2022
Hamingjuáætlun Guðs og guðleg örlög ykkar
Janúar 2022


„Hamingjuáætlun Guðs og guðleg örlög ykkar,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2022

Hamingjuáætlun Guðs og guðleg örlög ykkar

Skilningur á hamingjuáætluninni og að lifa eftir henni, gerir ykkur kleift að ná guðlegum örlögum ykkar.

fjallganga

Myndskreytingar eftir Albert Pinilla

Hvað kemur í hugann þegar þið heyrið orðið örlög? Hugsið þið um eitthvað fyrirfram ákveðið eða óhjákvæmilegt? Eitthvað hræðilegt eða dásamlegt sem ekki er hægt að breyta, sama hvað þið gerið? Hugsið þið kannski um hetju í bíómynd eða bók, sem fyrir átti að liggja að sigrast á þraut, bjarga heiminum eða verða konungur eða drottning?

Orðabækur gætu verið sammála slíkum merkingum, en þegar við hins vegar tölum um guðleg örlög, höfum við annað í huga. Ólíkt þeim örlögum sem þið lesið um í bókum eða sjáið í bíómyndum, þá er það mögulegt fyrir ykkur að ná guðlegum örlögum ykkar vegna þess að þið eruð börn Guðs, en það krefst þess líka að þið notið sjálfræði ykkar.

Guð er alvaldur á himni og jörðu. Sáttmálarnir sem við gerum við himneskan föður okkar, gera honum kleift að vera félagi okkar er við göngum í gegnum storma lífsins. Guðleg örlög okkar – möguleikar okkar í samstarfi við Guð – eru möguleg í gegnum hamingjuáætlun hans.

Skilningur á áætlun himnesks föður fyrir hamingju ykkar, mun hjálpa ykkur að koma auga á eilíft eðli ykkar og tilgang. Það að velja að gera og halda sáttmála við Guð mun hjálpa ykkur að ná þeim tilgangi.

Í bók Móse lesum við að „Móse var hrifinn upp á fjall eitt, afar hátt. Og hann sá Guð augliti til auglitis og talaði við hann“ (HDP Móse 1:1–2). Í þessari persónulegu heimsókn, kenndi Guð Móse um eilíft eðli hans. Þó að Móse væri jarðneskur og ófullkominn, komst hann að nokkru mikilvægu varðandi sig sjálfan, að hann var í raun sonur Guðs (sjá HDP Móse 1:6).

Minnist þess hver þið eruð

Satan vill að þið gleymið því hver þið eruð. Þegar Satan reyndi að letja Móse frá því verki sem Drottinn hafði fyrirbúið honum, svaraði Móse honum djarflega: „Hver ert þú? Því að sjá, ég er sonur Guðs“ (HDP Móse 1:13; leturbreyting hér). Móse mælti svo: „Vík burt héðan Satan, ekki skalt þú blekkja mig“ (HDP Móse 1:16; leturbreyting hér).

Móse sagði með öðrum orðum: „Þú getur ekki blekkt mig, því ég veit hver ég er. Þú hefur ekki ljós og dýrð Guðs. Því ætti ég þá að tilbiðja þig eða trúa lygum þínum?“

Gleymið aldrei að Guð elskar ykkur og þráir að hjálpa ykkur og blessa. Hann hefur guðlegan áhuga á ykkur, hverju fyrir sig, sem börn hans. Gefið ykkur tíma til að læra hvað það þýðir í raun að vera barn Guðs. Setið ykkur því næst markmið og takið ákvarðanir sem munu hjálpa ykkur að lifa eftir þeirri þekkingu dag hvern.

Ég ætla þér verk að vinna.

Þið takist á við aðkallandi hluti og áhyggjur. Þið eruð með heimavinnu, vináttusambönd, fjölskylduábyrgð og jafnvel atvinnu. Að sjálfsögðu er áskorun ykkar að finna jafnvægi milli allra þessara mikilvægu hlutverka án þess að gleyma megin tilgangi ykkar í lífinu. Guð ætlar ykkur verk að vinna (sjá HDP Móse 1:6). Það er svarið við spurningunni „Hvers vegna er ég hér á jörðunni?“

Sem börn Guðs komuð þið til jarðar til að hljóta jarðneskan líkama. Með líkama ykkar getið þið valið um að fylgja Jesú Kristi trúfastlega. Þið getið valið að hlýða boðorðum Guðs, meðtekið helgiathafnir og gert og haldið sáttmála fagnaðarerindisins. Það að gera þessa hluti, mun búa ykkur undir að uppfylla guðleg örlög ykkar.

Ef þið hafið þennan tilgang í huga, getið þið séð mikilvægi þess að meðtaka sakramentið í hverri viku, lesa ritningarnar, biðja daglega, setja ykkur verðug markmið og þjóna öðrum. Þessir hlutir munu minna ykkur á raunverulega ástæðu veru ykkar hér og hjálpa ykkur að vera verðug þess að meðtaka þær persónulegu opinberanir sem þið þurfið til að vera hamingjusöm og haldast á sáttmálsveginum. Þegar þið iðrist og fylgið Drottni vandlega, munið þið hljóta persónulega leiðsögn á öllum sviðum lífs ykkar.

ganga í gegnum frumskóg við foss

Stefnið að því að verða sá/sú sem ykkur er ætlað að verða

Áhyggjur heimsins, eða óöryggi ykkar sjálfra, kunna að valda því að þið missið sjónar á mikilvægu hlutverki ykkar í hinni miklu sáluhjálparáætlun Guðs. Ef þetta gerist, býð ég ykkur að koma til Krists (sjá Moróní 10:32). Ekkert í hinni eilífu áætlun Guðs er mögulegt án hans og með honum eru allir góðir hlutir innan seilingar.

Besta leiðin til að viðhalda hugsýn fagnaðarerindisins er að keppa að því að fylgja frelsaranum. Með trú og von á hann, getið þið tekist á við áskoranir lífsins af öryggi. Þið munið einnig hafa skýrari sýn á hlutina er þið takið ákvarðanir, leysið vandamál, vinnið að réttlátum markmiðum og takist á við freistingar.

Ákvarðanir ykkar munu hafa áhrif á eilífðina. Í gegnum Jesú Krist og friðþægingu hans getið þið öðlast gleði í þessu lífi og hinu næsta. Þið getið gert að veruleika þau eilífu örlög ykkar að meðtaka allt sem hann hefur og lifa eins lífi og hann gerir, sem er „eilíft líf, … mest allra gjafa Guðs“ (Kenning og sáttmálar 14:7).