálpar okkur að læra og þekkja sannleikann (sjá Moróní 10:5). Hann staðfestir líka sannleikann í hjarta og huga okkar. Heilagur andi hjálpar okkur líka að kenna sannleikann (sjá Kenning og sáttmálar 42:14). Þegar við lærum og kennum sannleikann með krafti heilags anda kemur hann honum til skila í hjarta okkar (sjá 2. Nefí 33:1).

Þegar við leitum auðmjúklega leiðsagnar frá heilögum anda mun hann leiðbeina okkur (sjá 2. Nefí 32:5). Í því felst líka að hann veitir okkur hughrif um hvernig við getum þjónað öðrum.

Heilagur andi veitir andlegan styrk til að hjálpa okkur að sigrast á veikleikum. Hann hjálpar okkur að standast freistingar. Hann getur varað okkur við andlegri og líkamlegri hættu.

Heilagur andi mun hjálpa okkur í gegnum áskoranir lífsins. Hann mun hugga okkur á tíma rauna eða sorgar og fylla okkur von (sjá Moróní 8:26). Fyrir tilstilli heilags anda getum við skynjað elsku Guð til okkar.

Ritningarnám

Eðli heilags anda

Blessanir og áhrif frá heilögum anda

Mikilvægi gjafar heilags anda

Læra meira um þessa reglu

Ljósmynd
Jesús heldur á börnum

Standast allt til enda

Þegar við erum skírð og staðfest, gerum við sáttmála við Guð. Við lofum meðal annars að halda boðorð hans og þjóna honum það sem eftir er ævinnar (sjá Mósía 18:8–10, 13; Kenning og sáttmálar 20:37).

Eftir að við erum komin inn á veg fagnaðarerindisins með skírn og staðfestingu, leggjum við allt kapp á að halda okkur á honum. Þegar við förum út af veginum, jafnvel bara örlítið, iðkum við trú á Krist til að iðrast. Blessun iðrunar gerir okkur mögulegt að komast aftur á veg fagnaðarerindisins og varðveita blessanir sáttmála okkar við Guð. Þegar við iðrumst af einlægni er Guð alltaf fús til að fyrirgefa og bjóða okkur velkomin aftur.

Að standast allt til enda þýðir að vera trú Guði allt til enda lífs okkar – á góðum tímum sem erfiðum, í velsæld sem mótlæti. Í auðmýkt leyfum við Kristi að móta okkur og gera okkur líkari sér. Við lítum til Krists í trú, trausti og von, án tillits til þess sem lífið færir okkur.

Að standast allt til enda þýðir ekki einfaldlega að halda út þar til við deyjum. Þess í stað þýðir það að við beinum lífi okkar, hugsunum og gjörðum að Jesú Kristi. Það felur í sér að halda áfram að iðka trú á Krist á hverjum degi. Við höldum líka áfram að iðrast, halda sáttmála okkar við Guð og leita eftir samfélagi heilags anda.

Að standast allt til enda felur í sér að „sækja fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna“. Faðir okkar á himnum lofar að þegar við stöndumst allt til enda munum við „öðlast eilíft líf“ (2. Nefí 31:20).

Ritningarnám

Standast allt til enda

Blessanir þeirra sem standast

Læra meira um þessa reglu

  • Gospel Topics: „Adversity

  • Leiðarvísir að ritningunum: „Standast,“ „Mótlæti

Ljósmynd
brosandi fjölskylda

Fagnaðarerindi Jesú Krists blessar öll börn Guðs

Fagnaðarerindi Jesú Krists er fyrir öll börn Guðs. Ritningarnar kenna að „allir eru jafnir fyrir Guði“, burtséð frá bakgrunni eða aðstæðum. Hann býður „[öllum] að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín“ (2. Nefí 26:33).

Fagnaðarerindið blessar okkur í jarðlífinu og um alla eilífð. Við erum líklegust til að verða hamingjusöm – bæði sem einstaklingar og sem fjölskylda – þegar við lifum eftir kenningum Jesú Krists (sjá Mósía 2:41; „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is). Að lifa eftir fagnaðarerindinu, dýpkar gleði okkar, innblæs gjörðir okkar og auðgar sambönd okkar.

Að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists getur líka verndað okkur frá því að taka ákvarðanir sem gætu skaðað okkur líkamlega eða andlega. Það hjálpar okkur að finna styrk og huggun á tímum prófrauna og sorgar. Það veitir leiðina að gleðilegu eilífu lífi.

Einn dásamlegasti boðskapur hins endurreista fagnaðarerindis, er sá að við erum öll hluti af fjölskyldu Guðs. Við erum ástkærir synir hans og dætur. Burtséð frá fjölskylduaðstæðum okkar á jörðinni, er hvert og eitt okkar meðlimur í fjölskyldu Guðs.

Annar dásamlegur boðskapur okkar er að fjölskyldur geti sameinast um eilífð. Fjölskyldan er vígð af Guði. Sæluáætlun himnesks föður gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar. Helgiathafnir og sáttmálar musterisins gera fjölskyldum mögulegt að vera saman að eilífu.

Með ljósi fagnaðarerindisins geta fjölskyldur leyst úr misskilningi, ágreiningi og vanda. Fjölskyldur sem þjáðar eru af ósætti er hægt að lækna með iðrun, fyrirgefningu og trú á kraft friðþægingar Jesú Krists.

Fagnaðarerindi Jesú Krists hjálpar okkur að þróa sterkari fjölskyldutengsl. Heimilið er besti staðurinn til að kenna og læra reglur fagnaðarerindisins. Heimili sem byggt er á reglum fagnaðarerindisins verður athvarf og öryggi. Það verður staður þar sem andi Drottins fær dvalið.

Ritningarnám

Læra meira um þessa reglu

Stutt til miðlungs lexíudrög

Eftirfarandi lexíudrög eru dæmi um það sem þið gætuð kennt einhverjum ef þið hafið aðeins stuttan tíma. Þegar þið notið þessi lexíudrög, skuluð þið velja eina eða fleiri reglur til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna framar í þessum lexíudrögum.

Spyrjið spurninga og hlustið er þið kennið. Leggið fram boð sem hjálpa fólki að læra hvernig vaxa á nær Guði. Mikilvægt er að bjóða viðkomandi að hitta ykkur aftur. Lengd kennslunnar fer eftir spurningunum sem þið spyrjið og hlustun ykkar.

Ljósmynd
trúboðar kenna konu

Það sem þið gætuð kennt fólki á 3 til 10 mínútum

  • Guð sendi son sinn Jesú Krist til jarðar til að leysa okkur frá synd og dauða.

  • Trú á Jesú Krist er regla verka og kraftar. Trú hjálpar okkur að upplifa styrkjandi kraft frelsarans í lífi okkar.

  • Trú á Jesú Krist leiðir okkur til iðrunar. Iðrun er það ferli að snúa sér til Guðs og hverfa frá synd. Þegar við iðrumst breytast gjörðir okkar, langanir og hugsanir og verða meira í samræmi við vilja Guðs.

  • Þegar við iðrumst fyrirgefur Guð okkur. Fyrirgefning er möguleg vegna þess að Jesús Kristur friðþægði fyrir syndir okkar.

  • Skírn er tvíþætt: skírn í vatni og skírn með anda. Þegar við erum skírð og staðfest erum við hreinsuð af syndum okkar, sem gerir okkur mögulegt að byrja að nýju í lífinu.

  • Eftir að við höfum verið skírð í vatni, hljótum við gjöf heilags anda með helgiathöfn staðfestingar.

  • Þegar við fylgjum trúföst vegi fagnaðarerindisins allt til enda lífs okkar, lofar Guð að við munum öðlast eilíft líf.

Prenta