2023
Hið endanlega kraftaverk
Janúar 2023


„Hið endanlega kraftaverk,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.

Kom, fylg mér

Lúkas 1, 5

Hið endanlega kraftaverk

Það er eitt kraftaverk sem er mikilvægara öllum.

Með Guði er allt mögulegt (sjá Lúkas 1:37; Filippíbréfið 4:13). Getið þið þá beðið um bókstaflega hvað sem er og fengið það til að rætast? Hvers vegna upplifa sumir kraftaverk á meðan svo virðist sem aðrir geri það ekki? Hvað þýðir þetta eiginlega allt fyrir ykkur?

Þrjú forn kraftaverk, þrjú nútíma kraftaverk og eitt fullkomið kraftaverk kenna okkur aðeins meira.

1

Fornt kraftaverk

Ljósmynd
Jósef, María og barnið Jesús

Myndskreyting: Camila Gray

María varð líklega meira en lítið hissa þegar engillinn Gabríel sagði henni að hún yrði móðir frelsarans. Það hefði ekki átt að vera hægt. Engillinn Gabríel útskýrði þó að Jesús myndi vera sonur Guðs og sagði: „Guði er enginn hlutur um megn“ (Lúkas 1:37). Engillinn hafði líka á réttu að standa. María fæddi frelsara heimsins.

Nútíma kraftaverk

Ljósmynd
systurtrúboðar hjálpa aldraðri konu

Tveir trúboðar, sem þjónuðu í Mexíkó, fóru yfir mikla umferðargötu á degi hverjum. Stundum biðu þær í 10 mínútur áður en þeim gafst tækifæri til að fara yfir og þær þurftu venjulega að hlaupa! Svo hittu þær mjög aldraðan, mjög hægfara, lítt virkan meðlim. Hún vildi fara í kirkju með þeim, en – hér kemur það sem ómögulegt var – hún varð að fara yfir hina fjölförnu götu. Ó nei, trúboðarnir gátu ekki borið hana yfir (þótt þær hafi örugglega hugsað um það!). Þær gerðu því kraftaverk. „Þegar við komum að götunni,“ segir einn trúboðanna, „þá komu engir bílar. Við gátum gengið mjög hægt og örugglega yfir.“

Ómögulegt? Hugsið málið aftur!

Með Guði eru allir hlutir mögulegir (jafnvel ómögulegir hlutir!).

2

Fornt kraftaverk

Ljósmynd
Jesús Kristur læknar sjúkan mann sem látinn er síga niður um þak

Maður nokkur var lamaður. Hann trúði að frelsarinn gæti læknað sig. Jesús var þó umkringdur fólki og það var erfitt að ná til hans. Hvað gerði þá maðurinn? Vinir hans létu hann síga í rekkju hans í gegnum þak hússins til að ná til frelsarans. Nei, það var líklega ekki mjög auðvelt. Vinir hans hljóta þó að hafa haft mikla trú. Það borgaði sig – Jesús fyrirgaf syndir mannsins og læknaði hann (sjá Lúkas 5:17–26).

Nútíma kraftaverk

Ljósmynd
kameljón

Ella W. var að leika sér með vinum sínum í garðinum þegar nokkrar vinkonur hennar týndu gæludýrinu sínu, kameljóni. Þetta hljómar kannski ekki eins og mikið mál. Hafið þó í huga að kameljón skipta um lit til að falla inn í umhverfi sitt. Eftir að hafa leitað í smá stund, ákvað Ella að það væri kominn tími til að biðja í trú. Þeim tókst fljótlega að finna kameljónið í tré! „Þegar það var komið í fang einhvers, fórum við með þakkarbæn til himnesks föður,“ segir Ella.

Kraftaverk gerast fyrir trú á Jesú Krist

Hið ómögulega er Guði alltaf mögulegt. Við þurfum þó að hafa trú á frelsaranum (eða að minnsta kosti löngun til að trúa!) og að bregðast við þeirri trú til að kraftaverk geti gerst.

3

Fornt kraftaverk

Ljósmynd
Elísabet, Sakaría og barnið Jóhannes skírari

Elísabet og Sakaría höfðu verið gift í mörg ár en áttu engin börn. Stundum gæti þeim hafa liðið eins og trúföstum bænum þeirra væri ekki svarað. Á endanum urðu þau of gömul til að eignast börn. Þá birtist engill Sakaría og sagði honum að Elísabet myndi eignast barn. (Skemmtileg staðreynd: Barnið varð að lokum Jóhannes skírari!) Á endanum varð hið ómögulega mögulegt. Elísabet og Sakaría þurftu að bíða mjög, mjög lengi (sjá Lúkas 1).

Nútíma kraftaverk

Ljósmynd
prestdæmisblessun

Lindsey M. þjáðist af flogaveiki. „Á hverjum morgni sárbað ég himneskan föður minn að taka flogaköstin í burtu,“ segir Lindsey. Þau hurfu þó ekki. Á meðan Lindsey beið eftir lækningu fékk hún prestdæmisblessun sem færði henni frið. Sá friður var sjálft kraftaverkið. „Þegar við snúum okkur til himnesks föður, mun hann án efa vera til staðar fyrir okkur, gera mörg kraftaverk og veita huggun,“ segir hún. Lindsey fór á endanum í aðgerð sem hjálpaði við flogaveikina.

Kraftaverk verða samkvæmt vilja Guðs

Guð getur gert alla hluti. Þið getið átt sterka trú. Kraftaverk verða í samræmi við tímasetningu og vilja himnesks föður og á hans hátt. Leitið að öðrum kraftaverkum á leiðinni, eins og friði og styrk til að fá staðist.

Hið endanlega kraftaverk

Við höfum fjallað mikið um kraftaverk. Það er þó eitt kraftaverk sem er stærra og mikilvægara öllum öðrum. Það kraftaverk var þegar sonur Guðs kom til jarðarinnar sem barn, kenndi síðar og læknaði og gaf síðan sitt eigið líf. Jesús Kristur tók á sig syndir okkar, sársauka og misbresti. Kraftaverk hans felur í sér þrjá daga í gröf og síðan upprisu, sem leiddi af sér líf eftir dauðann fyrir okkur öll. Þetta kraftaverk breytti öllu.

Það er auðvelt að festast í því að reyna að hafa trú á tilteknu kraftaverki. Það getur líka verið erfitt þegar við þekkjum ekki vilja himnesks föður. Þannig að í stað þess að beina trú ykkar að kraftaverki sem þið viljið, skuluð þið beina henni að kraftaverki friðþægingar frelsarans. Trúið að ekkert sé ómögulegt fyrir Guð, þar með talið það sem þið eruð að biðja um. Trúið líka að vilji hans sé betri en vilji ykkar sjálfra. Ef bænum ykkar er ekki svarað á þann hátt sem þið vonið, mun hann styrkja ykkur og hjálpa ykkur að standast allt til enda.

Hin endanlega aflausn

Þegar þið beinið trú ykkar að Jesú Kristi, munið þið skilja hvað það þýðir að Guði er allt mögulegt. Þið munið trúa því að himneskur faðir geti svarað bænum ykkar og þið munið treysta á vilja hans og hljóta frið hans þegar hlutirnir fara ekki eins og vænst var. Trúið því á Jesú Krist. Hann er kraftaverkið. Allt er mögulegt með honum.

Prenta