2023
Loforð okkar að vera ljós
Janúar 2023


„Loforð okkar að vera ljós,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.

Kom, fylg mér

Matteus 3

Loforð okkar að vera ljós

Jesús Kristur er ljós heimsins. Gerum allt sem við getum til að miðla ljósi Jesú Krists.

Ljósmynd
skírn

Fjöldi fólks kom hvaðanæva að til að sjá manninn í eyðimörkinni, sem klæddist fötum úr úlfaldaskinni og át engisprettur og hunang. Það hafði áhuga á að heyra kenningar hans um frelsarann, iðrun og skírn. Eftir að hafa hlustað á hann vildu margir láta skírast. Hann skírði þá sem höfðu iðrast. Þessi maður hét Jóhannes skírari.

Dag einn, þegar Jóhannes skírði fólk í ánni Jórdan, kom Jesús Kristur og bað um að láta skírast. Jóhannes varð hissa. Hann vissi að Jesús hlýddi alltaf boðorðum Guðs og þurfti ekki að iðrast. Reyndar fannst honum að Jesús ætti að skíra sig (sjá Matteus 3:14)! Jesús útskýrði að Guð hefði boðið öllu fólki að láta skírast, svo hann þyrfti líka að skírast til að vera fyrirmynd. Jóhannes samþykkti það og skírði Jesú í ánni Jórdan.

Skírn Jesú kennir okkur að við verðum líka að láta skírast. Þegar þið voruð skírð, gerðuð þið sáttmála og sýnduð vilja ykkar til að fylgja fordæmi frelsarans, ekki bara við skírn ykkar heldur alltaf.

Loforð og tækifæri

Með skírninni gerið þið sáttmála við Guð og lofið að taka á ykkur nafn Jesú Krists (sjá Mósía 5:8–10). Þið lofuðuð líka að halda boðorð hans, standa sem vitni Guðs „alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera“ (Mósía 18:9) og að þjóna honum (sjá Mósía 18:8–10; Kenningu og sáttmála 20:37).

Í hverri viku í kirkju endurnýið þið þennan sáttmála, þegar þið meðtakið sakramentið (sjá Kenningu og sáttmála 20:77, 79). Síðan „[sækið þið] fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna“ (2. Nefí 31:20).

Á leiðinni munið þið fá mörg tækifæri til að fylgja fordæmi frelsarans og sýna ást ykkar til hans og þeirra sem eru umhverfis ykkur. Öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni hefur sagt: „Við höfum nágranna til að blessa, börn til að vernda, fátæka til að lyfta og sannleikann til að verja. Við höfum rangindi til að leiðrétta, sannleika til að miðla og gott til að gera. Í stuttu máli, þá höfum við líf trúfasts lærisveins til að gefa.“1

Ljós hinum nauðstöddu

Okkar fullkomna fyrirmynd, frelsarinn, hafði alltaf unun af því að þjóna öðrum og hann „gekk um [og] gerði gott“ (Postulasagan 10:38).

Á erfiðum tímum, er Jesús Kristur ljósið sem „skín í myrkrinu“ (Jóhannes 1:5). Hann hefur líka kennt okkur að vera ljós. Hann sagði: „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft – það sama og þér hafið séð mig gjöra“ (3. Nefí 18:24).

Sem hluti af skírnarsáttmála okkar, lofið þið að vera „fús að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar“ og „syrgja með syrgjendum … og hugga þá, sem huggunar þarfnast“ (Mósía 18:8–9).

Þegar þið rekist á einhverja sem eru sorgmæddir eða niðurdregnir, getur verið augljóst hvernig á að hjálpa. Aðrir tímar koma þó, þar sem þið vitið ekki hvað þið eigið að segja eða gera. Á þeim augnablikum getið þið enn opnað hjarta ykkar. Þið getið hlustað á þá og stutt þá.

Þegar þið elskið aðra og þjónið þeim, verður ljós frelsarans bjartara innra með ykkur og mun lýsa upp veginn framundan. Það mun líka laða að aðra sem eru að leita að ljósi frelsarans. Með því að sækja fram og halda loforðin, sem þið gáfuð í skírninni, munið þið finna margar leiðir til að gera þennan heim betri og bjartari.

Heimildir

  1. Jeffrey R. Holland, aðalráðstefna, október 2012.

Prenta