Ritningar
Kenning og sáttmálar 9


9. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Olivers Cowdery í Harmony, Pennsylvaníu, í apríl 1829. Oliver er áminntur um þolinmæði og hvattur til að láta sér lynda, að svo stöddu, að skrá niður eftir upplestri þýðandans, frekar en að reyna sjálfur að þýða.

1–6, Aðrar fornar heimildir eru enn óþýddar; 7–14, Mormónsbók er þýdd með námi og með andlegri staðfestingu.

1 Sjá, ég segi þér, sonur minn, að þar eð þú þýddir ekki í samræmi við það sem þú æsktir af mér og hófst aftur að skrifa fyrir þjón minn Joseph Smith yngri, þá vil ég að þið haldið þannig áfram, þar til þið hafið lokið þessu heimildariti, sem ég hef treyst honum fyrir.

2 Og sjá, önnur rit hef ég, sem ég vil gefa þér kraft til að aðstoða við að þýða.

3 Ver þolinmóður, sonur minn, því að það er viska mín, að ekki sé æskilegt að þú þýðir nú á þessum tíma.

4 Sjá, það verk, sem þú ert kallaður til að vinna, er að skrifa fyrir þjón minn Joseph.

5 Og sjá, ástæðan fyrir því að ég hef svipt þig þessum réttindum er, að þú hélst ekki áfram eins og þú byrjaðir, þegar þú hófst að þýða.

6 Kvarta ekki, sonur minn, það er samkvæmt visku minni, að ég hef komið þannig fram við þig.

7 Sjá, þú hefur ekki skilið. Þú hefur talið að ég gæfi þér það, og ekki þyrfti að hugsa um annað en að spyrja mig.

8 En sjá, ég segi þér, að þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt, og sé það rétt, mun ég láta brjóst þitt brenna hið innra með þér. Þú munt þess vegna finna að það er rétt.

9 En sé það ekki rétt, munt þú ekkert slíkt finna, heldur aðeins sljóleika, sem veldur því að þú gleymir því sem rangt er. Þú getur þess vegna aðeins skrifað það sem heilagt er, að það komi frá mér.

10 Nú, ef þú hefðir vitað þetta, hefðir þú getað þýtt. Eigi að síður er ekki æskilegt að þú þýðir nú.

11 Sjá, það var æskilegt þegar þú byrjaðir, en þú óttaðist og tíminn er liðinn og það er ekki æskilegt nú —

12 Því að sérð þú ekki, að ég hef gefið þjóni mínum Joseph nægilegan styrk til að bæta það upp? Og hvorugan ykkar hef ég dæmt.

13 Gjör það sem ég hef boðið þér og þér mun vegna vel. Ver trúr og lát eigi undan freistingum.

14 Ver staðfastur við það verk, sem ég hef kallað þig til, og ekki skal glatast eitt hár á höfði þér og þér mun lyft upp á efsta degi. Amen.