85. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 27. nóvember 1832. Þessi kafli er útdráttur úr bréfi spámannsins til Williams W. Phelps, sem bjó í Independence, Missouri. Opinberunin svarar spurningum varðandi þá heilögu, sem fluttust til Síonar, en höfðu ekki fylgt því boðorði að helga eigur sínar og þar af leiðandi ekki fengið arfleifð sína samkvæmt fastri reglu kirkjunnar.
1–5, Arfleifð í Síon fæst með helgun; 6–12, Einn máttugur og sterkur mun gefa hinum heilögu arfleifð þeirra í Síon.
1 Það er skylda ritara Drottins, sem hann hefur útnefnt, að skrá sögu og almenna kirkjuskýrslu um allt, sem gerist í Síon, og um alla þá sem helga eigur sínar og fá löglegan arfshlut frá biskupi —
2 Og einnig um lífsmáta þeirra, trú og störf, og einnig fráhvarf þeirra sem hverfa frá, eftir að hafa fengið arf sinn.
3 Það er andstætt vilja og boði Guðs, að skráð verði með fólki Guðs, nöfn þeirra, sem ekki hljóta arfleifð sína með helgun, í samræmi við lögmál þau sem hann hefur gefið, svo að hann geti krafið fólk sitt um tíund til að búa það undir dag refsingar og brennu.
4 Né heldur skal ættartala þeirra geymd eða höfð þar sem hana megi finna í einhverri skýrslu kirkjunnar eða sögu hennar.
5 Hvorki nöfn þeirra né nöfn feðra þeirra, né nöfn barna þeirra, skulu finnast í lögmálsbók Guðs, segir Drottinn hersveitanna.
6 Já, svo segir hin lága, hljóðláta rödd, sem hvíslar og smýgur í gegnum allt og iðulega fær bein mín til að skjálfa þegar hún opinberast, og segir:
7 Og svo ber við, að ég, Drottinn Guð, mun senda einn máttugan og sterkan, sem heldur veldissprotanum í hendi sér, íklæddur ljósi sér til hlífðar, og munnur hans mun mæla orð, eilíf orð, um leið og brjóst hans verður uppspretta sannleikans, til að koma reglu á hús Guðs, og úthluta með hlutkesti arfleifð hinna heilögu, en nöfn þeirra, feðra þeirra og barna finnast skráð í lögmálsbók Guðs —
8 En sá maður, sem Guð hefur kallað og útnefnt, og réttir fram hönd sína til að stilla örk Guðs, mun falla fyrir sverði dauðans líkt og tré, sem lostið er skærri eldingu.
9 Og allir þeir, sem ekki finnast skráðir í minningabókinni, munu enga arfleifð fá á þeim degi, heldur munu þeir sundurhöggnir og hlutur þeirra mun útnefndur meðal hinna vantrúuðu, þar sem er grátur og gnístran tanna.
10 Þetta tala ég ekki af sjálfum mér. Það sem Drottinn þess vegna talar, mun hann einnig uppfylla.
11 Og þeir, sem eru af hinu háa prestdæmi, og eins þeir, sem eru af hinu lægra prestdæmi eða meðlimir, sem ekki eiga nöfn sín skráð í lögmálsbókinni eða sem hafa fallið frá eða verið útilokaðir úr kirkjunni, munu ekki finna arfleifð sína á meðal hinna heilögu hins æðsta á þeim degi —
12 Þess vegna skal við þá breytt sem við börn prestsins, eins og skrifað stendur í öðrum kapítula, sextugasta og fyrsta og sextugasta og öðru versi Esrabókar.