„4 leiðir Jesú Krists til að styrkja ykkur,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.
4 leiðir Jesú Krists til að styrkja ykkur
Allt megna ég fyrir hjálp Krists.
Filippíbréfið 4:13
Víða um heim hafa hinir kristnu unun af þessu ritningarversi: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir“ (Filippíbréfið 4:13).
Sumir sem heyra þetta gætu haldið að það merkti að þeir geti staðist allar prófraunir, unnið alla leiki og fengið allar óskir uppfylltar. Það er þó ekki það sem þessi ritning kennir.
Hún var rituð af Páli postula meðan hann var í fangelsi. Þar sem Páll var fangi, var margt sem hann gat ekki gert, en hann vissi að Jesús Kristur gæti styrkt sig til að gera það sem mestu skiptir.
Það sama á við um ykkur!
1 Kristur styrkir ykkur með vitneskju
Jesús Kristur hefur gert mögulegar nokkrar leiðir fyrir ykkur til að geta vitað hvað er sannleikur. Hann hefur kennt okkur öllum að biðja ávallt (sjá 3. Nefí 18:18) og spyrja hvað sé sannleikur (sjá Moróní 10:4–5). Þið getið líka fundið og vitað hvað er sannleikur með því að rannsaka ritningarnar.
Bæn og ritningarnám færa andann inn í líf ykkar. Andinn kann að tala „í huga [ykkar] og hjarta“ (Kenning og sáttmálar 8:2), „fylla sál [ykkar] gleði“ og „upplýsa huga [ykkar]“ (Kenning og sáttmálar 11:13).
Á þennan hátt getið þið „hlýtt á hann“ – heyrt orð frelsarans og farið eftir því sem hann hefur sagt. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að þetta sé „forskrift að farsæld, hamingju og gleði í þessu lífi.“1
2 Kristur styrkir ykkur með getu til að framkvæma
Þið hljótið styrk þegar þið leitist við að halda boðorðin og taka góðar ákvarðanir sem leiða til friðar og hamingju. Jesús Kristur styrkir ykkur til að gera svo, jafnvel þegar erfitt er að taka þessar ákvarðanir. Stundum takið þið ef til vill slæmar ákvarðanir. Sem betur fer gerir friðþæging frelsarans iðrun mögulega. Vegna Jesú Krists getið þið orðið hrein og fundið gleði. Hann getur styrkt ykkur til að „gera betur og verða betri“2 dag hvern.
3 Kristur styrkir ykkur með getu til að standast
Þegar Páll var í fangelsi, ritaði hann: „Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef.
Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort“ (Filippíbréfið 4:11–12).
Með öðrum orðum, Páll lærði að fyrir Krist getur hann sigrast á og lært af raunum sínum og áskorunum. Jesús Kristur getur styrkt ykkur til að gera slíkt hið sama.
Frelsarinn upplifði „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar.“ Hann tók á sig misbresti okkar, svo að „hann megi vita … hvernig fólki hans verður best liðsinnt [það þýðir að hjálpa] í vanmætti þess“ (Alma 7:11–12). Hverju sem þið standið frammi fyrir, þá getur Jesús Kristur styrkt ykkur til að standast og framkvæma það sem þið gætuð ekki gert á eigin spýtur.
4 Kristur styrkir ykkur með getu til að verða
Jesús Kristur hefur gert upprisu að veruleika fyrir okkur öll og hann gerir eilíft líf mögulegt fyrir þá sem iðrast, taka á móti nauðsynlegum helgiathöfnum og gera og halda sáttmála sem tengjast þeim. Án Krists gætum við ekki uppfyllt það sem himneskur faðir vill helst – að við verðum líkari honum og syni hans, Jesú Kristi, og dveljum hjá þeim að eilífu.
Þið getið orðið líkari Jesú Kristi þegar þið lærið af honum, treystið og trúið á hann og fylgið fordæmi hans. Þetta mun gera ykkur mögulegt að lifa í aukinni trú, von, kærleika, þolinmæði, auðmýkt, hreinleika og hlýðni. Þetta eru allt eiginleikar frelsarans.
Þegar þið leitist við að fylgja Jesú Kristi, mun hann vera von ykkar og ljós ykkar, sem mun gera ykkur mögulegt að verða allt það sem hann veit að þið getið orðið. Með Páli munið þið svo geta sagt: „Allt get ég gert með hjálp Krists sem mig styrkan gerir.“