28. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Olivers Cowdery, í Fayette, New York, í september 1830. Hiram Page, meðlimur kirkjunnar, átti ákveðinn stein og taldi sig fá opinberanir með hans hjálp varðandi uppbyggingu Síonar og fyrirkomulag kirkjunnar. Nokkrir meðlimir höfðu látið blekkjast vegna þessarar fullyrðingar og jafnvel Oliver Cowdery varð ranglega fyrir áhrifum þar af. Stuttu fyrir boðaða ráðstefnu leitaði spámaðurinn einlæglega til Drottins varðandi málið og þessi opinberun fylgdi.
1–7, Joseph Smith heldur lyklum að leyndardómunum, og aðeins hann fær opinberanir fyrir kirkjuna; 8–10, Oliver Cowdery skal prédika fyrir Lamanítum; 11–16, Satan blekkti Hiram Page og veitti honum falskar opinberanir.
1 Sjá, ég segi þér, Oliver, að þér mun gefast það, að kirkjan hlýði á allt, sem þú kennir henni með huggaranum, varðandi opinberanir og boðorð þau, sem ég hef gefið.
2 En sjá, sannlega, sannlega segi ég þér, að enginn skal útnefndur til að meðtaka boð og opinberanir í þessari kirkju, nema þjónn minn Joseph Smith yngri, því að hann meðtekur það, rétt eins og Móse.
3 Og þú skalt hlýðinn því, sem ég mun gefa honum, alveg eins og Aron, og boða kirkjunni af trúmennsku, með krafti og valdi, boðorðin og opinberanirnar.
4 Og hvenær sem huggarinn leiðir þig til að tala eða kenna, eða alltaf þegar kirkjunni er boðið það, mátt þú gjöra það.
5 En þú skalt ekki skrifa bjóðandi, heldur af visku —
6 Og þú skalt ekki segja honum fyrir verkum, sem yfir þig og kirkjuna er settur —
7 Því að ég hef gefið honum lykla þeirra leyndardóma og opinberana, sem innsigluð eru, þar til ég útnefni þeim annan í hans stað.
8 Og sjá, nú segi ég þér að fara til Lamanítanna og prédika fagnaðarerindi mitt meðal þeirra. Og meðtaki þeir kenningar þínar skalt þú stofna kirkju mína þeirra á meðal; og þú munt hljóta opinberanir, en ekki skrifa þær niður sem boðorð.
9 Og sjá nú, ég segi þér, að það hefur ekki verið opinberað og enginn maður veit hvar borgin Síon skal reist, en það mun gefið síðar. Sjá, ég segi þér, að það mun verða við landamörk Lamaníta.
10 Þú skalt ekki yfirgefa þennan stað fyrr en eftir ráðstefnuna, og þjónn minn Joseph skal með rödd hennar tilnefndur í forsæti hennar, og því, sem hann segir þér, skalt þú skýra frá.
11 Og enn fremur skalt þú taka bróður þinn, Hiram Page, og segja honum í einrúmi, að það, sem hann hefur skrifað eftir þessum steini, sé ekki frá mér komið og að Satan blekki hann —
12 Því að sjá, honum hefur ekki verið útnefnt þetta, og ekki skal heldur nokkrum í kirkjunni útnefnt það, sem er í mótsögn við sáttmála hennar.
13 Því að allt verður að gjörast með reglu og með almennri samþykkt kirkjunnar og með trúarbæn.
14 Og þú skalt aðstoða við að jafna allt þetta í samræmi við sáttmála kirkjunnar, áður en þú leggur upp í ferð þína til Lamaníta.
15 Og frá þeim tíma er þú leggur af stað og til þess tíma er þú snýrð aftur, mun þér gefið hvað gjöra skal.
16 Og öllum stundum skalt þú ljúka upp munni þínum og boða fagnaðarerindi mitt með gleðihljómi. Amen.