„Trú í myrkri,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.
Trú í myrkri
Hér eru nokkrar ábendingar sem hafa hjálpað mér með spurningar og efasemdir.
Þegar ég var ungur drengur, heimsótti fjölskylda mín oft þjóðgarðinn Great Basin í Nevada í Bandaríkjunum. Eitt merkilegt í garðinum eru Lehman-hellarnir.
Leiðsögumaður leiðir ykkur djúpt inn í hellinn og á ákveðnum tímapunkti slekkur hann öll ljós. Þið upplifið algjört myrkur. Það er þung tilfinning og tilhugsunin um að komast út úr hellinum án nokkurs ljóss er yfirþyrmandi. Sem betur fer, þá kveikir leiðsögumaðurinn alltaf ljósið aftur og leiðir ykkur út á öruggan hátt.
Stundum stöndum við frammi fyrir spurningum og jafnvel efasemdum um kirkjuna og vitnisburð okkar. Það getur verið þungt og skapað óvissu, eins og að vera í hinum myrka helli.
Það er í lagi að hafa spurningar og áhyggjur. Það sem mestu skiptir er hvernig þið takist á við það.
Hér eru nokkrar ábendingar sem hafa hjálpað mér er spurningar og efasemdir vakna.
Iðka trú
Ég hef komist að því að ef ég nálgast spurningar og áhyggjur með trú að viðmiði, þá get ég alltaf fundið leið fram á við. „Trú er ekki að eiga fullkomna þekking“ (Alma 32:21). „Þótt ekki sé nema löngun til að trúa,látið þá undan þessari löngun“ (Alma 32:27).
Heimurinn mun segja að ef þið getið ekki sannað eitthvað með vísindalegum viðmiðunum, þá getur það ekki verið satt. Þetta er ekki háttur Drottins. Eins og frelsarinn sagði við Tómas, sem vildi ekki trúa nema hann hefði sjálfur þreifað á sárum hins upprisna frelsara: „Vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður“ (Jóhannes 20:27).
Biðjið, leitið, knýið á
Orðin „biðja, leita, knýja á“ koma oft fyrir í ritningunum (sjá Matteus 7:7; Kenningu og sáttmála 88:63). Háttur Drottins við að hjálpa okkur með spurningar er sá að við spyrjum hann spurninga.
„Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð“ (Jakobsbréfið 1:5). Farið beint til uppsprettu alls sannleika. Guð elskar ykkur og mun liðsinna ykkur.
Vera sannleiksleitandi
Ég hef komist að því að þeir sem eru heiðarlegir og auðmjúkir í sannleiksleit sinni, munu að endingu oft finna svör við spurningum sínum. Á hinn bóginn, munu þeir sem eru bara að reyna að finna misbresti, aðeins færast lengra og lengra frá sannleikanum.
Verið sannleiksleitendur. Sannleikurinn er til og þið getið fundið hann.
Búið til hakreiti: „Þessu verður svarað síðar“
Hvað gerið þið þá ef þið hafið í auðmýkt og einlægni leitað svara og þau virðast hreinlega ekki koma?
Ég segi aftur að ég kýs ég að takast á við það með trú. Í huganum hef ég búið til lítinn kassa á hillu – eins og fallega fjársjóðskistu. Utan á hann eru rituð orðin: „Þessu verður svarað síðar.“
Alltaf þegar spurningar eða áhyggjur vakna sem ég fæ ekki ráðið við, þá rita ég það á ímyndað blað, brýt það snyrtilega saman og set í kassann. Ég set hann síðan aftur á hilluna.
Með því sýni ég trú í verki á að Drottinn muni dag einn svara því. Kannski gerir hann það, kannski gerir hann það ekki. Það er undir honum komið í hans óendanlegu visku.
Vel á minnst, þá hefur sumum spurningum mínum verið svarað. Margar eru þó enn í kassanum. Það truflar mig ekki.
Kæru vinir í Kristi, verið sannleiksleitendur.
Þegar trú ykkar verður meiri, mun Drottinn verða með ykkur. Þegar þið komið til hans í trú, mun hann opinbera ykkur það sem þið þurfið að vita, á réttum tíma.