2023
Fylgja hinu sanna ljósi
Janúar 2023


„Fylgja hinu sanna ljósi,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.

Kom, fylg mér

Jóhannes 1:1–5

Fylgja hinu sanna ljósi

Ljós Jesú Krists er alltaf til staðar fyrir ykkur – í gær, í dag og eilíflega.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Hugið að liljunum, eftir Haley Miller

Þegar sólin settist enn einn sunnudaginn árið 1948, var ég á gangi við Trent-ána í Nottingham í Englandi. Ég var 20 ára trúboði á þeim tíma. Þetta hafði verið langur og þreytandi dagur en ég var glaður og ánægður í starfinu.

Þegar ég gekk meðfram ánni, fór ég með bæn í hjarta. Í von um að finna einhverja leiðsögn frá Drottni, spurði ég: „Er ég að gera það sem þú vilt?“

Yfirgnæfandi tilfinning friðar og skilnings kom skyndilega yfir mig. Á því augnabliki komst ég að því að Jesús Kristur þekkti mig og elskaði mig. Ég sá hvorki sýn né heyrði rödd, en ég hefði ekki getað vitað af raunveruleika og guðleika Krists á áhrifaríkari hátt, ef hann hefði staðið frammi fyrir mér og kallað nafn mitt.

Frá þeim degi til dagsins í dag hafa allar mikilvægar ákvarðanir sem ég hef tekið verið undir áhrifum af vitneskju minni um að Jesús Kristur er sonur Guðs. Ég elska hann dýpra og meira en orð fá lýst. Hann er Drottinn minn, frelsari minn, lausnari minn og vinur minn.

Í gegnum árin og víða um heim hef ég vitnað um frelsarann. Ég veit að hann er hið sanna og eilífa ljós sem „skín í myrkrinu“ (Jóhannes 1:5). Það eru forréttindi fyrir okkur að koma til hans, fylgja honum og finna ljós hans í lífi okkar.

Sannleikurinn um ljósið

Á sólarhringsfresti breytist dagur í nótt og nótt í dag. Þegar við upplifum næturmyrkrið höfum við ekki áhyggjur af því að sólin sé farin. Við vitum að jörðin mun snúast og sólin mun skína á okkur aftur. Við getum kannski ekki alltaf séð eða fundið ljósið, en það er alltaf til staðar.

Það sama á við um hið andlega. Ég var minntur á þetta fyrir mörgum árum þegar ég og eiginkona mín, Barbara, horfðum lotningarfull upp í næturhimininn. Þær miljónir stjarna sem við sáum virtust einstaklega skærar og fagrar. Hugsanir mínar beindust síðan af undri að Jesú Kristi.

Hann var „í upphafi hjá Guði“ (Jóhannes 1:2). Hann skapaði jörðina og óteljandi heima, undir handleiðslu himnesks föður (sjá HDP Móse 1:33). Hann er sá kraftur sem lýsir upp sólina, tunglið og stjörnurnar (sjá Kenningu og sáttmála 88:7–10). Hann er uppspretta ljóss og lífs allra hluta (sjá Jóhannes 1:3–4; Kenningu og sáttmála 93:10). Hann lýsti yfir: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ (Jóhannes 8:12).

Á okkar dögum vinnur Satan yfirvinnu til að loka á ljós frelsarans. Þú getur þó aldrei verið á stað svo dimmum að ljós Jesú Krists nái ekki að skína fyrir þig, ef þú vilt koma til hans. Ljósið hans er alltaf til staðar.

Ljósmynd
Morgunn, hádegi og kvöld

Myndskreyting: Adam Nickel

Hann lýsir veg okkar

Sem sonur Guðs, bjó Jesús Kristur að dýrð með Guði föðurnum „áður en [heimurinn] var til“ (Jóhannes 17:5). Hann var fullkomlega hlýðinn föður sínum (sjá Jóhannes 5:30) og fús til að koma til jarðarinnar. Hann afsalaði sér dýrð sinni til að fæðast í lítilmótlegri jötu, þar sem móðir hans „vafði hann reifum og lagði hann í jötu“ (Lúkas 2:7).

Á æskuárum sínum, fór hann til „að vera í húsi föður [síns]“ (Lúkas 2:49) og vakti furðu þeirra sem hlýddu á kenningar hans. Í þjónustu sinni hafði hann mátt til að framkvæma kraftaverk, til að blessa og lækna sjúka, til að vekja hina látnu til lífs og að lokum sjá okkur fyrir hinni óendanlegu friðþægingu.

Í öllu því sem frelsarinn hefur sagt og gert, einkum í friðþægingarfórn sinni, hefur hann vísað okkur leiðina til föður okkar á himnum. Fordæmi hans og kenningar lýsa upp veginn sem við verðum að feta til að snúa aftur til okkar himneska heimilis.

Miðla ljósi hans

Þegar við finnum fyrir ljósi sonar Guðs í lífi okkar, ættum við að leitast við að miðla öðrum því ljósi. Ég elskaði að vera trúboði í Englandi. Ég elskaði að vera trúboðsforseti í Kanada. Ég elska líka núverandi köllun mína sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, er gerir mér kleift að vitna um Jesú Krist um allan heim.

Frelsarinn kenndi: „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft – það sama og þér hafið séð mig gjöra“ (3. Nefí 18:24).

Ljós frelsarans skín innra með okkur í hvert sinn sem við biðjum og leitum orðs hans í ritningunum. Ljós hans skín þegar við elskum eins og hann elskar, miðlum vitnisburði okkar og veitum óeigingjarna þjónustu. Þetta varpar myrkrinu út úr lífi okkar og laðar að aðra sem eru að leita að ljósi hans.

Ljósmynd
stelpa með strák sem heldur á ljósi

Ljós hans varir að eilífu

Ljós Jesú Krists er alltaf til staðar fyrir ykkur. Ekkert – nákvæmlega ekkert – getur nokkurn tíma yfirbugað eða slökkt ljós hans. Það mun vara að eilífu. Jesús Kristur „er ljós og líf heimsins, já, óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast“ (Mósía 16:9).

Ég er eilíflega þakklátur fyrir þá reynslu sem ég varð fyrir sem ungur trúboði þegar ég kynntist þessu sjálfur. Ég veit þetta betur í dag, þar sem ég hef upplifað lífið með öllum erfiðleikum þess og gleði.

Ef þú veist ekki hvert þú átt að fara eða hvað þú átt að gera, einblíndu þá á hið sanna ljós sonar Guðs. Ef þú ert fús til að koma til hans og fylgja ljósi hans, mun hann lýsa veg þinn.

Prenta